23.07.1919
Neðri deild: 14. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2158 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

71. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Eins og hv. þingdm. mun reka minni til, þá var á fyrra þinginu síðastliðið sumar gerð mjög stórfeld breyting á því frv., sem við þm. Eyfirðinga fluttum um bæjarstjórn fyrir Siglufjörð. Og þó að við þá neyddumst til að samþykkja hana, þá var okkur það ljóst, að þetta hlytu að eins að verða bráðabirgðalög, en ekki til verulegrar frambúðar, enda var okkur þá kunnugt um, að Siglfirðingar voru alls ekki ánægðir yfir breytingunni, sem heldur enginn getur láð þeim. Það er ekkert undarlegt, þó að þeir geti ekki unað því, að oddviti bæjarstjórnar hafi ekki öll hin sömu rjettindi og störf og bæjarfógetar hinna annara kaupstaða landsins.

Ósk Siglfirðinga er því að eins sú, að þeir að þessu leyti njóti sömu rjettinda og önnur samskonar bæjarfjelög.

Um þetta hljóðar frv. um breytingu á bæjarstjórnarlögum Siglufjarðar, sem hjer liggur fyrir.

Jeg geri ráð fyrir, að öllum háttv. þm. finnist þessi ósk þeirra mjög eðlileg, álíti sjálfsagt, að maðurinn, sem hefir á hendi stjórn og framkvæmdir bæjarmála, hafi ekki einasta dómsvald í almennum lögreglumálum, heldur líka önnur dómarastörf, sem nú heyra undir sýslumanninn í Eyjafjarðarsýslu. Og margoft er ómögulegt að ná til hans svo fljótt, sem brýn þörf er á.

Það er ekki heldur eðlilegt, að sá, sem stjórnar bæjarmálum, hafi ekki að sjálfsögðu á eigin ábyrgð innheimtu á tolli og skipagjöldum, heldur geri það á ábyrgð og fyrir hönd annars manns. Enn fremur er það illa viðeigandi, að hann haldi að eins minni uppboð á sína ábyrgð, en hin stærri á ábyrgð sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu. Sem sagt virðist alt þetta starf hans fyrir hönd sýslumannsins í Eyjafjarðarsýslu afar óhagkvæmt og óviðeigandi.

Ástæðurnar fyrir því, að hinu upphaflega frv., sem við fluttum 1917 og 1918 um bæjarstjórnarrjettindin, var þannig breytt, ætla jeg ekki að fara út í, en vil í því sambandi vísa til þingmálafundargerðar frá Siglufirði, sem liggur frammi á lestrarsalnum.

Annars finst mjer þeir tímar nú standa yfir, að Alþingi ætti vel að athuga það, hvort enn muni vel við eiga að neita Siglfirðingum um þá nauðsynlegu og eðlilegu sjálfstjórn, sem þeir þing eftir þing eru að óska eftir.

Af því að mál þetta er svo kunnugt hv. þm., ætla jeg ekki að fara lengra út í það við þessa umr., en vænti þess fastlega, að því verði vel tekið, og það því fremur, þar sem nú liggur fyrir frv. til launalaga, svo að það spursmál, um ákvæði og tilhögun launanna verður nú tekið til athugunar.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að leggja til, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, og treysti henni til alls hins besta í því.