14.08.1919
Neðri deild: 35. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2238 í B-deild Alþingistíðinda. (2522)

122. mál, bætur vegna tjóns af Kötlugosinu

Flm. (Gísli Sveinsson):

Jeg álít eigi þörf að fara mörgum orðum um tillögu þessa. Hún er, eins og hv. þingdm. mun kunnugt, fram komin vegna stórskemda þeirra, er urðu af hinu mikla Kötlugosi síðastliðið haust. Skemdir þessar voru margvíslegar; það varð bæði tjón á skepnum og munum manna, og tjón og skemdir á jörðum. Það er ekki tilgangur tillögu þessarar að sækja um eða gera ráð fyrir neinum styrk úr ríkissjóði til að bæta mönnum skepnutjón og muna. En við það er átt, að hið opinbera taki nokkurn þátt í tjóni, sem á jörðum hefir orðið, og mun ekki of freklega að kveðið, þótt ríkissjóði sje talið bera að gera það, að minsta kosti um jarðir þær, sem hann er eigandi að. Til tjónsins á jörðum má telja það að á mörgum þeirra hefir verið algert jarðbann frá því í haust, að gosið gekk yfir, og þangað til í vor, þó ekki af snjó, en af öskufalli og jökulleðju, og sumsstaðar er svo enn, þótt annarsstaðar sjeu nú komnir nokkrir hagar og slægjur í bygð. Jeg ætla ekki að gera tilraun til að reikna tjónið, sem samfara er jarðarspellunum, enda er það lítt reiknanlegt, svo að við hæfi sje. Aftur á móti er tjón á skepnum þeim, er fórust í flóðinu eða fóru sjer að voða af felmtri, útreiknanlegt, því að menn vita nokkurn veginn nákvæmlega tölu þeirra. Um 500–600 sauðfjár mun hafa horfið í gosinu, og það aðallega úr tveim fremur litlum hreppum, og líkast að full 300 af því hafi farist í flóðinu Af stórgripum fórust 37 hross. Þetta er beina skepnutjónið, en óbeina tjónið er sem sagt óútreiknanlegt. Það er óútreiknanlegt, hve hrakningar og skemdir á jörðu háðu fjenaðinum og drógu úr nytjum hans og hnektu búskap manna. En af því að hv. þm. hafa fengið allnákvæma skýrslu um það, sem jeg hefi samið og stjórnarráðið gefið út, þá skal jeg ekki fara lengra út í að skýra frá því.

Eins og sjá má af skýrslunni, þá hafa jarðir á þessu svæði verið harla lítils virði síðan gosið skall á, og not af þeim til beitar fram á síðasta vor nálega engin, og rýr mjög enn í dag. Því hljóðar fyrri hluti tillögunnar um það, að hið opinbera gefi eftir eftirgjald jarða þess á gossvæðinu fyrir síðastliðið fardagaár. Þetta nær að vísu skamt, og alls eigi til þeirra, sem eigi búa á þjóðjörðum eða kirkjueignum. En jeg vil ekki fara fram á annað en það, sem fullkomnasta sanngirni mælir með.

Annar liður till. fer fram á, að veitt sje úr ríkissjóði nokkurt fje til að ljetta undir með almenningi, sem fyrir jarðspellum hefir orðið, með að afla sjer fóðurbætis. Jeg vil heldur fara þessa leið en að biðja um peninga handa mönnum þessum, því sumir þeirra hafa meira gagn af slíkri hjálp til að halda við búpeningi sínum en þótt þeir fengju nokkrar krónur. Ósk mín er sú, að landsstjórnin hlutist til um kaup á fóðurbæti handa hjeraði þessu, sjái um, að hann komist á hagkvæman stað fyrir hjeraðsbúa, og selji hann ekki fullu verði. Í þessu ætlast jeg til að styrkurinn sje fólginn.

Sumir hv. þm. hafa látið í ljós, að rjett væri, að landsstjórnin hlutaðist til um útvegun á meiri fóðurbæti en þurfa mundi til að verða við tillögu minni, eða handa fleiri hjeruðum, og hafa komið með þingsályktunartillögu um það efni. Jeg mun verða henni fylgjandi, því að jeg tel hana á góðum rökum bygða, þar sem svo lítur nú út, að menn verði hart úti víða á Suðurlandsundirlendinu sökum óþurka, þótt grasbrestur sje ekki. Þó er hjer nokkur munur á. Mín tillaga fer fram á, að landsstjórnin útvegi fóðurbæti og selji hann undir sannvirði þeim, sem tjón hafa beðið af eldgosinu; en hin tillagan beinir því til stjórnarinnar að útvega fóðurbæti og selja hann hjer sunnanlands, sjálfsagt að vísu svo lágu verði sem unt er, en þó eigi undir sannvirði.

Þessar tvær tillögur gætu því, ef mönnum sýndist, orðið samferða gegnum þingið, þó að ekki sje nauðsynlegt, að þær verði látnar fylgjast að. En þess er að gæta, að tjón getur orðið að því, ef framkvæmd málsins dregst að nokkrum mun, og þyrfti því að hraða þeim sem mest. Það, sem jeg á aðallega við um fóðurbætiskaupin, er að landsstjórnin kaupi fóðursíld, því að það er sá fóðurbætir, sem flestir eystra óska helst að fá.

Það mun þykja hlýða, að nefnd fjalli um mál þetta, og óska jeg, að því sje vísað til landbúnaðarnefndar, sem að sjálfsögðu mun bera sig saman við fjárveitinganefnd. Tillagan um fóðurbætiskaupin, er jeg nefndi, býst jeg við að muni verða fengin landbúnaðarnefndinni í hendur; geri jeg ráð fyrir sem sjálfsögðu, að báðar tillögurnar verði samþyktar því að þær eru sumpart sanngjarnar og sumpart nauðsynlegar.