08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hafði ekki hugsað mjer að tala mikið við þessa umr., og get leitt hjá mjer flestar þær brtt., sem hjer liggja fyrir. En þó vildi jeg fara nokkrum orðum um brtt. á þgskj. 711. Hún fer fram á það, að breytt sje fjárveitingu til sendimannsins í Kaupmannahöfn. Jeg sje ekki, að sæmandi sje að hverfa frá því ráði, er jeg hugði upp tekið hjer, með samþykki háttv. þm., enda er lítill sparnaður í þessari tilhögun. Annars gef jeg vísað til þess, sem jeg hefi sagt áður í þessu máli. Jeg bjóst við, að látið væri sitja við það, sem komið var, og kemur því þessi till. á óvart. En jeg býst ekki við, að hún verði samþykt, og held, að óþarfi sje að ræða hana, því hún mælir á móti sjer sjálf.

Jeg ætlaði að minnast hjer lítillega á aðra brtt., sem er á þgskj. 722. Jeg minnist þess, að jeg var staddur á fundi í vor með nokkrum mönnum, og voru þar einnig nokkrir þm. Jeg sannfærðist um það þá, að rjett væri að veita fje til þess, sem þessi brtt. fer fram. Ástæðan er sú, að vöknuð er hreyfing í þá átt, að halda við og styrkja samband milli Íslendinga vestan hafs og austan. Jeg álít sjálfsagt að styðja þessa viðleitni og held, að sú stefna, sem valin hefir verið, sje heppileg. Ef að eins ætti að líta á sparnaðinn, þá væri öðru máli að gegna, en hjer er svo margt samþykt, sem að minna gagni er en þetta, og mætti þá eins vel samþykkja það og annað. Jeg man ekki, hvað margir þm. voru á fundinum, sem jeg gat um, en þeir voru allir á einu máli um, að þetta bæri að styrkja. Það er bágt að segja, hvaða gagn verður að þessu, en jeg held að það verði töluvert. Jeg skal ekki fjölyrða um þetta meira, því jeg get ekki ímyndað mjer, að nokkrar verulegar mótbárur komi fram. Mjer finst svo eðlilegt og sjálfsagt, að þetta sje veitt.

Aðrar till. hafa verið ræddar hjer, og eru margar samskonar og þær, er voru hjer frammi við 2. umr., og hefi jeg lýst afstöðu minni til þeirra flestra og sje ekki ástæðu til að tefja með frekari umræðum.