26.09.1919
Efri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (2410)

71. mál, bæjarstjórn á Siglufirði

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er alveg nýlega komið til þessarar hv. deildar. Allsherjarnefnd hennar, sem frv. var vísað til, hefir því eigi unnist tími til þess að semja og láta prenta nál. í málinu, heldur hefir hún orðið að láta sjer nægja að bera fram við frv. brtt. á þgskj. 980, er hún telur nauðsyn að gangi fram, ef frv. á að verða að lögum.

Allsherjarnefnd Ed. er sem sje alveg samdóma hv. allsherjarnefnd Nd. um þetta nál. og getur því að mestu leyti skírskotað til álits hennar, sem prentað er á þgskj. 801 og jeg vænti að hv. deildarmenn hafi kynt sjer.

Það væri mesta ónærgætni, að jeg ekki segi lögleysa, gagnvart sýslumanni Eyjafjarðarsýslu og sýslunefndinni þar, ef þetta frv. væri látið ganga fram eins og það liggur nú fyrir, áður en sýnt er, hvort sá sýslumaður vill ganga undir nýju launalögin, eða ef til vil skifta um embætti, og þess vegna ber allsherjarnefndin fram brtt. á þgskj. 980. Ef tjeður sýslumaður hins vegar gengur undir nýju launalögin óneyddur af Alþingi, eins og aðrir sýslumenn, eða fær annað embætti, t. a. m. í hæstarjetti, er allsherjarnefnd Ed. sammála allsherjarnefnd Nd. um það, að ekkert sje til fyrirstöðu, að frv. komi til framkvæmdar, og telur enda rjettara að samþ. það til fullnustu nú á þessu þingi, í því formi, sem hún leggur til, því þá er það til taks, ef breytingin verður, sem jeg tel næsta líklegt, og sparast þá bæði tími þingsins og fje, er þurfa myndi til meðferðar málsins að nýju.

Með þessum orðum leyfi jeg mjer fyrir hönd allsherjarnefndar að mæla með því, að hv. deild samþ. brtt. á þgskj. 980, og ef svo fer, leyfi jeg mjer að vænta þess, að hæstv. forseti taki málið aftur á dagskrá hjer í dag, svo tími vinnist til, að það geti orðið borið upp við eina umr. í hv Nd. á morgun og samþ. þar til fullnustu.