23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2965)

83. mál, hvíldartími háseta

Björn Kristjánsson:

Það hefir þegar verið rætt svo mikið um þetta mál, að það má heita að bera í bakkafullan lækinn að fara að lengja umræður um það. Jeg er sammála meiri hl. nefndarinnar og tel hann hafa fært fram þær ástæður fyrir áliti sínu, að þeir, sem ekki hafa frá upphafi verið ákveðnir í, hvernig þeir ætluðu að taka málinu, muni fallast á þær og telji þær góðar og gildar. Hjer á að fara að lækna heilbrigða menn, eða að minsti kosti að fyrirbyggja, að heilir menn og hraustir verði veikir eða missi heilsuna vegna of mikillar vinnu. Það hafa í máli þessu ekki verið borin fram nein líkindi, hvað þá sannanir, fyrir því, að sjómönnum sje ofþyngt með vinnu. Þó á þingið að fara að setja tryggingarlög gegn hættu, sem það þekkir ekki.

Þegar á annað borð á að fara að setja lög til þess að tryggja heilsu þegna þjóðfjelagsins, þá þurfa löggjafarnir að hafa víðari sjóndeildarhring en aðstandendur frv. þessa, og það þarf að líta til fleiri en háseta á botnvörpungum. Við ýmsa leiki og leikfimisæfingar spilla menn einatt heilsu sinni, ofreyna sig, meiðast; ekki á þetta sjer síst stað í knattleik; þar beinbrotna menn ósjaldan, ganga úr liði og lemstrast á annan hátt. Þá spillir fjöldi fólks heilsu sinni við að hafa á hendi störf, sem þeim eru óholl; þannig er um ýms kyrsetustörf. Þeir halda áfram störfum þessum, þótt læknar hafi sagt þeim, að þeir stofni lífi sínu í háska með þessu. Og gegn þessu er engin lagavernd. Einhver kynni að segja, að þetta sjeu sjálfskaparvíti, því að slíkir menn geti lagt starf sitt niður, þegar þeir vita um hættuna, sem fylgir því að halda starfinu áfram. En því er til þess að svara, að með því þjóðfjelagsskipulagi, sem nú er, er þeim þess enginn kostur, hve fegnir sem þeir vildu. Þeir geta ekki á annan hátt unnið fyrir sjer og fjölskyldu sinni. Margur iðnaðar- og daglaunamaðurinn verður að vinna baki brotnu, þótt heilsan bili; þeir geta ekki hlýtt læknisráðum, heldur verða að halda áfram að strita, þótt þeir viti, að það sje sama sem að ganga út í opinn dauðann. Um ýmsa slíka menn má með sanni segja, að þeir deyi fyrir tímann. Ef löggjöfin færi að grípa einhversstaðar inn í, til að fyrirbyggja það, að menn þyrftu að spilla heilsu sinni með of mikilli vinnu, þá ætti hún áreiðanlega að byrja á því að bjarga þessum mönnum, sem ekki liggur annað fyrir en að fara á sveitina, ef þeir hætta að stunda þá vinnu, sem hættuleg er lífi þeirra og heilsu. Það er sama sem að byrja á því að smíða negluna á undan skipinu, að ætla með löggjöf að fyrirbyggja það, að alheilbrigðir menn kunni að vinna yfir sig; en skeyta hinu engu, þótt heilsubilaðir menn verði að vinna yfir sig. Samkvæmt eigin reynslu get jeg ekki dæmt allmikla og erfiða sjósókn heilsuspillandi. Jeg reri á Álftanesi á vertíð frá því jeg var 15 vetra til þess jeg var 18 ára. Þaðan er að jafnaði langróið; jeg var sjóveikur og hafði litla matarlyst áður en á sjó var farið, í býti á morgnana; við vorum oftsinnis heilan sólarhring í róðrinum og höfðum engan matarbita með okkur. Var þetta allmikil áreynsla fyrir óharðnaðan ungling. Þó er jeg kominn á sjötugsaldur, og finn ekki til þess, að þetta hafi spilt heilsu minni. Áreynsla í æsku herðir og styrkir að jafnaði líkamann, sje hann ekki veiklaður, og jafnvel þótt svo sje, sje henni skynsamlega hagað. Jeg tek það aftur upp, að löggjöfin á að hlaupa undir bagga með mönnum, sem neyðast til að vinna, þótt þeir þoli það ekki. Jeg þekki dæmi þess, að menn á besta aldri, sem hafa átt fyrir konu og börnum að sjá, hafa orðið að vinna fyrir þeim, þótt þeir væru alls ekki til þess færir, þangað til þeir hafa lagst í rúmið, og eigi risið þaðan aftur. Mjer hefir sviðið og blöskrað að sjá þetta, sjá menn, sem mundu hafa getað náð heilsu aftur með góðri meðferð, neyðast til að vinna, þangað til þrotin var öll von bata og lífs. Það verður svo lítið, sem einstaklingarnir geta gert til þess að ráða bót á þessu böli, og of fáir, sem gera það, þótt gætu. Þjóðfjelagið þarf því með löggjöf sinni að koma hjer til skjalanna og lækna þessa meinsemd svo sem unt er.

Jeg skýt því þess vegna til stjórnarinnar, hvort eigi muni rjett að athuga málið frá þessari hlið og frá miklu víðara sjónarmiði en frv. gerir ráð fyrir.

Það er iðulega talað um, að háværar raddir heimti, að þetta og þetta mál sje tekið til skoðunar, og jeg þykist oft verða þess var, að hv. þm. taka ekki lítið tillit til þessara radda. En það er nauðsynlegt að gera sjer glögga grein fyrir því, af hverju þær muni vera sprottnar, áður en farið er að gefa þeim gaum. En því miður virðist þessa eigi jafnan gætt. Það virðist þó eigi ófyrirsynju, þótt ætlast sje til, að athugað sje, hvort þær sjeu sprottnar af heilbrigðri skynsemi, eða fæddar í heila ófyrirleitinna og ábyrgðarlausra gasprara. Í þessu máli hefir og verið minst á háværar raddir; en jeg tek undir með hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að hjer sje ekki um raddir skynsamra og gætinna sjómanna að ræða, heldur muni einstakir menn róa undir og gera hávaðann, en jeg vil ekki á neinn hátt styðja slíkt.