08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

140. mál, landhelgisvörn

Forsætisráðherra (J. M.):

Mjer þykir ekki kenna fullkominnar einlægni, er menn tala um, að frv. þetta sje að eins heimild til að leigja, kaupa eða láta smíða skip. En sannleikurinn er sá, að þetta er beinlínis skipun. Jeg veit það enn betur eftir umr. í hv. Ed., að meiningin er, að stjórnin skuli þegar í stað útvega skip, sem hefji landvarnir næsta vetur. Málinu víkur alt öðruvísi við, ef hjer væri að ræða um heimild til þess t. d. að leigja gufuskip til þessa fyrst um sinn, meðan undirbúin eru kaup á nýju skipi. En í frv. stendur: „Landsstjórnin skal kaupa eða láta byggja ...“ En henni er veitt heimild til að leigja skip, meðan stjórnin lætur byggja nýtt, ef hún fær ekki skip til kaups þegar í stað. Væri alt annað, ef í upphafi stæði: „Landsstjórninni er heimilt.“ Mjer finst því ekki fullkomin hreinskilni ráða hjá meðmælendum frv.

Að öðru leyti mun mál þetta ljóst fyrir öllum. En sjerstaklega vil jeg minnast á það, sem hv. þm. Dala. (B. J.) sagði um tillögu um mentamál á þingi í fyrra, til sönnunar því, að ekki þýddi neitt að vísa málum til stjórnarinnar. Þar er um alt annað að ræða. Þar var því haldið fram af hálfu stjórnarinnar, að hún myndi ekki leggja til neinar grundvallarbreytingar á því skipulagi, sem þar var um að ræða. Þar var því fyrirfram vitað, að stjórnin myndi ekki gera mikið, enda var ekki fastlega farið fram á það. Jeg held því, að þessi samanburður sje ekki alveg rjettur. Annars sýnist það óþarfi, við þessa umr., að deila um málið. Jeg geri ekki ráð fyrir, að það verði felt við þessa umr.

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. Borgf. (P. O.) hefir stefnt því sem getsök einhverri að mjer eða hv. þm. S.-Þ. (P. J.), að líkt álit komi frá okkur um þetta mál. En jeg verð að segja, að jeg hefi aldrei minst á þetta mál við hv. þm. S.-Þ. (P. J.), og yfirleitt man jeg ekki, að jeg hafi minst á það við nokkurn af hv. meðdeildarmönnum. Jeg hefi ekkert um málið talað, annað en það, sem jeg sagði í hv. Ed. En þó svo hefði verið, hefði auðvitað ekki verið nokkur skapaður hlutur á móti því.

En annars hefir mjer ekki dottið í hug, að þetta mál gengi fram undirbúningslaust á þessu þingi. Jeg myndi telja það óforsvaranlegt, og vildi því álíta betra, að málið biði næsta þings.