19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (3080)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Það má kalla hatramlegt, hversu meðferð þessa máls hefir altaf mistekist, frá því er farið var að vinna að því nokkuð alvarlega. Jeg segi hatramlegt fyrir þá skuld, að umr. þær, sem hjer hafa farið fram, hafa að mestu leyti farið fram hjá efninu, verið meira hnútukast og hnýflar milli einstakra manna en skýringar á efninu, sem hv. þm. annars hafa haft lítinn tíma eða tækifæri til að gefa sig að. Þetta á þó sjerstaklega við ræður hv. þm. Dala. (B. J.), því að jeg get ekki annað fundið en að þær hafi verið hreinar og beinar árásir á einstaka menn og skilmingaleikur við skugga.

Nokkuð svipað mætti segja um ræður hv. frsm. meiri hl. (G. Sv.) í dag. Áður hefir hann haldið sjer við efnið. Það eina, sem komið hefir fram við umr. í dag og lýtur að því að skýra málið, er það, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefir sagt. Hann hefir bent á, að á þessu frv. eru mjög athugaverðir gallar, sem þyrfti sjálfsagt að laga, ef frv. ætti að verða að lögum. Hv. frsm. meiri hl. (G. Sv.) hefir nú svarað þessu, en mjer finst, að hann hafi farið þar ýmislega á snið við efnið og ekki viljað kannast við, að þessar athugasemdir hæstv. forsætisráðherra (J. M.) væru á rökum bygðar, en sjálfur virðist hv frsm. (G. Sv.) þess fulltrúa, að hann hafi hugsað þetta mál vendilega, og þó er jeg þess fullviss, að þekking hans á því er enn mjög takmörkuð og slitrótt.

Það voru einkum 4 atriði, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tók fram. — Hann hafði sjerstaklega mikið að athuga við 27. gr., sem bannar að veðsetja eða afhenda hlutabrjef og verðbrjef vatnsiðjufjelaga til annara en landsstjórnarinnar og Landsbankans, er svo ber undir; bannar með öðrum orðum, að þau komist á útlendar hendur. Það var alveg rjettilega tekið fram af hæstv. forsætisráðherra, að þegar gert er ráð fyrir, að slík fyrirtæki sjeu stofnuð af útlendu fje, þá kemur varla til mála að hafa þau ákvæði, er útiloka, að slík verðbrjef komist í eign útlendinga, þegar þau standa fyrir útlendu fje. Er það meðal annars fyrir þá skuld, að af því mundi leiða, að brjefin væru ekki veðhæf í öðrum bönkum en íslenskum, að þá yrðu þær lánsstofnanir að standa undir öllum lánum, er slík fjelög þurfa. En jeg hygg, að þeim yrði ofvaxið að veita slíkum fyrirtækjum það lánstraust, er þau þyrftu. Hitt er rjett og sjálfsagt, að varnaður sje boðinn á því, að innlend hlutabrjef fari út úr landinu. Það væri rjettmæt aðferð. En hjer er sá einn af göllum frv., sem sjálfsagðrar lagfæringar þarf.

Þá er 2. atriðið, um vatnastjórann ábyrgðarlausa. Jeg hefi talað um það áður, að hann er óalandi og óferjandi, eins og frv. er, og verð jeg að segja, að þar fer álit mitt fullkomlega saman við álit hæstv. forsætisráðherra (J. M.). En háttv. frsm. meiri hl. (G. Sv.) vildi ekki á það líta, að þörf væri þar nokkurra breytinga.

Af því að vitnað var í það, af hv. frsm. (G. Sv.), að ákvæði 27. gr. væru alveg sjálfsögð, af því að þau væru eins í norskum sjerleyfislögum, skal jeg leyfa mjer að benda á, að það er að eins í síðustu norsku sjerleyfislögunum, sem þetta ákvæði stendur. Það er ekki í sjerleyfislögunum frá 1909, en að eins þeim frá 1917. Er það vegna þess, að nú vilja Norðmenn stemma stigu fyrir frekara innstreymi útlends fjár. Þeir hafa að nokkru leyti haldið landinu opnu fyrir því um langt áraskeið, og hafa á síðari tímum komið á innlendar hendur mörgum þeim iðjufyrirtækjum, sem nálægt síðustu aldamótum voru reist af útlendu fje, enda hafa þeir nú öðlast þá reynslu og þekkingu á þessum efnum, sem til þarf, og útlendingarnir færðu þeim, jafnframt og þeir brutu ísinn. Þess vegna vilja þeir nú setja frekari virkjun útlendinga stólinn fyrir dyrnar.

