01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (3142)

72. mál, hundaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Við höfum leyft okkur, tveir þm„ að flytja brtt. um það, að hundaskatturinn skuli ákveðinn 3 kr., í stað 2 kr. En eins og kunnugt er, fór frv. hjeðan svo, að skatturinn var ákveðinn 4 krónur. Hv. Nd. hefir ekki þóknast að samþ. þetta ákvæði og fært alt aftur í sama horfið. En við ímyndum okkur, að ef skatturinn hefði í öndverðu verið ákveðinn 3 kr. hjer í deildinni, mundi það hafa gengið í gegn í Nd. Annars finst mjer það einkennilegt, að hv. Nd. skuli hafa þóst fær um að samþ. það, að setja hærri skattinn upp í 50 kr., en vilja þó ekki hækka þann lægri. Mjer finst jafnvel kenna í þessu nokkurs smásálarskapar. Það er sem sje alveg víst, að nú síeykst kostnaður hins opinbera við hundahald, t. d. hreinsunina, en hana þarf að rækja sem best. Virðist því eðlilegast að láta hundahaldið sjálft bera kostnaðinn, en nú er hann vanalega tekinn úr sýslusjóði, eða með öðrum orðum úr hreppssjóðum, en þá þyrftu tekjur þeirra að aukast að sama skapi, sem kostnaðurinn færist í vöxt.

Að vísu getur þetta ekki talist neitt stórmál, en þó er sjálfsagt að ganga vel frá því. En að öðru leyti virðist mjer ekki vert að samþ. frv. ef hækkunin er ekki samþ. líka. Það er sama sem engin ástæða til þess að misbjóða virðingu deildarinnar, með því að teygja sig og sveigja í hverju smáatriði eftir dutlungum Nd.