17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (2680)

79. mál, lögnám á umráðum og notarétti vatnsorku allrar í Sogni

Einar Arnórsson:

Jeg vildi að eins gera lítils háttar athugasemd í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Reykv. (J. B.).

Hann virtist hafa misskilið orð mín, og hefir það víst stafað af þeirri „ekstasis“, sem hann var í, þegar hann talaði. Hann talaði um rafmagnsþörfina. Jeg nefndi hana ekki, en er þar hins vegar á sama máli og hann.

Annars skal jeg ekki kýta frekar um þetta efni við hv. þm. (J. B.).

Jeg get ekki sagt neitt um það, hvernig dómstólarnir mundu fara að skýra 12. gr. fossalaganna. Jeg skil hana nú svona, en jeg segi ekki, að minn skilningur sje rjettari en skilningur hv. 1. þm. Reykv (J. B.).

Hv. sami þm. (J. B.) vildi bendla mig við frv. það, sem hv. þm. Dala. (B. J.) bar fram á þinginu 1917. Jeg man ekki betur en frv. þetta kæmi að eins til 1. umr. Síðan var því vísað til nefndar, og hún afgreiddi það með þingsál. eða rökstuddri dagskrá, að því er mig minnir. Jeg hafði því ekki tækifæri til að segja neitt um þetta frv., nema við 1. umr. Og jeg hygg, að það sje ekki algengur siður, að menn rísi upp gegn frv. við 1. umr., þó að þeir felli sig ekki við það. (B. J.: Málinu var vísað til stjórnarinnar). Þá var ekki ástæða fyrir mig að tala, þegar sýnilegt var, að till. um að vísa málinu til stjórnarinnar mundi verða samþykt.

Jeg er sammála hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) um það, að það er engin ástæða til að vænta sjerstakra framkvæmda fyrir það, þó að þessi þingsál. verði samþykt. Til þess þarf bæði fje og vit, og jeg fæ ekki sjeð, að það fáist með því að samþykkja þessa till.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) gerði lítið úr lögfræðingunum. Það má vera, að ástæða sje til þess, en þó munu margir, og þar á meðal víst hv. þm. (J. B.), leita hjá þeim upplýsinga, þegar þeir þurfa á að halda. Annað mál er það, hvort hann fær þá fræðslu hjá þeim sem hann vill hafa.

Til þess að virkja Sogsfossana þarf lög og fjárveitingu. Mjer virtist, að 1. þm. Reykv. hjeldi, að till. ein nægði til þess að veita stjórninni heimild til sjálfrar virkjunarinnar. (J. B.: Nei!). Hann leiðrjetti sig víst á því aftur.

En svo er eitt atriði, sem tveir þm., háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) og háttv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) virðast vera mjög ósammála forseta um. Þeir segja, að 2. liður till., sem feld var hjer í gær, sje sami að efni og þessi till. Það er mjög kynlegt, að slíkir menn sem þeir eru skuli vera svona greinarlitlir, svona sljóskygnir á að sundurgreina fjarskylda hluti. Því að það er auðsætt af orðalagi till., að þær eiga við sitt hvað. Till. á þgskj. 121 skipar að framkvæma þetta nú þegar, en hin till. ætlast til, að fyrst sjeu fram komin ýms önnur atvik, áður en lögnámið fari fram. Hún gerir ráð fyrir, að dómstólarnir skeri fyrst úr því, hvort eigi að greiða endurgjald fyrir vatnsaflið eða taka það endurgjaldslaust. Eftir fyrri till. á stjórnin að taka fossaflið lögnámi fortakslaust. Hin till. vitnar í fossalögin frá 22. nóv. 1907, og gerir að eins ráð fyrir, að ríkið nái þessum gæðum gegn endurgjaldi. Till. á þgskj. 795, 2. töluliður, er miklu rýmri; hún heimilar stjórninni miklu meira svigrúm en till. á þgskj. 121. Þess vegna er miklu fremur hægt að vera með þeirri till. heldur en þessari, eins og hún er orðuð Eftir þessari till. á stjórnin að framkvæma þetta þegar í stað, en eftir hinni till hefir hún fult svigrúm. Hún gat leitað hófanna, dregið málið og ráðfært sig við næsta þing, hve nær sem á þurfti að halda. Það mundi sæta vanrækslu, ef hún framkvæmdi ekki lögnámið þegar í stað, eftir þessari till. Jeg vænti, að stjórnin gefi skýr svör um það hvort hún treystist til að framkvæma þetta.