11.09.1919
Efri deild: 54. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

144. mál, þingfararkaup alþingismanna

Forsætisráðherra (J. M.):

Frv. þetta er, eins og hæstv. forseti tók fram, flutt af hv. launamálanefnd eftir tilmælum stjórnarinnar. — Stjórnin leit svo á, að það væri óviðeigandi að hækka eigi lítið eitt þóknun þingmanna, er sjálfsagt þykir að auka laun embættismanna að miklum mun. Jeg verð að játa, að jeg fyrir mitt leyti hafði hugsað mjer fastakaupið hærra, en niðurstaðan varð þessi, sem í frv. er, í háttv. Nd. Finst mjer lítt sæmandi, að ætla þingmönnum álíka mikið eða jafnvel minna kaup en verkstjórar fyrir smáum framkvæmdum hafa. Annaðhvort er, að þingmenn taki að sjer þingmenskuna sem borgaralega skyldu, og hafi þá engin laun fyrir, eða þá að þeir fái svo mikil laun, að þeir bíði ekki tjón við hana. — Jeg hygg, að það hafi verið misráðið að gera mismun á dagkaupi manna eftir því, hvar þeir eru búsettir. Starfið á þinginu er nú orðið svo mikið, að jeg held að allir sjeu sammála um, að borgunina eigi eingöngu að miða við það, en eigi hvort einum er dýrara að búa hjer en öðrum. Ferðakostnaðinn er nú orðið ómögulegt að fastbinda, segja að t. d. þingmenn Húnvetninga skuli hafa svo og svo mikið o. s. frv. Einasta ráðið er, að kostnaðurinn sje goldinn eftir reikningi. Jeg vona, að þessi hv. deild taki eins vel í þetta mál og hv. Nd. — Mjer finst of mikil feimni að kynoka sjer við að samþykkja þetta frv., þó það sje um laun sjálfra þingmanna. En þar að auki er þetta þing hið síðasta á kjörtímabilinu, svo það er því síður ástæða til að óttast þetta frv. Háttv. nefnd tók það ráð að haga þessu frv. á sama hátt og launafrv., láta þingmenn nú að eins hafa uppbót á gömlu þóknuninni frá 1. júlí þ. á. Fyrir mitt leyti hefði mjer fundist rjettara að láta föstu þóknunina einnig ná til þessa þings. Jeg veit, að það er fjarri því, að þingmenn starfi sjer að skaðlausu nú sem stendur. En hv. nefnd vildi haga þessu atriði á sama hátt og gert er í launafrv., og getur hún haft mikið til síns máls í því efni. Auðvitað er stjórninni það atriði ekki kappsmál, en mjer finst hv. þing sóma síns vegna ekki geta starfað fyrir nein smánarlaun.