06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (812)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Mál þetta hefir nú verið svo mikið rætt frá öllum hliðum, að jeg efast um að jeg bæti mig nokkuð þar á.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði, að málið hefði legið svo stuttan tíma fyrir þinginu og væri því ókunnugt háttv. þm. Það get jeg ekki fallist á að sje rjett.

Síst af öllu getur hæstv. stjórn verið málið ókunnugt, þar sem síldarútvegsfulltrúarnir lögðu málið fyrir hana 11. júní og það á sama grundvelli og hjer kemur fram.

Álitsskjali þeirra, sem dagsett var 21. júní, hefir líka verið útbýtt, og er því ekki bægt að segja, að málið sje þingi eða stjórn ókunnugt. Auk þess hefir því ekki verið hraðað hjer í deildinni frekar en gerist um sum önnur mál. Háttv. þm. hljóta því að hafa kynt sjer málið, svo að þeir geti óhikað greitt því atkv.

Jeg verð að segja það, að mjer þykir það merkilegt, hve mikið hefir verið rætt um þetta tilboð frá Svíum. Jeg gat jafnvel ekki fallist á orð háttv. þm. Ak. (M. K) um það atriði, auk heldur orð hinna, þar sem hann var að skora á stjórnina að gera sem fyrst út um samningana.

Við vorum þó allir hjer staddir, bjargráðanefndarmenn úr báðum deildum, þegar hæstv. forsætisráðherra kom og kallaði okkur saman, og tilkynti okkur að Svíar hefðu boðið 90 aura í kg. af síldinni, og óskaði álits okkar Og leist öllum að svara tilboðinu játandi. Jeg leit svo á, að hæstv forsætisráðherra hefði ekki síðar en að 10 mínútna fresti sent fulltrúunum skeyti um að ganga að tilboðinu. Og þó er enn verið að tala um einhverja óvissu.

Þess ber líka að gæta, að 90 aura í sænskri mynt svara til 95 au. í danskri. Það verður því 10 aurum hærra en gert er ráð fyrir í frv. Það verða því alls 500.000 kr. munur. Fyrir það, sem til Svíþjóðar selst, fengist þá samtals 475 þús. kr.

Þegar þetta er athugað, þá hættir áhættan að vaxa í augum, eftir því sem jeg get best sjeð, því að þótt ekkert af afganginum seldist til Ameríku, þá er verðlagið á honum orðið svo lágt, að næstum má heita ómögulegt að á honum verði tjón.

Jeg held því að hægt hefði verið að hraða málinu og ljúka því hjer í dag, þar sem svona ábyggilegar tölur hafa verið sýndar. Tel jeg það eingöngu vera af skilningsleysi eða þrjósku að ekki er við þær kannast.

Samanburður á kjötsölu og síldar á alls ekki við. Um kjötið er hægt að vita fyrirfram, þar sem það er föst eign í landinu, en um síldina verður ekki vitað fyr en hún hefir veiðst. Fyr verður ekki vitað, hve mikið kemur á markaðinn. En árið í fyrra sýnir, að ekki yrði mikið tapið fyrir landssjóðinn, ef ekki veiddist meir en þá.