01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2896)

106. mál, sóttvarnaráð

Gísli Sveinsson:

Það er óhjákvæmilegt, er þetta mál er hjer fyrir háttv. deild til aðalumræðu, að komið sje inn á forsögu málsins, þau rök, er liggja til þess, að málið er fram komið. Jeg furða mig því ekki á því, að háttv. þm. Borgf. (P. O.) kom inn á það. Hitt þykir mjer meiri furðu gegna, að nefndin hefir ekki viljað, að drepið væri á það í framsögu málsins, þar sem þó er hjer um að ræða allmikið nýmæli. Það er satt að segja alleinkennilegt að fá svona mál sem þetta frv. inn á þingið upp úr þurru, og hefði því ekki verið um skör fram, þótt komið hefði frekari greinargerð fyrir tildrögum málsins í framsögunni. Enn fremur furðar mig á því, að hæstv. forsætisráðh. kvað sig ekki hafa búist við, að menn myndu komast í umræðum málsins inn á þetta svið. Það er satt, að þegar stjórnin lagði frv. fram, kom hún ekki inn á þetta atriði. En jeg hjelt, að það væri af því, að hún teldi ekki ástæðu til þess fyr en við aðalumræðuna, 2. umr., er málið kæmi úr nefnd. En þótt þetta, sem hjer liggur nú fyrir, sóttvarnaráðsfrv., sje nýtt frv. og nú til 1. umr., þá ber þess að gæta, að þetta frv. er borið fram af nefnd þeirri, er fjekk í hendur heilbrigðisráðsfrv. stjórnarinnar, og í stað þess. Nefndin er því að skila af sjer málinu með þessum hætti, og hlýtur þá, samkvæmt eðli málsins og þingvenju, að vera rjett að fara rækilega inn á rök þessa máls alls.

Hitt, sem hæstv. forsætisráðh. ber fyrir sig, að hann sje ekki nú viðbúinn að svara ræðum um þetta efni, það þykir mjer kynlegt. Mjer þykir kynlegt, ef hæstv. landsstjórn, eða nokkur landsmanna, hefir slept hugsuninni algerlega af þessu máli. Mjer þykir það kynlegt, ef hæstv. forsætisráðh. hefir haldið, að allir landsmenn væru búnir að sleppa svo hugsuninni af þessu máli, hefðu gleymt því svo, að hann telji sig og stjórnina enga grein þurfa að gera fyrir aðgerðaleysinu síðastliðið haust.

Það er rjett, að hæstv. forsætisráðh. var fjarverandi, er út í drepsóttina var komið. En í öndverðu var hann nærverandi, er sóttin var að berast inn í landið og byrjaði. Það er því alveg víst, að hæstv. landsstjórn verður að gera grein fyrir málinu, sje um það rætt, enda hjelt landsstjórnin áfram að hafa afskifti af því, þótt einn ráðherranna færi utan. Og hún verður og að svara fyrir hönd heilbrigðisstjórnarinnar allrar, þar með vitanlega fyrir höfuðembættismanninn þar, landlækninn.

Tilefnið til þess, að frv. stjórnarinnar um heilbrigðisráð var lagt fyrir þingið, er það, að landlæknir verður að horfa á það og kenna á því, að þær tillögur, sem hann, landlæknir, hafði gert um tilhögunina í haust út af sóttinni, voru vettugi virtar. Hann sá, eins og sumir aðrir, að hann var algerlega kominn út úr þessum málum. Og það var ekki einungis, að tillögur hans væru virtar vettugi, heldur fjekk hann og að maklegleikum ákúrur fyrir sitt aðgerðaleysi. Og alstaðar, þar sem íslensk tunga er töluð og fylgst er með íslenskum málum, bæði hjer á landi og annarsstaðar, voru menn jafnhissa á því, sem hjer var gert, eða öllu heldur, að hjer var ekkert gert.

Þá er að víkja að því, sem hæstv. forsætisráðh. virtist gefa í skyn, að hjer hefði verið sama á ferðum og annarsstaðar. Er því skjótsvarað, að hjer er aðstaða öll svo gagnólík því, sem er í öðrum löndum, að ekki er saman berandi. Hið eina, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) svaraði í þessu sambandi til ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.) var, að ekki væri furða, þótt slíkar ásakanir hefðu komið fram hjer, og það verð jeg líka að styðja. En svo bætti hann við: „af því að þær hefðu einnig komið fram í Danmörku.“ Það er víst, að þar komu einnig fram ásakanir, en engum mun það til hugar koma, eða því haldið fram með rökum, að hægt sje að ætlast til annars eins þar og hægt er að ætlast til hjer. Því verður ekki mótmælt, og hefir ekki heldur verið mótmælt, svo að mark sje á takandi, að hjer er svo góð aðstaða til að framkvæma sóttvarnir með fullum árangri, að varla nokkursstaðar mun önnur eins.

