15.09.1919
Efri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg hefi, ásamt hv. þm. Ak. (M. K.), leyft mjer að koma með brtt. á þgskj. 771. Hún er til þess gerð að greiða fyrir því, að landskjörnum þingmönnum megi fjölga, án þess að til þurfi stjórnarskrárbreytingu. Að vísu er ekkert beinlínis því til fyrirstöðu, að fjölga megi þeim, eins og nú er að orði komist í stjórnarskránni, því að heimildin til að breyta tölu þingmanna hlýtur, að mínu viti, einnig að ná til landskjörinna þingmanna.

Brtt. er fram komin til þess aðallega, að tala þeirra efri deildar þingmanna, sem kosnir eru af sameinuðu þingi, sje hreyfanleg, eins og aðrar tölur í 26. gr., svo að hlutföllin milli deildanna þurfi ekki að raskast, þó að landskjörnum þingmönnum sje fjölgað. Viðvíkjandi því, að þetta gæti gert laust skipulag deildanna, skal jeg játa það, að þetta er ekki alveg ástæðulaus ótti, en hins vegar svo ástæðulítill, að hann ætti að verða áhrifalaus á úrslit málsins. Og auðvitað getur það ekki komið til nokkurra mála, að af því leiði, að önnur deildin verði lögð alveg niður, þar sem það er víða tekið fram í stjórnarskránni, að deildirnar skuli vera tvær.

Um þörfina á fleiri landskjörnum þingmönnum skal jeg ekki fjölyrða, en að eins taka fram, að fjölgun þeirra mundi að líkindum vinna á móti þeirri hreppapólitík, sem alt of mikið þykir bera á í þinginu, og tryggja því yfirleitt meiri og betri starfskrafta; því aðalreglan hlýtur það að verða, að þeir einir fái nægilegt fylgi til að komast að við landskjörið, sem þjóðkunnir eru og að góðu reyndir.