12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (857)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Matthías Ólafsson:

Mjer þykir leitt, að hæstv. fjármálaráðherra vill ekki taka aftur brtt. sína, vegna þess, að jeg tel það afar óaðgengilegt fyrir síldareigendur, að eiga að bíða eftir andvirði síldarinnar fram til 1. júlí næsta ár.

Það virðist ekkert sjerlega erfitt fyrir landsstjórnina, þótt hún þyrfti að hafa lokið að borga út síldarverðið í aprílmánuði. Í janúar verður hún vafalaust búin að fá mikið meir en helming af samningsverði síldarinnar. Skyldi maður þá halda, að í apríl ætti hún að geta int af hendi að minsta kosti miljón.

Annars þykir mjer það einkennilegt, að enn þá skuli koma fram nokkur mótmæli móti því, að útvegsmenn fái meiri hluta ágóðans af síldarsölunni. Ef menn þeir, er flytja þær kenningar, trúa því, að landssjóður geti haft nokkurt tjón af þessu, þá myndu þeir vafalaust greiða atkv. með því, að selja þessar 50 þús. tunnur fyrir 10 kr. hverja tunnu, og þá er landssjóður sloppinn. Jeg býst nú við, að útvega mætti þegar kaupanda að 50.000 tunnum á 10 kr. tunnuna og ábyrgjast borgun fyrir apríllok. Jeg álít, að jafnvel þótt ekkert af þessum 50 þús. tunnum seldist út úr landinu, ætti hættan alls engin að vera, því að hjer á landi má vel hagtæra 50 þús. tunnum, bæði til manneldis og skepnufóðurs, þegar verðið þarf ekki að vera hærra en 10—20 kr.