15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (762)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Eggert Pálsson:

Jeg hefi ekki átt kost á að taka þátt í umræðum um þetta mál, þar sem jeg hefi verið fjarverandi, og vil því nota tækifærið nú við þessa síðustu umr. til að gera með fám orðum grein fyrir atkv. mínu.

Jeg fæ ekki sjeð, að frv. sje á nokkurn hátt nauðsynlegt, eða að það bæti í einu eða öðru úr ástandinu, eins og nú er komið.

Stjórnin hefir nú nýlega skipað innflutningsnefnd, sem alla ber skylda til að snúa sjer til. Skal jeg láta ósagt, hvort stjórnin hafi haft nokkra heimild til þessarar ráðstöfunar, en þar sem þing nú er saman komið, og þar eð það hefir tekið þessu þegjandi og hljóða laust, má telja, að það hafi með þögninni viðurkent, að stjórnin hafi ekki farið lengra en hún hefir heimild til. Annars hefði þingið hlotið að nema þessa ráðstöfun hennar úr gildi. En fyrst nú svona er komið, er það öllum augljóst, að aðalatriði frv. er þegar gengið í gildi.

Hitt atriðið, að stjórnin fái heimild til að ákveða, hve mikið skuli lagt á innfluttar vörur, virðist í fljótu bragði meira nýmæli. En ef betur er að gáð sjest, að það er líka óþarft. Enn sem komið er er verðlagsnefndin við lýði, og hennar verk er einmitt, eða á að vera, að ákveða verð á vöru. Fyrst þyrfti að minsta kosti að afnema verðlagsnefndina, áður en þörf er á þessu nýja ákvæði. Það væri til einskis gagns, en gæti orðið til bölvunar, að hafa það tvent í lögum, að bæði verðlagsnefnd og stjórn ákvæðu verðlag á vöru.

Frv. er fálm út í loftið. Fáar hreppsnefndir í landinu mundu láta slíkt smíð frá sjer fara. Þegar litið er á kringumstæðurnar, sjest, að það er gersamlega óþarft, og greiði jeg hiklaust atkv. á móti því.