14.07.1919
Neðri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

33. mál, tollalög

Frsm. (Einar Árnason):

Jeg geri ráð fyrir, að öllum háttv. þm. sje ljóst, að ástæðan til þess, að frv. þetta kom fram, er sú, að ríkissjóður þarfnast tekjuauka. Geri jeg ráð fyrir, að um þá þörf verði ekki skiftar skoðanir.

En hitt er annað mál, hvernig það tekst að bæta úr henni.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir fer í þá átt, að hækka toll á ýmsum munaðarvörum, og hefir nefndin eindregið fallist á það.

Nú er því svo varið, að síðan peningar fjellu í verði virðist fólk ekki skifta það miklu hvort vörur þessar eru dýrari eða ódýrari, að eins ef þær fást. Tollauki þessi mundi því hvorki minka söluna nje verða svo tilfinnanlegur fyrir kaupendurna. En gert er ráð fyrir, að tollauki þessi nemi ekki minna en 170 þús. kr. á ári.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekari orðum um frv., en vil að eins leggja áherslu á það sem bent er á í nál. að allar þær súkkulaðitegundir, sem ekki eru beinlínis suðusúkkulaði, heyra undir 13. lið 1. gr. laganna, eins og þau verða, þegar sú breyting er komin á, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Þá er það einnig ósk nefndarinnar að frv. fái að ganga greiðlega gegnum þingið svo að það komi sem fyrst að notum.