11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

146. mál, varnir gegn berklaveiki

Forsætisráðherra (J. M.):

Þetta er sama deilan sem oft hefir heyrst áður, um milliþinganefnd, eða ekki milliþinganefnd. Mjer skilst, að allir sjeu á sama máli um, að eitthvað þurfi að gera í þessu stórmáli; að eins geta menn ekki komið sjer saman um, hverja leið skuli fara. Jeg er nú ekki eins vantrúaður á milliþinganefndir eins og margir aðrir í hv. deild, því mjer finst oft hafa komið frá milliþinganefndum ýmislegt gott, sem bygt hefir verið á fyr eða síðar. Stjórnin gæti heldur aldrei framkvæmt það, sem hjer er farið fram á, nema með aðstoð sjerfróðra manna. Um það mætti auðvitað deila, hvort mundi reynast betur, að stjórnin tæki sjer til aðstoðar í þessu máli þrjá sjerfróða menn, eða þá skipaði milliþinganefnd. Og jeg tel heppilegast í þessu máli að ganga beint að verki og skipa milliþinganefnd, sem læknar sjeu í, þar sem þetta mál snertir þá svo mjög. Stjórnin hefir svo frjálsar hendur til að athuga gerðir þeirra eftir á. Hygg jeg, að meiningin sje að skipa þrjá lækna í nefndina, og komi þeir fram með tillögur sínar í hreinni mynd, hvort sem svo þær verða framkvæmdar eftir á, eða ekki. Verður að rannsaka það síðar, hvort tillögur þeirra verða framkvæmanlegar eða ekki, sökum kostnaðar. Þar eð jeg tel ástæðurnar fyrir þessari þingsályktunartill. allmikilvægar, get jeg fallist á, að skipuð sje milliþinganefnd í málið, en auðvitað er það nærri því sama sem að fella málið að vísa því til stjórnarinnar, nema að jafnframt yrði að minsta kosti veitt nægilegt fje til þess að starfa fyrir.

Jeg sje enga ástæðu til að segja neitt um nauðsynina á því, að hafist sje handa. Hv. þm. Stranda. (M. P.) hefir gert það, og enginn mótmælt.