Þá er 3. atriðið, um eignarrjettinn. Því var haldið fram af hv. frsm. (G. Sv.), að ekki þyrfti að kveða ljósar á um hann en gert er í frv. Er það að vísu satt, að hann er búinn að gefa fyrir sitt leyti skýringu á þeim ákvæðum, sem þar eru, og koma í stað eignarrjettarákvæðanna, skýringu, sem að vísu virðist taka af vafa um skoðun hans, en ákvæði frv. eru jafnófullnægjandi fyrir því. Auðvitað skýrir hann svo heimildir til vatns, að þar hljóti að vera átt við eignarrjett eða leigurjett, og get jeg verið honum þakklátur fyrir þá skýringu, því að hún sýnir, að hann er mjer í raun og veru sammála um, að eignarrjettur einstaks manns á vatni hafi verið til, sje til og eigi að vera til.

En jeg verð að benda háttv. frsm. á það, að kenningar hans um leigurjett á vatni standast ekki eftir 36. gr. þessa frv., og mun honum þar hafa skotist, er hann hjelt því fram hjer í hv. deild í gær, að veita mætti sjerleyfi þeim, er leigurjett hefði á vatni. Nefnd grein gerir ráð fyrir kauplausri afhendingu til ríkisins á vatnsfallinu við sjerleyfisslit, og veit hver maður, að enginn getur afhent öðrum til eignar það, sem honum hefir verið ljeð, og vissulega getur þessi gloppa í frv. ekki dulist hv. frsm. (G. Sv.), sem sjálfur er lögfræðingur. Jeg verð því að álíta, að athugasemd hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hjer um sje fullkomlega rjett og hana beri að taka til greina.

Háttv. frsm. (G. Sv.) neitar, að jeg hefði haft eignarrjettarákvæðið í sjerleyfislagafrv. mínu. Það stendur þó í 1. gr. þess frv. ljóslega fram tekið, að eigandi einn geti virkjað það, sem tilskilið er, án sjerleyfis. Í síðari gr. frv. var óþarft að taka fram um þessi eignarumráð, af því að það leiðir af ákvæðum 1. gr., að eignarumráð þarf til að geta virkjað eftir sjerleyfi. En á það má líka benda, að tilætlun mín og annara í milliþinganefndinni var, að fyrst gengju fram vatnsrjettindalögin, en síðar, og á grundvelli þeirra, sjerleyfislög, sem eigi þurftu að taka nánar fram um vatnsrjettinn, er hann var ákveðinn fyrirfram. Alt öðru máli gegnir nú, þegar hafa á endaskifti á aðferðinni og setja sjerleyfislög á undan vatnalögum.

Þá var það ein athugasemd hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að hann taldi ákvæðið um tveggja þinga samþykki ekki heppilegt, eða jafnvel ekki löglegt. Virtist hann líta svo á, að ókunnugleiki minn á lögum væri orsök þess, að jeg hefði tekið það í mitt frv., en það svo þaðan slæðst í þetta frv. Jeg skal fúslega játa það, að mig brestur þá lögfræðilegu þekkingu, sem þörf er á, er dæma skal um slík atriði. En ákvæðið bar jeg undir þrjá lögfræðinga, og virtust þeir ekki sjá neitt ólöglegt í því. (B. J.: Hverjir voru þeir?). Það skiftir engu, en það skal fram tekið, að ekki spurði jeg um þetta þann lögfræðing, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) telur mig hafa notað. (G. Sv.: Hver er sá?). En hjer liggur annar fiskur undir steini. Hv. undirnefnd, og líklega hv. framsm. (G. Sv.), hefir nefnilega tekið fram í þessu frv. að með sjerleyfi skuli af þinginu farið eins og lagafrv., og er það vitanlega rjett, eins og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði, að frv., önnur en stjórnarskrárfrv., eru eigi borin undir samþykki tveggja þinga. Það eru því vanhugsuð ákvæði þessa frv., um meðferð sjerleyfis, sem valda því, að tveggja þinga samþykki rekur sig á lögin, en jeg hafði aldrei gert ráð fyrir sjerleyfi í frv.formi.

