29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2224 í B-deild Alþingistíðinda. (2495)

89. mál, lánsstofnun fyrir landbúnaðinn

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg ætla að bæta nokkrum orðum við ræðu atvinnumálaráðherra (S. J.). Þegar tilrætt varð í stjórnarráðinu um að koma á fót lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, þá kom það þar til orða að nota einmitt ræktunarsjóðinn sem grundvöll undir lánsstofnun þessa. Maður, sem mikið hafði verið riðinn við ræktunarsjóðinn, var svo fenginn til að semja tillögur um lánsstofnunina. Hafði jeg þær með mjer til Kaupmannahafnar í fyrra og bar þær þar undir Jón Krabbe skrifstofustjóra, sem gott skyn ber á slíkar lánsstofnanir. Honum leist ekki alls kostar á tillögurnar. Taldi hann það mundi betra, að Landsbankinn hefði þessa lánsstofnun; hann hefði nú veðdeildarbrjef til sölu, og mundi best, vegna sölu á peningamarkaði, að ein væri tegund veðdeildarbrjefa eða þesskonar verðbrjefa. Þrátt fyrir þetta hallast jeg fremur að tillögu hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) um, að sjóðir þeir sem hann nefndi, sjeu notaðir til að koma lánsstofnuninni á fót.

Jeg er hræddur um, að nú sem stendur muni vera örðugt að selja íslensk verðbrjef á heimsmarkaðinum, nema þá með miklum afföllum; og eigi býst jeg við, að jafnhægt sje að fá ódýr lán erlendis sem hv. þm. Dala. (B. J.) gerði ráð fyrir; aftur á móti mun ekki jafntorvelt að fá þau til langs tíma.

Jeg vil skjóta því til nefndar þeirrar, sem jeg geri ráð fyrir að skipuð verði í málinu, að hún athugi vandlega tillögu hv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Sjerstaklega liggur beint við að hagnýta ræktunarsjóðinn til að styðja stofnun þessa.

Að öðru leyti get jeg ekki vænst þess, að þingnefnd geti ráðið máli þessu til lykta; eigi að síður getur það verið stuðningur fyrir stjórnina að heyra tillögur hennar og fá bendingar hjá henni.