31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í C-deild Alþingistíðinda. (3106)

72. mál, hundaskattur

Magnús Pjetursson:

Það skiftir líklega í tvö horn, þegar við hv. 2 þm. Árn. (E. A.) förum að andmæla háttv. fjárhagsnefnd.

Jeg tel það alveg rangt, að frv. þetta kom fram, og tel því hv. fjárh.n. á rjettri leið, þar sem hún vill lækka skattinn. En það er hvorki í núgildandi lögum nje í frv. gerð nægileg grein fyrir því, hvað sjeu óþarfahundar. — Að vísu eru nú taldir óþarfahundar hjá öllum, sem ekki búa á einu hundraði úr jörðu eða meira. En vel mætti benda á, að menn geta átt þarfa hunda, sem ekki uppfylla þessi skilyrði. Get jeg t. d. nefnt rottuhundana, sem eru mjög þörf dýr; ekki síst yrði það hjer í Reykjavík. Varna þeir eyðileggingu á ýmsum munum manna og auka þrifnað í bæjunum, með því að eyða rottunum. Ættu þeir að verða enn fleiri hjer, og óskattaðir, nema ef menn komast að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að leggja skatt á þá, sem stuðla að auknum þrifnaði.

Það sem mjer virðist aðallega vaka fyrir hv. flm. (E. Árna. og J. B.) þessa frv., er, að það eigi að vera nokkurskonar heilbrigðisráðstöfun. Jeg verð nú að segja það, að eigi að gera eitthvað í þá átt, beri miklu fremur að ganga að því að fækka hundunum í sveitunum heldur en í kaupstöðunum; því að það er áreiðanlega gætt meiri þrifnaðar um hunda í kaupstöðum heldur en í sveitum, sem eðlilegt er.

Þá tók hv. flm. (E. Árna.) fram, að þetta væri „luxus“-skattur, en ef svo væri, þá finst mjer, að hann ætti að ná víðar. Það er sem sje engin vissa fyrir því, að hundar í kaupstöðum sjeu meiri „luxus“-hundar heldur en hundar á sumum hverjum sveitabæjum. — Hundar geta sem sje verið til mikils gagns, þótt þeir sjeu ekki beinlínis notaðir við fjárgæslu; þeir geta verið ágætir til þess að rata, og það hefir ekki ósjaldan komið fyrir, að þeir hafi bjargað lífi manna, og hver mundi telja það ónauðsynlegt? — Nú hefir háttv. fjárhagsnefnd lækkað 100 kr. skattinn niður í 50 kr. Byggir hún það meðal annars á því, að 50 kr. nú sjeu ekki meira en 10 kr. 1890. En hvernig stendur þá á því, að hún hefir eigi verið sjálfri sjer samkvæm og hækkað 2 kr. skattinn fimmfalt? Annars getur það vel verið rjett hjá hv. fjárhagsnefnd, að peningar hafi fallið fimmfalt síðan 1890, og gleður það mig að heyra, að hv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu, því það getur verið, að jeg þurfi að minna hann á það síðar, er við tölum um verðfall peninga undir umr. um annað mál.

En ef hv. þm. vilja nú gera eitthvað til þess að fækka þessum síspangólandi hundum, sem halda vöku fyrir hv. 2. þm. Árn. (E. A.) um nætur, þá er það viðkunnanlegast að setja sveitar- og bæjarstjórnum heimildarlög til að leggja á slíka hunda eftir þörfum, og svo framarlega, sem þetta frv. fer til 3. umr., mun jeg gera brtt. í þessa átt. Mundi jeg að vísu hafa eitthvert hámark á því, hvað skatturinn mætti fara hæst, en í eðli sínu eiga sveitar- og bæjarstjórnir að ákveða, hverjir hundar skuli vera skattskyldir og hverjir ekki. Þeim stendur það mál nær, en Alþingi, enda nýtur ríkissjóður ekki skattsins.