19.09.1919
Efri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Halldór Steinsson:

Jeg verð að fara örfáum orðum um brtt. þær, er jeg hefi flutt, og ef til vill einstöku liði frv., þótt jeg hafi ekki komið fram með brtt. við þá.

Brtt. mín á þgskj. 893, við 17. lið 15. gr., gengur í þá átt, að feldur sje burtu styrkurinn til fjelagsins Íslendingur, til að viðhalda andlegu sambandi og kynningu við Íslendinga vestan hafs. Þykir mjer leitt, að brtt. þessi hefir hrygt hv. 2. þm. G.-K. (K. D.). Jeg bjóst, sannast að segja, við, að hún myndi gleðja fleiri en hryggja í þessari hv. deild.

Jeg varð hálfforviða, er jeg sá þennan lið, því jeg get ekki sjeð, að hann komi að notum.

Þó að lagður sje besti skilningur í þetta, sem sje að styrknum skuli varið til að efla þekkingu Íslendinga í Ameríku á Íslandi, með því að senda mann þangað til að útbreiða þekkingu á íslenskum efnum, sje jeg ekki, að styrkurinn geti komið að notum, því til þess er hann hvorki heill nje hálfur. Auk þess hygg jeg, að Íslendingar í Ameríku fylgist fult eins vel með því, er gerist hjer heima, og Íslendingar hjer með löndum sínum vestan hafs.

Get jeg því ekki annað sjeð en að styrkur þessi verði „humbug“ í framtíðinni.

Betur gæti jeg unað því, að samþ. yrði að kosta menn til að vinna Vestur-Íslendinga til að flytja aftur heim til átthaga sinna, á sama hátt og Canadastjórn lagði fram fje til þess að ginna þá til að flytja vestur. Ef styrknum væri varið til þess, væri öðru máli að gegna, en eins og liðurinn er orðaður nú, get jeg alls ekki greitt honum atkv.

Þá verð jeg að minnast lítið eitt á einn lið frv., þótt jeg hafi ekki komið fram með brtt. við hann, en geri það ef til vill við 3. umr., og það er styrkurinn til dr. Helga Pjeturss.

Þegar jeg sá þennan styrk og meðferð hans í þinginu, datt mjer í hug: vondur — verri — verstur.

Hv. fjárveitinganefnd þessarar deildar leggur til, að dr. Helga verði veittar 4000 kr. fyrra árið, en 2500 kr. seinna árið, og læt jeg það vera, ef ekki væri hnýtt við þeirri athugasemd, að hækkunin fyrra ár fjárhagstímabilsins, sje gerð með tilliti til þess, að hann eigi fremur hægra með að leita sjer lækninga“

Álít jeg ekki rjett, að gengið sje inn á þá braut, að styrkja sjúklinga í fjárlögum til þess að ná aftur heilsu sinni, nema þá alveg sjerstakar ástæður væru fyrir hendi.

En litið frá annari hlið er fjarlægt því, að þessi upphæð sje næg til lífsviðurværis, og síst boðleg þessum manni, nema styrkurinn verði hækkaður upp í 4000 kr. hvort ár.

Má því segja, að meðferðin á lið þessum sje vond hjer í deildinni.

Verri er hún í Nd., þar sem styrkurinn er áætlaður 2500 kr. hvort árið og getur slíkur styrkur ekki gengið undir því nafni, að vera styrkur til vísindastarfsemi, heldur fátækrastyrkur.

Stjórnin hefir þó gengið lengst, því hún hefir sett styrkinn 1800 kr. hvort árið.

Jeg býst ekki við, að tilgangurinn hafi verið að smána manninn, en mjög stappar nærri að svo sje, þar sem sýnilegt er, að maðurinn verður að svelta, ef hann á eingöngu að lifa á þeirri upphæð.

Gegnum þessa meðferð gengur það eins og rauður þráður, að styrkurinn sje veittur til þess, að maðurinn geti hjarað, en ekki til þess, að hann iðki vísindalega starfsemi. Þetta er þó eini vísindalega mentaði jarðfræðingurinn, sem við eigum, fyrir utan Þorvald Thoroddsen, sem er kunnur í útlöndum.

Geta erlendar þjóðir sjeð á þessum 1800 krónum, hversu við Íslendingar metum þesskonar starfsemi.

Vona jeg, að háttv. fjárveitinganefnd athugi þetta til 3. umr. og komi fram með brtt.; að öðrum kosti mun jeg gera það.

Þá hefi jeg komið fram með brtt. á þgskj. 891, en hún fer í þá átt, að Jóhannesi Helgasyni verði veittur 2000 kr. utanfararstyrkur til þess að fullkomna sig í myndskurði.

Maður þessi hefir stundað nám hjá Stefáni Eiríkssyni og lokið þar prófi með ágætisvitnisburði. Síðan hefir hann haldið áfram að skera út og gert hvern hlutinn öðrum haglegri, að dómi þeirra manna, er vit hafa á, og má nú telja hann einna fremstan í sinni list hér á landi.

Hefir hann hug á að fara utan til að fullkomna sig enn meir, og hefir helst augastað á að dveljast í Sviss.

Verður ekki annað sjeð, eftir meðmælum Stefáns Eiríkssonar að dæma, en að maður þessi eigi fullkomlega skilið að fá þennan styrk, en þar segir:

,,.... Og gef jeg tjeðum J. H. mín allra bestu meðmæli til styrkveitingar þeirrar, er hann sækir um til hins háa Alþingis.

Jeg álít, að tjeður J. H. sje sjerstaklega hæfur til frekari mentunar í iðn sinni, og veit með vissu, að tjeður J. H. mundi verða landi og þjóð til enn meira gagns og sóma, ef hann fengi efni til að fullkomna sína góðu hæfileika erlendis, þar sem nóg er að sjá og læra “

Hygg jeg því rjett að ljetta undir með þessum manni, með því að veita honum þennan styrk, svo honum gefist færi á að sýna landi sínu enn meiri sóma en hann hefir gert hingað til.

Þá á jeg ekki eftir að minnast á annað en brtt. okkar 2. þm. Húnv. (G. Ó.) á þgskj. 907, um athugasemdina við styrkinn til búnaðarfjelaganna.

Eins og kunnugt er, hefir það altaf verið venja undanfarin ár, að fráskildu síðasta fjárhagstímabili, að styrknum væri úthlutað beint til búnaðarfjelaganna, eftir samanlagðri dagsverkatölu. En á síðasta fjárhagstímabili var þessu breytt á þá leið, að styrkurinn var greiddur til búnaðarsambandanna, en þeim aftur falið að úthluta honum til þeirra búnaðarfjelaga, sem eru í sambandinu.

Þetta hefir valdið megnri óánægju, þar sem ekki eru nærri öll búnaðarfjélög í samböndunum. Af þessari orsök hefir stjórnin aftur tekið upp gamla og góða siðinn í frv. því, sem hún lagði fyrir þingið, en því var aftur breytt til hins verra í háttv. Nd. Hygg jeg þá leið ekki eins heppilega, þar sem fjöldi búnaðarfjelaga er ekki í samböndunum og geta því ekki notið styrksins nema þau gangi í þau. Tel jeg það ekki rjett spor að þvinga búnaðarfjelögin til að ganga í samböndin, með því að svifta þau styrk að öðrum kosti.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (S J.) hefir lýst því yfir, að hann telji brtt til bóta, og vonast jeg eftir því, að hún verði samþykt í þessari háttv. deild.