Það er kunnugt, að landið er afskekt, og samgöngurnar voru þannig lagaðar, sumpart vegna stríðsins og sumpart af öðrum ástæðum, að mönnum var í lófa lagið að sjá um skipin og og telja þau. Og hefði verið tekið tillit til þessa í tíma, þá hefði landið losnað við drepsóttina. En það er óskaplegt, að verða að segja það, og þaðan af óskaplegra, að það skuli vera satt, að fyrir handvömm liggi nú fjöldi fólks dáið og grafið. Því að það var ekki svo gott, að hjer væri um algert aðgerðaleysi að ræða; nei, síður en svo. Það er ekki nóg með það, að alt sje látið reka á reiðanum um það, hvort pestin, sem engin inflúensa var, heldur drepsótt, komi eða ekki, heldur eru beint gerðar ráðstafanir til þess, má segja, að veikinni sje hleypt á land. Það er skrifað um það af landlækni, að drepsóttin ætti að fara um landið, það ætti að lofa henni sjálfráðri að breiðast út, því að hún væri óstöðvandi og ekki hættuleg. En skiljanlegt var, að menn vildu hvorki láta drepa sjálfan sig nje aðra, er þeir áttu um að sjá, og að hjeraðsstjórnir tækju málið í sínar hendur. Þess vegna er ekki heldur tiltökumál, þótt landlæknir sje gramur, eins og fram kemur í brjefi hans til stjórnarráðsins, þar sem hann segir: „Ýms blöð landsins halda því fram statt og stöðugt, að ummæli mín um erfiðleikana á vörnum gegn inflúensu sjeu einskis virði; hefir þetta leitt til þess, að ýmsar till. mínar og sumra merkustu hjeraðslækna landsins hafa verið að engu hafðar, og hjeraðsstjórnir og sveitarstjórnir tekið ráðin í sínar hendur og hagað sóttvörnum eftir eigin geðþótta.“

En til hvers eru lög? Þau eru sett af lifandi mönnum til að lifa við og fara eftir, sjer til lífsviðhalds, og því var eðlilegt, að landsmenn færu því fram, sem þeir gerðu. Því að mjer er ekki kunnugt um nokkra nauðsyn svo brýna, að ekki sje sú nauðsynin brýnust, er lífið liggur við að „brjóta lögin“. En átti þá ekki landsstjórnin líka að hlaupa yfir þessar ákvarðanir landlæknis og fara eftir sínu „leikmannaáliti“, eins og aðrir? Aðrir læknir sumir munu hafa hugsað á líka leið og landlæknir, eða sem svo, að úr því að þessi veiki væri ekki ein af þeim, sem verjast skuli eftir sóttvarnarlögunum, því þá ekki að láta hana „rasa út“! Eftir lögunum væri ekki skylt að verja landið fyrir henni. Þegar menn, sem fara eiga með mikilvægustu mál þjóðarinnar, eru komnir inn á þessar hugsanaleiðir, þá eru málin komin í illar hendur. Það verður altaf að gera ráð fyrir undantekningum, og að ávalt geti það komið fyrir, að skerast verði í leikinn á sjerstakan hátt, þrátt fyrir öll lagaákvæði.

Fjöldi almennings vissi um skaðsemi þessarar veiki áður en hún kom, og blöðin voru búin að flytja símskeytafrjettir um hana og hversu hún geysaði um álfuna. Hvernig stendur þá á því, að læknar landsins og heilbrigðisstjórn grípa þá ekki fram í? Þeir, sem ráða eiga yfir heilbrigði landsmanna! Hverju á að svara til þess? Því að það tel jeg bágborið svar og með öllu óviðeigandi, að ekki eigi að tala um málið, heldur þegja um það og taka það gott og gilt frá landsstjórninni, að hún sje ekki tilbúin að tala um málið, síðan í fyrrahaust.

Því hefir verið borið við, að leitt hefði svo mikinn kostnað af sóttvörnum, að ekki hefði verið hægt að ráðast í þær þess vegna. En þetta var gert. Sóttvörnum var haldið uppi í hinum ýmsu landshlutum, með fullkomnum árangri, þrátt fyrir það, þótt veikin væri komin inn í landið, og sóttvarnir því miklu erfiðara en ef allsherjarsóttvörn hefði verið tekin upp áður en veikin barst hingað til landsins. Og þetta varð mönnum vel kleift. Hefi jeg ekki heyrt neina kvarta undan þeim kostnaði, sem þær sóttvarnir höfðu í för með sjer, heldur hitt, að hann hafi gert minst til, úr því að hægt var að losna við veikina. Þvílíkan dauðadóm yfir ástæðum hefi jeg aldrei heyrt upp kveðinn! Þess vegna var það líka alveg rjett, sem hjeraðsstjórnirnar gerðu — að hlýða ekki ráðstöfunum landlæknis! Sjálfir geta menn athugað, hvað mikið af þeirri upphæð í fjáraukalögunum, sem veitt er vegna inflúensunnar, fer til að fyrirbyggja útbreiðslu veikinnar. Það fer sama sem ekkert til þess, heldur mestalt til að halda lífinu í fólkinu, þar sem pestin var komin, og til þess að það gæti „dáið með læknishjálp“, eins og menn segja.

