14.08.1919
Neðri deild: 35. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (2868)

9. mál, seðlaútgáfuréttur Landsbanka Íslands

Jörundur Brynjólfsson:

Það má nú segja um þetta mál, að „sínum augum lítur hver á silfrið.“ Við höfum hjer hlustað á tvo aðilja, sem ber allmjög á milli. Jeg get sagt fyrir mitt leyti, að strax þegar jeg leit á þetta frumv. um seðlaútgáfurjett handa Landsbankanum, þá leist mjer hálfilla á það. Í fljótu bragði sýndust mjer ýms atriði í því vera varhugaverð, og ekki gerlegt, að hjer yrði hrapað að í neinu. Því lengur, sem jeg hefi hugsað málið, því fjær sanni tel jeg, að það beri að samþykkja það. — Það er nú þegar búið að taka æði margt fram í þessu máli. Mest hefir það gert háttv. frmsm. (E. Árna.), en þó vildi jeg drepa á nokkur atriði lítið eitt nánar en hann.

Þá er það fyrst, sem mjer sýnist allhættulegt, að Íslandsbanki má auka hlutafje sitt eftir eigin geðþótta. — Það hefir nú verið minst á það hjer áður, að svo gæti farið, að Íslandsbanki yki svo sitt hlutafje, að Landsbankanum stafaði hætta af því. Og er það einnig mín skoðun. — Það þarf ekki endilega að vera því samfara, að bankinn færi út fyrir sitt starfssvið. En þó er nú ýmislegt, sem veldur því, að hann á hægar með það en áður. Bankinn getur sem best, með mjög miklu hlutafje, lagt út í hinar og aðrar „spekulationir“ með of fjár. Þetta gæti orðið mjög hættulegt, því svo gæti farið, að hann með tímanum yrði Landsbankanum sá ofjarl, að hann hefði alveg töglin og hagldirnar á hjerlendum peningamarkaði.

Háttv. frmsm. minni hl. (M. G.) gat þess, að Landsbankinn gæti sett Íslandsbanka stólinn fyrir dyrnar að nokkru leyti, með því að neita honum um seðla. En þó að svo kunni nú að vera, að Landsbankinn gæti sett honum nokkrar takmarkanir með því, þá er það mjög mikið efamál, hvort Landsbankinn hefir svo góða aðstöðu, að hann yrði ekki að taka mjög nærri sjer, áður en svo langt væri gengið, og eftir 6. gr. frv. er það beinlínis efamál, að hann hafi rjett til þess.

Greinin byrjar á þessum orðum: „Landsbankinn er skyldur til að greiða með seðlum sínum ókeypis og eftir þörfum í Reykjavík, samkvæmt brjefi eða símskeyti, fjárhæðir, sem Íslandsbanki borgar inn í reikning Landsbankans við viðskiftabanka hans í Kaupmannahöfn o. s. frv.“

Mjer sýnist nú, að samkvæmt þessu ákvæði verði það mjög hæpið, að Landsbankinn geti með góðu móti synjað Íslandsbanka um seðla.

Í 1. gr. frv. stendur, að Landsbankanum skuli heimilt að gefa út seðla eftir því, sem viðskiftaþörfin krefur.

En hver á að dæma um þá þörf ? (M. G.: Eftirlitsmennirnir). Jeg get nú ekki lagt mikið upp úr því, að fela þeim það starf, og jeg lít svo á, að það sje að reiða sig á ærið ófullkomið atriði í þessu máli.

Og þetta atriði, þótt ekki væri annað, ætti að vera nóg til þess að vekja menn til umhugsunar á því, hve varhugavert það er að gleypa við frv. þessu.

Eins og menn vita, er fulltrúaráð Íslandsbanka þannig skipað, að Alþingi velur 3 fulltrúa, hluthafar 3 og er ráðherra oddamaður.

Fulltrúaráði þessu eru fengin svo mikil völd í hendur, að segja má, að það ráði algerlega öllum störfum og framkvæmdum bankans, auðvitað þó í samræmi við heimildarlög þau, sem um hann eru sett.

Getur hver sem vill sannfærst um það með því að lesa reglugerð fyrir bankann, frá 25. nóv. 1903. Þar stendur svo í 13. gr. þar sem verið er að tala um starfstegundir bankans: „Aðrar tegundir af bankastörfum en þær, er að framan eru greindar, má bankinn ekki takast á hendur nema samkvæmt ályktun fulltrúaráðsins, er samþykt sje með 5 atkvæðum að minsta kosti.“

Og í 19. gr. reglugerðarinnar stendur svo: „Fulltrúaráðið hefir hina æðstu forstöðu bankans og allra mála hans á hendi. — Í öllum málefnum, öðrum en daglegum störfum bankans, gerir fulltrúaráðið ályktanir fyrir hans hönd, nema þar sem vald til þess er í reglugerðinni áskilið aðalfundi o. s. frv.“

Auk þess er hjer í reglugerðinni drepið á það, að ráðherrann í fulltrúaráðinu geti haft framkvæmdir bankans, sem fulltrúaráðið gerir, ef þær brjóta í bág við ákveðna starfsemi bankans. Samkvæmt þessu frv. er þeirri heimild haldið, en aðstaða öll er miklu verri eftir en áður.