Þetta, ásamt því, sem jeg hefi áður tekið fram, sýnir, að býsna margt er athugavert við frv., og síst til þess að mæla með því, að það verði að lögum í þeim búningi, sem það nú hefir.

Háttv. frsm. (G. Sv.) gerði, eins og vitanlegt var, lítið úr þeim aðfinningum, er jeg kom með, út af frv., við fyrri hluta þessarar umr. Jeg benti á meðal annars, að frv. yrði sennilega beint misskilið, þar sem felt er úr ákvæði meiri og minni hl. milliþinganefndar um endurhvarf til ríkisins að loknum sjerleyfistímanum á mannvirkjum og orkuveri, því að afhending sú, sem gert er ráð fyrir í 36. gr., er í raun og veru ekki annað en innlausnarrjettur fyrir ríkið. Að vísu er ákveðið svo í 36. gr., að vatnið sjálft og landsspildur, sem nauðsynlegar eru fyrir orkuverið, skuli afhenda kauplaust, en það er eins og frsm. (G. Sv.) hafi ekki munað eftir því eða vitað það, að sjálfar aflstöðvarnar eru oftast verðmesti hluti orkuversins og margfaldar að verði við vatn og lóðir, að minsta kosti eftir verðlagi þeirra hjer. Alt þetta verðmesta á ríkið að kaupa eftir 36. grein, og er þetta því miklu líkara lausn en endurhvarfi. Verði hins vegar orkuverið ekki keypt, þá verður það eiganda að litlu liði, því að slík mannvirki verða eigi með góðu móti færð úr stað.

Yfirleitt verð jeg að álíta frv. þetta mjög illa fallið til þess að verða að lögum, og í það vantar mjög margt, sem ákveða þarf um, þótt hins vegar sje ítarleg ákvæði um ýms minni háttar atriði. Þannig vantar alveg, eins og jeg áður hefi bent á, ákvæði um skyldur sjerleyfishafa til að sjá verkalýð sínum fyrir bókakosti og andlegum nautnarmeðulin, sem og skólahaldi fyrir börn verkamanna. Enn fremur vantar öll ákvæði um heilbrigðisráðstafanir og skyldur sjerleyfishafa þeirra vegna, og þá ekki síst ákvæðin um kaupgjald verkamanna og varnir gegn misbeitingu valds vinnuveitanda og hlunnindi verkalýðnum til handa, einmitt þau ákvæðin, sem Norðmenn hafa lagt einna mesta áherslu á, og vitanlega með þá hættu fyrir augum, að verkamannadeilur og verkföll, með öllum þeirra illu afleiðingum, eiga oft upptök í þessum iðjuverum, einkum þar, sem illa eru trygð rjettindi verkamanna.

Jeg skal nú víkja nokkrum orðum að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem mjer til mikillar ánægju tók í strenginn, bæði djarflega og viturlega. Það er alveg rjett hjá honum, að þessu máli má ekki flaustra af. Hann tók á ljósari hátt af skarið um það en nokkur annar, hversu þýðingarmikið undirstöðuatriði eignarrjettarspurningin væri, og sýndi hann ljóslega, að það er meira en formfræðilegt atriði, eins og oft hefir heyrst hjer, sem fossanefndin klofnaði um. Hann skildi bersýnilega, það, sem jeg svo þráfaldlega hefi sýnt fram á, að ekkert „effektivt“ er hægt að gera í málinu fyr en eignarrjettarspurningin er útkljáð.

Að vísu held jeg því fram, að þetta sje útkljáð fyrir löngu, með eldri og nýrri lagasetningu, en úr því að þeim glundroða hefir verið komið á málið, sem meiri hl. fossanefndar vakti síðastliðinn vetur, þá verður að hreinsa til áður en hægt sje að leiða málið til lykta.

