20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2312 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

164. mál, laun hreppstjóra

Forsætisráðherra (J. M.):

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) virðist vera dálítið gramur við stjórnina fyrir tómlæti hennar við hreppstjórana, en það var fullkomlega afsakanlegt, þótt henni sæist yfir þá, því lögin um laun hreppstjóra voru ekki nema rúmlega ársgömul þegar verið var að semja launalagafrumvarpið. Og þótt dýrtíð hefði aukist talsvert á þeim tíma, var þó munurinn á launum hreppstjóra ekki að sínu leyti eins mikill og hjá öðrum.

Jeg tel ekkert betra að bæta nú uppbót til hreppstjóra inn í fjárlögin en að endurskoða launalög þeirra á næsta þingi og bæta þeim þá.

Hvað snertir laun sáttasemjara, þá eru þau að vísu lág. En jeg hefi verið mörg ár sáttasemjari og fann ekki til þess, þótt það starf væri ekki vel borgað. Jeg skoðaði það sem borgaralega skyldu, sem maður aldrei hefði mikið upp úr. Og jeg get vel hugsað mjer ýms borgaraleg störf án borgunar, enda var það að minsta kosti áður algengt, að ýms störf væru unnin fyrir almenning án borgunar.