Jafnframt er það áskilið í reglugerð bankans, að ráðherra geti ekki að eins setið á fundum fulltrúaráðsins, heldur einnig á fundum bankastjórnar, þar sem hún hefir mál bankans með höndum. En í þessu efni er sýnilegur skortur á því eftirliti, sem hægt væri að hafa, eftir þessu frv.

En að slík hafi verið tilætlun þeirra, sem um málið fjölluðu í fyrstu, má best sjá í umr. um það í Alþtíð. 1901, A. á bls. 132–133. par segir frsm., Hallgrímur Sveinsson, meðal annars þetta: „Öll nefndin var sammála um það, að það væri æskilegt, að landsmenn gætu haft nægilega hönd í bagga með bankastjórninni og allri framkvæmd hennar og aðalfundarins, því að eins og gefur að skilja, stendur það á mjög miklu. Oss þótti tryggingin ekki nægileg nema landsmenn rjeðu mestu, bæði í fulltrúaráðinu og bankastjórninni. Þetta virtist meiri hlutanum nokkurn veginn trygt með því, að Alþingi kýs 3 menn í fulltrúaráð bankans, sem sjálfsagt eru áreiðanlegir fylgismenn lands og þjóðar, eins og einnig má ætla um ráðgjafann, sem er sjálfkjörinn í fulltrúaráðið. — — — “

Þessum augum hefir hann og þeir, sem honum fylgdu, litið á þetta atriði.

En nú segir hv. frsm. minni hl. (M. G.), að sig furði á því, hversu mikið meiri hl. geri úr þessu fulltrúaráði, þar sem það hefði gefist svo hingað til, að tæplega væri ástæða til að ætla, að það ljeti sig starfsemi bankans miklu skifta hjer eftir.

En þó nú svo hafi verið, þá getur það verið varhugavert að nema þetta ákvæði úr lögunum, af þeirri ástæðu, að illa hefir tekist valið á mönnum þessum.

Jeg hygg, að sýna megi fram á það með eins miklum rökum, að ef illa hefir verið til fulltrúavalsins vandað, og það hefir rækt illa starf sitt, þá væri það nær, að Alþingi vandaði betur til valsins hjer eftir en hingað til og tæki meira tillit til þess starfs, sem þeir menn eiga að inna af hendi.

Það hygg jeg að væri nokkru nær en að nema aðhald þetta burtu. (M. G.: Eru þessir eftirlitsmenn þá ekkert?) Jeg geri satt að segja mjög lítið úr þeim. Það er ekki víst, að þeir viti fyr en eftir á, hvað bankinn hefir ætlað sjer, og þótt þeir vissu það, þá er það ekki sagt, að þeir hefðu svo mikið að segja. Þeim eru ekki heldur fengin nein völd gagnvart bankanum í hendur.

Það er víst alveg einstakt að leyfa „prívat“-banka, eins og hjer er gert, að vera sinn eiginn dómari í öllum peningamálum, og veita honum heimild til að auka hlutafje sitt eftir vild, því að þótt háttv. framsm. minni hl. (M. G.) haldi, að takmörk sjeu sett fyrir þeirri aukningu, þar sem hann verði að greiða svo háa vexti til hluthafa sinna, þá er það hreinasta fásinna að ganga út frá því. Hvað skyldu hluthafar láta sig muna um það að fá lága vexti af hlutabrjefum sínum í nokkur ár, ef þeir ná með því tökum á peningamarkaðinum hjer á landi. Eftir að Íslandsbanki hefði komið Landsbankanum á knje, mundu þeir fá það marguppborið. Þetta atriði, sem háttv. frsm. minni.hl. (M. G.) styður sinn málstað með, hefir því ekki við nein rök að styðjast.

Þá drap hann einnig á það, að ef bankinn yki mjög fje sitt hjer, þá væri það af því, að fjárins væri þörf í landinu og hægt væri að ávaxta það hjer. Jeg býst nú við, að lengi megi finna hjer fjárþörf og sömuleiðis megi hjer ávaxta mikið fje. Þarf ekki annað en að benda á, að hjer eru einhver bestu fiskimið í heimi, og mundi bankinn geta stutt að því, að efla þennan atvinnuveg; hann gæti meira að segja lagt svo mikið fje fram til þess, að það hefði stór áhrif á peningamarkaðinn, eða rjeði honum algerlega.

En þegar á alt er litið, er mjög vafasamt, hvort það yrði þjóðinni til hagsmuna, þótt ganga megi út frá því, að það yrði til bóta fyrir einstaka vini bankans. Menn skyldu að minsta kosti forðast að draga þá ályktun.

Þess vegna verður, þegar talað er um að auka hlutafje bankans, jafnframt að athuga, eftir hvaða mælikvarða það getur talist holt að fá fje inn í landið.

Jeg man ekki betur en í sambandi við fossamálið hafi það komið fram, að á fleira beri að líta en að eins það eitt, að ná fje inn í landið til þess að starfrækja fossana. Menn telja það ekki óttalaust að fá stórfje inn í landið til þeirra starfa vegna áhrifa þeirra, sem þau gætu haft á allan þjóðarhag og atvinnuvegi.