Allir vita, að glundroðinn er fyrst og fremst að kenna háttv. þm. Dala. (B. J.). (B. J.: Nei. Það er hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að kenna). Það var hv. þm. Dala. (B. J.), sem fyrst kom fram með þá kenningu, að ríkið ætti alla vatnsorku, jafnt á löndum einstakra manna sem annarsstaðar, og að vatnið gæti eigi verið eignarumráðum undirorpið, af því að það kæmi úr skýjunum. En það er einmitt þessi nýstárlega kenning, sem öllum mistökum hefir valdið og tafið þetta mál og spjallað. Hún hefir kostað landið marga tugi þúsunda, og hún hefir tafið alla framkvæmd málsins, og nú loks komið öllu í strand. Hv. þm. Dala. (B. J.) er það blindsker, sem þessu máli hefir jafnan staðið mest hættan af. En þótt honum hafi nú tekist að koma öllu þessu í ógöngur með villukenningu sinni, þá er langt frá, að hann hafi altaf verið þeirrar skoðunar, að ríkið ætti fossana, því að áður hefir hann talið þá eign landeiganda, og yfir höfuð hefir hann verið ótrúlega hvarflandi í þessu máli og reikull. Skal jeg leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp nokkur orð til sönnunar því, og standa þau í ritgerð eftir hv. þm. Dala. (B. J.) í nefndaráliti meiri hl. fossanefndar. Hann segir: „Eignarrjett á rennandi vatni, eftir fossalögunum, hafa því:

a. Þeir, sem keypt hafa þjóðjarðir eftir 1907, án þess að fossar (= fallandi, orkugæft vatn) væru undan skildir.

b. Þeir, sem síðar hafa af þeim fengið með nauðungarráðstöfun að manni lifanda, með hjónabandi, með arfi eða fyrir frjálsa afhending.“

Þarna er þá mögulegt, eftir hans skilningi, að eiga rennandi vatn, en að eins þegar það er keypt af ríkinu, eða fengið hjá þeim, sem keypti það af ríkinu. Eftir hans skilningi eru þá allar aðrar heimildir ónýtar.

Samræmi hver þessar kenningar hv. þm. (B. J.) við lög og rjettarvenjur sem vill. Jeg leiði hest minn frá því.

Það má ekki gleymast, að hv. þm. Dala. (B. J.), og fylgifiskar hans, hafa stórspjallað alt þetta mál. Þess vegna er óhætt að skrifa á reikning háttv. þm. Dala. (B. J.) fullan þriðjung alls þess kostnaðar, sem af fossanefndinni hefir stafað, og öll mistökin að auki. (B. J.: Kemur þetta ekki í „Tímanum“ bráðum). Þá grýlu, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) heldur mikið á lofti og reynir að hræða oss með, að vötnin, sem seld hafi verið, verði ríkið að kaupa aftur fyrir afarverð, um hana get eg verið fáorður, því þetta eru einskærar öfgar hjá hv. þm. (B. J.). Vatnsrjettindi þau, sem ríkið á í sínum löndum, eru svo mikil, að það getur ekki hagnýtt nema lítinn hluta þeirra um langt skeið, en hins vegar má með sjerleyfislögum stöðva alt fossabrask; því að öllum gefur að skilja, að vatnsaflið verður eigi keypt, þegar ekki fæst leyfi til að hagnýta það. Og þótt enginn árangur verði annar af starfi þessa þings í vatnamálunum en að almenningur fái að vita, hvað uppi er á teningi um sjerleyfislagasetningu, þá er það nægilegt til þess að lama alt fossabrask. Það er að vísu svo ástatt að háttv. þm Dala. (B. J.) og jeg höfum sjaldan verið samferða í þessu máli, en þó eigum við sammerkt um sum atriði þess, og vissulega höfum við hugsað það öllu meira en flestir, ef ekki allir, aðrir, sem í þingnefndinni voru. En hvorugan okkar hefir undirnefndin tekið til ráðfærslu um frv. Þess vegna eru líka gloppurnar á því hver annari stærri, og svo er þessu dembt inn í þingið, án þess að við — eða jeg að minsta kosti — höfum fengið færi á að lesa það yfir í næði.

Jeg verð að líta á það eins og velvildarvott af hv. þm. Dala. (B. J.), að hann vill gefa mjer titilinn „bjargvættur landsins“, titil, sem hann með vatnsránskenningunni hafði eflaust hugsað sjer að vinna sjer inn, en hefir nú — já, líklega því miður — litlar líkar til að hreppa. En jeg vil samt eigi þiggja titilinn af honum, en láta hann heldur um sinn eiga vonina í þessu tvennu, sigri vatnsránskenningarinnar og titlinum. Hver veit, hvað honum kann að hepnast? — En mistakist fyrir honum vatnsránið, þá ber jeg kvíðboga fyrir, að titillinn týnist, og verði á öllu haft endaskifti, svo að hv. þm. Dala. (B. J.) verði talinn „skaðvættur landsins.“