09.09.1919
Neðri deild: 59. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2324 í B-deild Alþingistíðinda. (2623)

143. mál, fræðslumál

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg get látið nægja að lýsa því yfir, að það er rjett, sem hv. frsm. (E. A.) hefir sagt, að fyrsta ástæðan til þess, að till. þessi er fram komin, er brjef frá mjer, þar sem jeg fór þess á leit við hv. tillögumenn að mál þetta yrði tekið til athugunar, á líkan hátt og nú hefir gert verið.

Hjelt jeg þá, að best væri að skipa í það milliþinganefnd, og held það reyndar enn.

En jeg hefi ekki neitt á móti till. þessari, því það er þá á valdi stjórnarinnar að fá menn sjer til hjálpar.

Jeg hefi því síður ástæðu til að tala mikið um þetta mál, þar sem jeg er hv. frsm. (E. A.) sammála í mörgum atriðum.

Það getur vel verið, að byrja megi á því strax í haust að tvískifta lærdómsdeildinni, en auðvitað verður það ekki nema einn bekkur í einu, sem skift verður. Neðsta bekk hennar mætti þá skifta í vetur, öðrum næsta vetur og síðan öllum þremur.

Um kostnaðinn þarf jeg engu við að bæta, og jeg tel líklegt, að mögulegt verði að framkvæma þetta.

Jeg vil því að eins taka undir með hv. frsm. (E. A.), að jeg vona, að hv deild taki þessu vel, og það ekki síst vegna laga, sem samþ. eru á þessu þingi, sem gera það að verkum, að nauðsynlegt er að koma föstu skipulagi á öll fræðslumál sem fyrst, svo að ekki verði sitt í hverri áttinni, heldur einhver festa og eining í fræðslumálum öllum, frá hinu lægsta til hins efsta.

Jeg vil því leggja það til með þessari athugasemd, að till. verði samþ., því að jeg tel það sjálfsagt að taka málið upp á þessum grundvelli og vinna að því sem best og hraðast.