En eins gæti farið hjer, að ekki yrði holt að auka sjávarútveginn úr öllu hófi fram.

Og jeg veit ekki, hvort það yrði þjóðinni nokkur vegsauki, ef landbúnaður legðist niður og hjer yrðu að eins fiskiver með ströndum fram.

Jeg fyrir mitt leyti mundi gera alt, sem í mínu valdi stæði, til þess að koma í veg fyrir það.

Hjer hefir verið drepið á ýms önnur atriði, sem snerta þetta mál, eða skilyrðin fyrir því, að Íslandsbanki láti af

hendi til Landsbankans rjett sinn til að auka seðlaútgáfuna.

En jeg skal ekki fara langt út í þau atriði, enda held jeg, að þau sjeu ekki eins stórvægileg eins og þau, sem jeg hefi nú minst á.

Aðallega er það fjármálahliðin, og svo fulltrúaráðið, sem hjer er um að ræða.

En þá ber að líta á það beina peningatjón, sem landið gæti haft af því, ef þessi breyting kæmist á. En það getur orðið miklu meira en háttv. nefnd hefir gert ráð fyrir. Hefðu t. d. þeir samningar verið komnir á síðasta ár, þá mundi landssjóður hafa skaðast um 80 þús. kr. En þá má ef til vill gera ráð fyrir, að Landsbankinn græði annað eins á seðlaútgáfurjettinum.

En um það er ekkert hægt að staðhæfa, og verða menn þar að dæma eftir líkum einum. En hvernig jeg líti á það atriði geta víst allir rent grun í.

Jeg geri ekki mikið úr þeim gróða, sem Landsbankinn muni hafa af seðlaútgáfunni.

Ef viðskiftakreppa kæmi, svo að umferð peninga minkaði eða teptist, þá mundi sá gróði ekki verða stórvægilegur, þar sem honum er gert að skyldu að ávaxta um 3% þá seðla Íslandsbanka, sem eigi eru í umferð og fram yfir eru það, sem Landsbankinn hefir í umferð af sínum seðlum fram yfir 750 þús. kr.

En af þessu ákvæði leiðir það, að Landsbankinn yrði að sjá um, að seðlar Íslandsbanka væru ætið allir í umferð, og mundi þá verða smár vinningur Landsbankans, ef viðskiftakreppa sverfur að.

Jeg hygg því, að ef frv. verður að lögum, sem jeg vona að aldrei verði, þá muni það koma í ljós, að landið bíði fjárhagslegt tjón af breytingu þessari.

Jeg get ekki heldur skilið það, hvers vegna Íslandsbanki vill láta af hendi þennan rjett sinn óneyddur, ef hann er ekki fullviss um, að hann geri það sjer að skaðlausu. Jeg lít líka svo á, að skilyrði þau, sem hann setur, sjeu þannig vaxin, að honum sje vel borgið.

Jeg held líka, að þegar Íslandsbanki hefir borið erindi sín fram fyrir Alþingi, þá hafi hann oftast borið frekar fyrir brjósti hag sinn og hluthafanna heldur en hag alþjóðar hjer.

Og þegar nú er auðvelt að sjá ýmsa agnúa á þessari breytingu, þá er jeg ekki svo auðtrúa, að halda, að bankinn vilji ganga inn á hana af því, að hann telji hana til alþjóðarheilla. Jeg held því, að hyggilegast sje að taka máli þessu með mestu varkárni, og að forðast beri að samþ. neina breytingu á lögum Íslandsbanka, nema menn sjeu sannfærðir um, að hún sje til einhvers hagnaðar fyrir landið.

En jeg lít svo á, að ekki sje saman berandi, eins og háttv. framsm. minni hl. (M. G.) vildi vera láta, seðlaútgáfurjettur sá, sem Landsbankinn á að fá, og seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka.

Þar eru ekki sömu skilyrði sett. Íslandsbanka er ekki gert að skyldu að ávaxta seðla Landsbankans, ef þeir eru ekki í umferð, og margt fleira og fleira. Og ýmislegt er fleira varhugavert í ákvæðum þessum. Og trúað gæti jeg því, að ef frv. þetta yrði samþ. nú, þá yrði Íslandsbanki sá Mjölnir á íslensku viðskiftalífi, að okkur mundi ekki síður iðra þess, að hafa samþykt þá breytingu, en menn iðrar þess nú, að hafa veitt Íslandsbanka þessi rjettindi í upphafi.

En með þessu er jeg ekki að álasa háttv. minni hl. nefndarinnar. Jeg sagði það í byrjun ræðu minnar, að menn litu misjöfnum augum á þetta mál, en til þess þurfa ekki að vera aðrar ástæður en þær, að menn skoði málið frá mismunandi hliðum.

En í þessu máli gætir svo mjög hagsmuna þjóðarinnar, að það er skylda allra fulltrúa hennar að viðhafa sem mesta varfærni, og það mun betur reynast í þessu máli að vera of varfærinn en of djarfur.