13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1984 í B-deild Alþingistíðinda. (2063)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Björn Kristjánsson:

Það er alveg rjett, sem hjer hefir verið bent á, að þetta frv. er sniðið eftir frv. stjórnarinnar 1901. En það getur verið þess vert, að það sje athugað, hvort frv. þetta er ekki um of sniðið eftir stjórnarfrv. Síðan það kom fram hefir margt breyst og margt komið fram. Það hafa verið sett ýms lög og ákvæði, sem yrði að breyta, ef þetta frv. verður samþykt, eins og það nú liggur fyrir með breytingartillögum. Jeg vil minna á, að síðan 1901 hafa verið sett námulög, á þingi 1907, og var mikið til þeirra vandað; þau ná til allra opinberra jarða og veita öllum, jafnt útlendum sem innlendum, rjett til að finna og vinna náma með vissum skilyrðum. Þessi lög voru sniðin eftir því, sem alment gerðist annarsstaðar, og síðan voru þau endurskoðuð 1909. Auk þess, sem öllum var veittur finnanda- og rekstrarrjettur, var það ákveðið, að landeigandi ætti námurjettinn. Það mundi þykja nýmæli nú, og jeg veit ekki, hvernig því yrði tekið, ef nú yrði ákveðið, að ekki mætti selja nje leigja öðrum námur en innlendum mönnum. Eins og nú er ástatt, þá er það sama sem að segja, að ekki megi selja eða leigja öðrum en þeim, sem ekki vilja kaupa. Það þarf svo mikið fje og verk til að leita að námum og reka þær, að menn hafa hjer ekki fje til þess. Það gæti ef til vill komið til mála að banna að selja öðrum en innlendum, en það ákvæði ætti þá heima í námulögunum, en ekki í þessum lögum, því það mundi valda svo miklum glundroða í löggjöfinni. En hitt held jeg að komi ekki til mála, að banna að leigja útlendingum náma. Reynslan hefir sýnt, að þær tilraunir sem gerðar hafa verið í þá átt hjer á landi, eru allar gerðar af útlendingum, sem ekki voru búsettir hjer. Jeg get t. d. Lent á námu á Reykjanesi — postnlínsnámu — ; þar hafa útlendingar leigt námuna, en innlent fjelag á hana. Engum Íslendingi hefði dottið í hug að reka þessa námu. Þá get jeg bent á Miðdal. Þar hjeldu menn að væri gullnáma, og það reyndist rjett. Íslendingar gerðu tilraun til að finna hana, en gáfust upp. Síðan var náman leigð útlendingum, og þeir vörðu yfir 30 þús. til að leita þar að gulli og rannsaka námuna, og endirinn varð sá, að hún reyndist óvinnandi, eða svaraði ekki kostnaði. Ef útlendingum er fyrirmunað að rannsaka námur, þá verður ekkert úr rannsókn á því sviði, og einkum ef þeim er varnað að fá námuna á leigu. Það kostar mikið að leita að málmunum og rannsaka, og um leigu í þessu tilfelli er alt annað að segja en á jörðum, veiði eða þess háttar. Það má altaf reikna út, hvað jörðin eða veiðin gefur af sjer, og miða leiguna við það. Við námuna er meira lagt í hættu. Enginn veit, hvað úr kann að verða: árangurinn gróðinn. verður eins og „premía“ fyrir að finna námuna, eins og „premía“ fyrir hverja aðra uppgötvun. Mjer finst, að taka verði tillit til þess, að hjer stendur öðruvísi á en um aðrar eignir. Eins verða menn að taka það til íhugunar, að með því að meina útlendingum að fást við þessi efni, þá tefja þeir fyrir, að landið geti notið þeirra um ófyrirsjáanlegan tíma.

Jeg vil því skjóta því að nefndinni, hvort hún vilji ekki koma með brtt. um það fyrir næstu umræðu, að undanskilja námur. Með þessu ætti engu að vera tapað því það er altaf á þingsins valdi að hafa það eftirlit og setja þær skorður, sem því þóknast, þegar einhver náma er fundin.

Útilokun útlendinga frá námum þekkist ekki annarsstaðar. Norðmenn eru að vísu að hugsa um að koma því á hjá sjer. (E. A.: Eru búnir að því). Það getur verið. En alt til þessa hafa þeir ekki sjeð sjer það fært. Þeir hafa sjeð, að þeir urðu að nota útlendinga til að eyða í þetta fje fyrst, til að renna á vaðið, og eins verðum við að gera. Annars er Noregur varla saman berandi í þessu efni, því það er málmauðugt land, en það er Ísland ekki enn, svo menn viti. Málmar eru hjer ekki ofan jarðar, og kostar því stórfje að leita þeirra og rannsaka, hvort þeir eru vinnandi er neðar dregur. Jeg veit, að hjer er gull, silfur, blý, kvikasilfur, vismut, eir og antimon, en jeg hefi hvergi rekið mig á að þeir væru vinnandi, nema ef vera kynni gull, sem er mjög útbreitt hjer á landi. Jeg held, að best sje að lofa útlendingum að leita þeirra og elta þá uppi, því annars verður það ekki gert. Þær skorður, sem settar eru í námulögunum, ættu að nægja.

Eins og jeg tók fram áðan, þá held jeg, að það geti vel komið til mála að banna útlendingum að eiga námur, en hitt er augljóst, að það yrði til ills eins að banna þeim að leigja þær. Vitanlega þyrfti að ákveða hvað þeir mættu leigja lengst. Ef nefndin fellst á þetta fyrir 3. umr., þá get jeg verið með frv., þó jeg sjái ekki í því þá tryggingu sem til er ætlast.

Jeg vil ekki orðlengja þetta meira. Vilji þingið breyta námulögunum, þá má gera það á næsta þingi. Sá frestur ætti ekki að vera ægilegur, því ekki er útlit fyrir, að mikið verði gert að námurekstri á næstunni.