01.08.1919
Neðri deild: 23. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2905)

106. mál, sóttvarnaráð

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg held, að það hafi ekki verið að ástæðulausu, að jeg sagðist ekki vera búinn til svara í máli þessu, þegar jeg svaraði ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.).

Og þótt háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hefði þá verið búinn að halda hinar löngu tölur sínar og stuttu athugasemd, þá mundi það ekki hafa breytt afstöðu minni.

Ræður hans hafa verið svo öfgakendar, að ekki er auðvelt að svara mörgum þeim atriðum, sem hann hefir komið fram með.

Jeg drap á það í svari mínu til háttv. þm. Borgf. (P. O.), að víðar en hjer hefðu heyrst ákúrur fyrir það, að ekki hefðu verið teknar upp varnir gegn veiki þessari, sem sumir háttv. þm. segja, að verið hafi annað en „Influensa“. En jeg hefi ekki heyrt það frá neinum rannsóknarstofum erlendis, að þetta hafi verið önnur veiki en „Influensan“, eða kvefpestin, sem gekk um 1890. Eins og kunnugt er, hafa miklar rannsóknir um eðli sýki þessarar farið fram víða erlendis, án þess að komist yrði að annari niðurstöðu.

Annars kemur þetta ekki málinu við, og er óþarfi að vera að deila um það. Það hefir sýnt sig, að þetta var skæð drepsótt, og ef slíkt hefði verið mönnum vitanlegt í haust, þá mundu hafa verið gerðar skarpari ráðstafanir til þess að hleypa veikinni ekki á land.

En hitt er óþarfi, að lengja umr. með þessu hjali um eðli veikinnar, af mönnum, sem alls ekki hafa fylgst með rannsóknunum.

En það ætti hverjum sanngjörnum manni að vera ljóst, að heilbrigðisstjórninni hjer á landi er það mikið til afsökunnar, að ekki hefir meira nje annað verið gert til varnar í öðrum löndum. Hjer er því rangt að tala um embættisvanrækslu.

Það hefir verið sagt, að hægara sje að verjast hjer en annarsstaðar. Það er þó ekki hægara hjer en t. d. í Færeyjum, því að hjer koma miklu, miklu fleiri skip. (S. S.: Ætli Dönum hafi þá ekki verið sama um það þar?) Þetta er mjög ómaklega mælt, og hlýtur að vera sagt á móti betri vitund, því að hvað sem háttv. þm. (S. S.) annars vill bera Dönum á brýn, þá er þesskonar umhyggja hjá þeim í besta lagi.

En það er örðugt fyrir aðra en lækna að dæma um þetta atriði til fullnustu, og það er ekki víst, að dómar manna, sem um sárt eiga að binda, sjeu ábyggilegir. Jeg skil það vel sjálfur, jeg get ekki síður en aðrir kvartað yfir því, að veikin skyldi koma.

En þrátt fyrir það vil jeg ekki, að nokkur maður sæti órjettlátum áfellisdómi í þessu máli.

Mjer datt ekki í hug að segja, eins og háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) virtist hafa skilið orð mín, að ekki mætti tala hjer um þessar ráðstafanir. En jeg bjóst við að fá aðvörun um það áður, og í umr. um þetta frv. var engin ástæða til að komast inn á þetta.

Hitt, hvort landlæknir er hjer viðstaddur eða ekki, það skiftir ekki miklu, en rjettara var, ef á hann er ráðist, að leita hans upplýsinga um málið áður.

Annars er aðalefni málsins, sem nú liggur fyrir, það, hvort heppilegra sje að fela heilbrigðisráðstafanir einum eða fleiri mönnum. Um það má deila. Ábyrgðinni er að vísu dreift, ef falið er þremur mönnum. En jeg efast ekki um, að því verði treyst, að málin verði betur athuguð af þremur traustverðum mönnum en einum. Enda hefir það sýnt sig, eftir að umsjón var falin þremur mönnum, að ekki hefir borið á öðru en að ráðstöfunum þeirra hafi verið treyst.

Og ekki hefir verið kvartað undan því að feld var niður vörnin gegn sýkinni, þótt ekki sje fullsannað, að hún sje út dauð.

Sú athugasemd var rjett hjá háttv. þm. Stranda. (M. P.), að sóttvörnin heima í hjeruðum væri lögð í hendur hjeraðslækna. Þeir stjórna þeim málum með aðstoð lögreglustjóra. En það hindrar ekki, að stjórnin geti leitað til sýslumanna, en landlæknir aftur á móti til læknanna, enda er það eðlilegast.

En sú skoðun, sem hann lýsti, fellur alveg saman við minn skilning á lögunum um þetta efni. Jeg tel það heppilegra, að allar framkvæmdir í þessum málum sjeu lagðar á hönd einum manni, en ekki skift milli tveggja embættismanna.