08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

26. mál, laun embættismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Það eru að eins örfáar athugasemdir.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) mintist sjerstaklega á það í seinni ræðu sinni, hversu lítill munur væri gerður á launum þeirra sýslumanna og bæjarfógeta, sem mesta peningaábyrgð hefðu og mest að gera, og hinna, sem minna hefðu að gera og minni peningaábyrgð. Það er rjett, að lítill munur er gerður. Það er ekki farið hátt með hæstu launin og álitamál, hvort ekki hefði átt að fara hærra. En þetta er ekki stjórninni að kenna. Eftir stjórnarfrv. voru dýrtíðaruppbótinni ekki sett nein takmörk, en hv. Nd. takmarkaði hana við 9500 kr., er gerir það að verkum, að launin verða mjög jöfn meðan dýrtíðin helst. Takmörkun þessi var gerð til þess að takmarka útgjöld ríkissjóðs. Var þessi takmörkun brot á þeirri reglu, sem að öðru leyti var viðurkend í frv., og ef átt hefði að setja nokkra takmörkun, er þessi of lágt sett. Um þetta er jeg því samdóma hv. þm. Ísaf. (M. T.).

En hitt get jeg ekki viðurkent, að launin sjeu ekki sanngjarnlega ákveðin í frv., miðað við, hvað ríkissjóður getur borgað. Auðvitað er ekki hægt að segja nákvæmlega um það, hvort landið er ríkt eða fátækt eftir fólkstölu. En ætla má að það sje ekki ríkt, og ef svo er, er hægt að krefjast að það launi eftir megni en ekki fram yfir það. Ómögulegt er að segja annað en frv., eins og það var af stjórnarinnar hálfu lagt fyrir Alþingi, hafi verið tiltölulega sanngjarnt í garð embættismanna og þar gengið eins langt og hægt var. Samanburður launa er altaf álitamál, og þegar tekið er tillit til þess, að sýslumenn og bæjarfógetar hafa eftir skoðun almennings verið álitnir best launaðir hingað til, er ekki að furða, þó mismunur á launum þeirra frá því sem var og verður samkvæmt frv., verði minni en annarsstaðar.

Jeg varð að fara frá um stund, svo jeg heyrði ekki þann kafla úr ræðu háttv. þm. Ísaf. (M. T.), sem hv. þm. Snæf. (H. St.) mintist á og snerti læknana, enda kemur ekki sjerstaklega til minna kasta að verja þau ákvæði.

Jeg álít nauðsynlegt að borga þeim svo vel, að hægt sje að halda þeim í embættum. (M. T.: Borga þeim eins og þeir setja upp). En hitt, hvernig dýrtíðaruppbót þeirra var ákveðin í fyrra, var hvorki þeim eða stjórninni að kenna. Þeir báðu um, að taxtinn væri hækkaður, og áleit jeg fyrir mitt leyti það heppilegt, en þingið vildi ekki líta við þeirri beiðni og ákvað að þeir skyldu fá dýrtíðaruppbót, er næmi hálfum aukatekjum þeirra. Sjálft þingið ber því ámælið af því, að dýrtíðaruppbót lækna var ekki heppilega ákveðin, og hefði það þó getað sagt sjer sjálft, að svo myndi fara. Stjórnin var auðvitað bundin við lögin eins og þau komu frá þinginu, og tel jeg, að tæplega hafi verið heimild til að breyta þeim með bráðabirgðalögum.

Háttv. frsm. (K. D.) var að bera saman bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum, en sjerstaklega þó bæjarfógetaembættið í Hafnarfirði og á Seyðisfirði. Ef til vill hefir bæjarfógetinn í Hafnarfirði fult eins mikið að gera og bæjarfógetinn á Seyðisfirði, en þess er að gæta, að bæjarfógetinn í Hafnarfirði hefir ekki embættisskyldu til að vera borgarstjóri þar, enda hefir hann sjerstök laun frá bænum fyrir það, en bæjarfógetinn á Seyðisfirði er, eins og bæjarfógetinn á Ísafirði, skyldugur til að sinna bæjarmálum kauplaust. Það er þessi mikli munur, að bæjarfógetinn í Hafnarfirði er frá landsins hálfu laus við að skifta sjer af bæjarmálum, en bæjarfógetinn á Seyðisfirði ekki. Á sama hátt fær bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum sjerstakt kaup fyrir að veita bæjarmálunum forstöðu.

Það er þessi munur, sem rjettlætir það, að bæjarfógetarnir í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum eru settir í lægri launaflokk en bæjarfógetinn á Seyðisfirði.

Mjer skildist á háttv. þm. Ísaf. (M. T.) að launafrv. hefði ekki verið sanngjarnt í garð embættismanna eins og það kom frá stjórninni. (M. T.: Jeg sagði, að kæmi fram misrjetti í því). Það er alt annað mál, og skal jeg ekki fara út í það. Jeg vissi ekki betur en að embættismenn yfirleitt hafi talið það viðunandi, ef það gengi óbreytt gegnum þingið, og er það sönnun þess, að hæfilegt tillit var tekið til embættismannanna af stjórnarinnar hálfu.

Jeg játa það, að betra hefði verið að geta borið sig saman við stjórn sambands starfsmanna ríkisins, þegar frv. var samið. Annarsstaðar hefir slíkur fjelagsskapur mjög mikil áhrif á slík málefni. En sá fjelagsskapur varð ekki til fyr en jeg hafði samið frv.

En merkilegt er, að launabæturnar eftir frv. fara mjög í sömu átt og embættismennirnir höfðu hugsað sjer, án þess nokkuð hafi verið hægt að bera saman.

Það er altaf hægt að segja, að misrjetti komi fram í frv., en jeg býst við, að enginn geti gert svo öllum líki.

Að vísu hefði verið æskilegt að geta borgað hærri laun, en jeg efast um, hvort það er fært.