11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (2575)

150. mál, stækkun á landhelgissvæðinu

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Gamalt orðtæki segir: „Það hefir enginn, sem hann hættir ekki“, og getur það átt við þessa till. Ef við sjálfir gerum enga tilraun til að rýmka landhelgissvæðið og vernda fiskimiðin okkar, þá er ekki við því að búast, að þeim verði borgið af öðrum. Sjávarútvegsnefndin hefir viljað gefa vakningu í þessa átt, í von um, að það mætti takast að komast að samningum við þau ríki, sem fiska hjer við land, um að færa út landhelgislínuna. Það gæti einnig komið til mála að reyna hag, þegar það nú væntanlega tekur aftur til starfa eftir lok styrjaldarinnar, ef eigi semdist á annan veg. Má vera, að ýmsir telji þetta vonlaust og að enginn árangur muni fást, en jeg tel ekki hundrað í hættunni, þó leitað sje hófanna.

Máli þessu hefir verið hreyft hjer á þingi fyr, þótt eigi bæri það árangur, og ósjaldan hafa óskir heyrst frá alþýðu manna um tilraunir í þessa átt. Vonir um árangur hafa jafnan verið litlar, en nú er afstaðan breytt og líkurnar frekari fyrir, að eitthvað fáist, vegna viðburða síðustu tíma og vegna yfirlýsinga stórþjóðanna um að bera ekki hlut smáþjóðanna fyrir borð, og síðast en ekki síst vegna breyttrar afstöðu okkar að fengnu fullveldi landsins.

Jeg veit ekki, hve nær þau ákvæði hafa gengið í gildi, sem nú eru viðurkend hjer og víðar, að landhelgin skuli ná ¾ úr mílu undan landi, eyjum og annnesjum; það er að vísu viðurkent meðfram Norðursjónum og víðast við strendur Vestur-Evrópu. En svo mikið er víst, að landhelgin ákvarðast ekki af föstum alþjóðalögum, því hún er breytileg frá einu landi til annars og sumsstaðar miklu rýmri en hjer. Landhelgi dönsku eyjanna er 1 míla eða 4 mínútur og Bretar hafa fengið það viðurkent, þrátt fyrir þriggja mínútna landhelgina við strendur Norðursjóarins, að firðir og flóar, sem eru 10 mílufjórðungar eða minna, teljast allir innan landhelgi. Við Grænland er landhelgin 16 mílufjórðungar, og við Nýfundnaland er hún mun stærri en hjer. Það væri mikill vinningur, ef hægt væri að fá landhelgina færða út um 1 mílufjórðung. Fiskimiðin okkar bestu liggja víða á núverandi landhelgismörkum eða rjett utan við þau. En þeir, sem ólöglega fiska í landhelgi, halda sig oftast yst í henni, svo auðveldara sje undanhald, ef lögreglan nálgast, og mundi því oftast nokkurt svæði fullfriðað utan við núverandi takmörk, ef svæðið breikkaði um 1 mínútu.

Jeg vil benda á það, að landhelgin er breytileg eða hreyfanleg að því er snertir eina hlið viðskiftanna þjóða á milli. Jeg á þar við örskotshelgina fornu, sem segja má að enn haldist. Það er litið svo á, að óheimilt sje að heyja sjóorustu nær landi en svo, að það sje utan við fallbyssufæri. En fallbyssurnar eru nú miklu langdrægari en áður, og getur því þessi landhelgi sífelt verið á kviki. Með hliðsjón af þessari landhelgi væri ekki óhugsandi, að hægt væri að fá hina færða út líka.

Þá væri það augljós ávinningur, ef friðun fengist á fjörðum og flóum, líkt og fengist hefir á Bretlandi. Það eru víða fiskigrynningar utan til í fjörðum og flóum hjer við land, en þau mið eru undirorpin áreitni og eyðileggingu útlendinga, því þau eru ófriðuð þar sem lengra er landa milli en 6 mílufjórðungar. Mjer hefir við fljótlega yfirsýn virst, að á þennan hátt fengist Eyjafjörður friðaður, Skagafjörður, Ísafjarðardjúp og Vopnafjörður. Að því er snertir Norðurland væri þetta mikill ávinningur um síldveiðitímann því útlendingum væri bægt frá stórum svæðum, þar sem þeir nú keppa við landsbúa og spilla veiði þeirra. Auðvitað er vafasamara, hvort nokkuð ynnist fyrir Faxaflóa. Hann er of breiður til að falla undir regluna bresku, en þó mundi hún geta náð til fjarðarmynna í innri hluta flóans. En þó að svo sje, þá er svo mikið fengið á öðrum svæðum, að tilraunin er fyllilega þess verð, að hún sje gerð.

Minni eru líkurnar til þess að fá friðaðar grynningar, sem liggja utan landhelgi. Þó ætti það ekki að vera vonlaust; þess eru dæmi annarsstaðar. En áður en sú málaleitun er hafin verður að rannsaka, í hvaða svæðum er mestur fengur, til þess að vita fyllilega um, hvað farið er fram á. Mjer dettur í hug í þessu sambandi eitthvað af Faxaflóa og grynningarnar fram undan Reykjanesi. En þetta er að eins till., sem jeg skýt fram til athugunar.

Strandvarnir standa í nánu sambandi við þetta mál, og er nú útlit fyrir, að þær verði að einhverju öruggari eftirleiðis. Umbót á þeim í sambandi við stækkun á landhelgissvæðinu er sú búbót, sem flestu öðru fremur mundi geta gert oss efnalega óháða eða fullvalda meira en í orði.

Það verður að vísu ekki sagt, að það út af fyrir sig sje fullveldisvottur, þótt viðurkenning fengist á þessu. En jeg er þó ekki í vafa um, að það, sem ynnist við þetta, væri mjög mikilsvert fyrir hið nýja fullvalda ríki, og sjálfsagt notadrýgra því en margt annað. Gullkista landsins eru fiskimið þess, og það mun mjög fara eftir því, hvernig oss tekst að ausa úr henni, hvort vjer föllum eða stöndum í baráttunni fyrir vorri þjóðlegu tilveru. En hvernig oss tekst að hagnýta oss fiskimiðin fer aftur mest eftir því, hvernig lánast að vernda þau og verja. Jeg vona, að hv. deild taki till. þessari vel og lofi henni að ganga fram tálmunarlaust, og jeg óska þess og vona, að sá verði árangur hennar, að hægari verði aðstaða fiskimanna vorra framvegis en á síðustu vertíðum.