18.09.1919
Efri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

5. mál, stjórnarskrá konungsríkisins Íslands

Frsm. (Karl Einarsson):

Samvinnunefndin hafði tillögu sama efnis og brtt. þessa til meðferðar, og lagði á móti henni.

Stjórnarskrárnefndin í þessari deild hefir að vísu ekki haft till. til meðferðar, en jeg þori þó að fullyrða, að meiri hluti hennar muni brtt. mótfallinn.

Nú er högum þjóðarinnar svo háttað, að miklar og hraðfara breytingar eru á ýmsu í þjóðlífinu, og er því nauðsynlegt, sjerstaklega vegna áætlana um tekjur og gjöld ríkisins, að þing sje haldið á hverju ári.

Um kostnaðinn geta verið misskiftar skoðanir. Jeg lít svo á, að ef þingið hefir veruleg störf með höndum, muni kostnaðurinn vinnast upp, og langt fram yfir það.

Flytjendur brtt. gera jafnvel ráð fyrir því, að ekki sje ólíklegt, að þing geti orðið á hverju ári, þrátt fyrir brtt., og sje jeg þá ekki, hvað mælir á móti því, að frumvarpsgreinin verði samþ. óbreytt.