25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Pjetur Jónsson:

Það er út af tillögu samgöngumálanefndar, sem jeg kveð mjer hljóðs. Hjer í þinginu hefir sú till. áður verið á ferðinni, að veita þessu fjelagi styrk til Faxaflóaferða, en þá komst hún ekki í gegn. Veit jeg, að mörgum var og er það mikið áhugamál, að þetta skip, sem vitanlega er ætlað til slíkra ferða hjer við land fengi einhvern styrk, og á þessu er auðvitað till. samgöngumálanefndar bygð.

Háttv. frsm. þessarar nefndar (B. St.) lýsti því aftur á móti yfir, að þeir nefndarmenn væru ekki alls kostar ánægðir með till., eins og hún liggur fyrir, og sagði hv. frsm. (B. St.), að hann mundi ekki geta gefið henni atkv. sitt, eins og hún lægi fyrir. Taldi hann það fyrst til, að styrkurinn væri of hár, saman borið við áætlunarferðirnar, og í öðru lagi væri ekki komið fult samkomulag á um, hvernig breyta ætti ferðum Sterlings, svo að sá hagnaður fengist í aðra hönd, að hægt væri að veita til Suðurlandsins það, sem sparaðist. Það er ekki nema ósköp eðlilegt, að nefndarmenn gætu ekki allir brætt sig saman um þetta í einni svipan, og mjer finst ekki heldur, að deildin geti það. Mjer hefir því dottið í hug, að einfaldast væri að veita stjórninni nægilegt fje í einu lagi til þess að styrkja bæði skipin, og hún skipi svo fyrir um ferðirnar með ráði Eimskipafjelags Íslands. Leyfi jeg mjer því að koma með brtt. við þennan lið í fjárlögunum, er sje orðuð þannig:

(Sjá A. 982).

Að vísu er í þessari till. farið fram á sömu upphæð alls og í till. á þgskj. 973, munurinn að eins sá, að vísa þessu nú til stjórnarinnar, og svo semji stjórnin við Eimskipafjelag Suðurlands um ferðir, og greiði sanngjarnt verð fyrir, en svo gangi það, sem eftir verður af styrknum, til Sterlings. Er það ekki ólíklegt, að með þessum ferðum Suðurlands sparist svo mikið, að Sterling geti farið einni ferð fleiri til útlanda.