18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

50. mál, eignaréttur og afnotaréttur fasteigna

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi að eins minna á það, sem jeg áður hefi sagt um þetta mál, að þó jeg telji, að frv. sje gott, þá hefði þó verið rjettara að bíða með að samþykkja það, þangað til löggjöf hefir verið sett um að binda ýmiskonar atvinnurekstur við búsetuna. Því meðan það er leyfilegt að reka ýmsa atvinnu hjer án þess að vera búsettur, þá sýnist leiða af því, að leyfilegt sje, að atvinnurekendur eigi þau hús, sem atvinnan er rekin í.

Jeg sje ekki, að nein hætta hefði tafað af því, þó þetta fengi að bíða, þangað til lög eru sett um þetta. Hins vegar má líka telja hættulaust að samþykkja þetta, ef að eins stjórnin fer skynsamlega með lögin. Þá er þetta þýðingarlítið atriði. En það er talsvert undir hælinn lagt, hvernig hlutaðeigandi stjórn hagar sjer.

Þetta vildi jeg að yrði athugað. Mjer finst, að þetta hefði ekki átt að takast út úr atvinnulagabálkinum, heldur hefði það, sem hjer er farið fram á, átt að fara saman við þá löggjöf, eins og líka mun hafa verið til stofnað af hálfu hv. flutningsmanns (B. J.).

Annars tel jeg frv. sem sagt gott. Að eins veit jeg ekki, hvort þessar undantekningar eru heppilegar. Sjerstaklega fyrst farið var að gera undantekningar á annað borð, því mátti þá ekki láta t d. kirkjur eða spítala o. fl. vera með, sem annars er alt komið undir náð stjórnarinnar? Það hefði sjálfsagt þurft að gera miklu fleiri undantekningar heldur en teknar eru fram í lögunum. Það var eðlilegast að láta þær allar fylgjast að; annars er þetta dálítið villandi.

Að öðru leyti finst mjer frv. hafa tekið svo miklum bótum hjá hv. allsherjarnefnd hjer í Nd., að jeg er því ekki mótfallinn og vil ekki vekja óþarfa umræður út af efni þess, þó jeg álíti, að það gjarnan hefði mátt bíða.