21.07.1919
Efri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

25. mál, lögreglusamþykktir fyrir kaupstaðina

Forsætisráðherra (J. M.):

Það má vel vera, að það sje rjett hjá hv. þm. Ak. (M. K.), að ástæða hefði verið til að athuga fleiri sektarákvæði en þetta, en til þess að athuga það, svo vel væri, þarf rækilega umhugsun um málið og góðan tíma, en stjórnin hafði ekki tíma til þess. Og þó að sú endurskoðun sje æskileg. þá er ekki rjett að hindra framgang þessa máls fyrir það, að henni er ekki lokið.

Jeg hygg, að það hafi ekki verið rjett af nefndinni að færa hámark sektanna niður úr 1000 kr. í 500 kr. Jeg var þá ekki við, er það var gert, og gat því ekki tekið þátt í umræðunum um það. Annars legg jeg ekki mikla áherslu á þetta atriði, því það er mjög sjaldan dæmt í hæstu sektir, en það er með öllu ástæðulaust að vera hræddur við hátt sektarákvæði vegna þess, að það taki svo langan tíma að „sitja þær af“. Jeg vona þó að minsta kosti, að þetta atriði hafi verið ákveðið til fullnustu við 2. umr. og hámarkið verði ekki hækkað frekar en þá var gert. Að færa hámarkið niður í 200 kr. tel jeg alt of lágt, og þá næst ekki tilgangur bæjarstjórnarinnar, að hækka sektirnar í hlutfalli við peningagildi fyr og nú.

Í fljótu bragði lítur svo út, sem hitt atriðið í brtt. hv. þm. Ak. (M. K.) sje meira virði, en mjer heyrðust orð hans falla á þá lund, að það leit út fyrir, að hann hefði ekki fyllilega lesið ákvæðið sjálft í frv., því þar er sagt, að foreldrarnir beri ábyrgð á brotinu, ef skortur sje á hæfilegri umsjón, og ef svo er, er rjett að refsa foreldrunum fyrir það, en að refsa foreldrum fyrir öll brot barnanna, eins og hv. þm. (M. K.) virtist halda fram, dettur engum í hug. Hjer er í sjálfu sjer ekki gerð önnur breyting á gildandi lögum en að aldurstakmark barnsins er fært upp, og það getur ekki haft gagngerð áhrif á ákvæðið. Þetta ákvæði kemur því, eins og jeg hefi tekið fram, að eins til, þegar foreldrarnir hafa látið skorta á nauðsynlega umsjón með barninu. Þetta veit jeg að allir sjá að er rjettmætt, og ætti eigi að þurfa langa tölu um jafneinfalt atriði.