Um samanburð við varnir gegn eldri drepsóttum getur hjer ekki verið að tala, því að þá voru sannarlega engir sjerstakir embættismenn til þess að verja þeim landgöngu. En nú eru þeir til, og menn ættu því að vera komnir á hærra stig í þessu efni, þó að reynslan sýni hið gagnstæða. Eða á sú drepsóttin, sem ekki á lögum samkvæmt að verja, af þeirri tilviljun, að menn hafi ekki þekt hana, að vera rjetthærri að drepa landslýðinn en hin, sem sóttvarnir eru skipaðar gegn. Tillögur stjórnarinnar til þessarar breytingar um stjórn heilbrigðismálanna eru í raun og veru gjaldþrotayfirlýsing núverandi landlæknis. En um það geta þó að sjálfsögðu verið skiftar skoðanir, hvort enginn muni fá annað þessu embætti. Hitt er augljóst, að núverandi landlæknir getur ekki, þrátt fyrir alla sína hæfileika, þjónað þessu embætti lengur. Honum er það um megn, enda kannast hann við það og segir skýrum stöfum í röksemdum sínum til stjórnarinnar, er fylgdu heilbrigðisráðsfrv. Hann segir og í framsöguræðu sinni á læknafundinum, sem nýlega var haldinn hjer í bænum: „Ekki lengur neinum einum manni fært að reisa rönd við öllum þeim vanda.“ — Jeg verð nú, fyrir mitt leyti, að telja embættið ekki einum manni um megn, ef hann með fullri heilbrigði og óskertum kröftum gefur sig við því. En landlæknirinn er nú á annari skoðun, því að hann bætir við á öðrum stað, að dagar landlæknisembættisins sjeu nú taldir, og segist nú hafa ákveðið að láta slag standa, sinn „síðasta slag“, að koma góðu skipulagi á stjórn heilbrigðismálanna — og láta svo af embætti. Hjer á hann við „heilbrigðisráðið“, sem hann vill fá stofnað. En ekki eingöngu landlæknir, heldur landsstjórn, verður að vera þessarar skoðunar, ef rökrjett er hugsað. Hins vegar er mín skoðun sú, hvort sem nokkur breyting verður samþykt eða ekki, að það sje eindreginn vilji og álit þjóðarinnar, að sá maður, sem nú þjónar embætti þessu, eigi ekki og geti ekki þjónað því lengur. Og hann er hjer sjálfur, eins og bent hefir verið á, kominn að sömu niðurstöðu.

Um frv., sem hjer liggur fyrir, hefi jeg því það eitt að segja, að jeg tel landlæknisembættið ekki ofvaxið einum ötulum manni, og frá mínu sjónarmiði ekkert nema tildur að vera að koma upp heilbrigðis- eða sóttvarnaráði, sem að eins er til að fjölga embættum og dreifa ábyrgðinni. Stefnan er einmitt sú annarsstaðar að færa saman völdin, þegar inn slík mál er að ræða sem þessi, fela einum manni ábyrgðina. Þannig var t. d. í júlímánaðarbyrjun nú í sumar í Englandi skipaður einn maður til þess að hafa alveldi í sóttvarnarmálum. En áður höfðu fleiri menn um þau fjallað og ráðið þar fram úr. Slík mál eru tvímælalaust best komin undir einveldi, ef um hæfa menn er að tala, og öðrum á ekki að fela þau. Væri það því að ganga fram hjá, eða þvert á móti, reynslu helstu menningarþjóðanna, með öllu því, sem yfir þær hefir dunið, að fara nú að stofna hjer sjerstakt ráð eða embættismannasamkundu. Jeg býst líka við, að hæstv. landsstjórn verði svo vakandi fyrir drepsóttarhættu nú á næstunni, að hún hafi vaðið fyrir neðan sig, og jafnvel að það geti komið fyrir, að hún skirrist ekki við að „brjóta lögin“, þegar brýn nauðsyn — lífsnauðsyn — krefur.

Ýms önnur störf landlæknis tel jeg fullvel mega fela öðrum, ef því væri að skifta. Ýms skrifstofustörf hans geta heyrt undir stjórnarráðið, og ýms mál, sem eru ráðgjafareðlis og undir hann heyra, gæti læknadeild háskólans tekið að sjer, en sóttvarnarmálin verða að vera hjá einum manni. Það er því engin ástæða til að samþ. frv., og það því síður, sem gera má ráð fyrir, að landlæknir yrði formaður í báðum þessum ráðum, og tel jeg þá ver farið en heima setið, ef svo yrði, að sá, er nú þjónar embættinu, færi ekki frá, svo sem vera ætti.