16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í C-deild Alþingistíðinda. (3274)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Frsm. (Gísli Sveinsson1):

Jeg gat þess að eins í framsöguræðu þeirri, sem jeg hafði við umr. um síðustu till., að umræðurnar yrðu sennilega meiri um þessa till., sem er lengri og fjallar um efni, sem er ekki eins líklegt, að allir sjeu sammála um. Þessi till. er fram komin vegna þess skoðanamunar, sem fram kom í fossanefndinni um eignarrjettinn á fossunum. Hún byggir á því áliti meiri hl. nefndarinnar, að eignarrjetturinn sje ríkisins megin, og vill fá úrskurð dómstóla landsins á því, hvort sá skilningur sje ekki rjettur, eða m. ö. o. hver eigi vatnsorkuna í landinu. Eins og sjá má í áliti samvinnunefndar á þgskj. 492, áleit hún ekki rjett að gera út um deiluatriðið hjer í þinginu. Hún áleit, að þm. mundu alment ekki telja sig færa um að dæma um það mál, og vill heldur, að dómstólarnir úrskurði þar í eitt skifti fyrir öll, þannig, að ekki verði vefengt síðar. Það var líka álit nefndarinnar, að landsmenn mundu una illa úrskurði þingsins í svona máli; hinn pólitíski úrskurður þess yrði aldrei vinsæll, og þess vegna ættu mál sem þessi að fara fyrir dómstólana.

Hv. minni hl. leggur þó til, að hin leiðin sje farin, sem sje að löggjafarvaldið úrskurði, hvoru megin rjetturinn sje. En eins og nál. og till. bera með sjer, er tilætlunin hjer að eins sú, að úrskurður sje fenginn á einu sjerstöku vatnsfalli. En það, sem úrskurðast í einu tilfelli, yrði þá að gilda um önnur slík. Þetta vatnsfall er Sogið. Í byrjun þings kom fram till. frá þrem hv. þm. um lögnám á Soginu, og var þá talað um, sem áhuga margra borgara þessa bæjar, að ná í Sogið til einkaafnota fyrir Reykjavík, og fanst líka samvinnunefnd það ákjósanlegast, ef landið tæki í sínar hendur nokkra vatnsorku, að þá yrði það vatnsorkan í Soginu.

Annars býst jeg nú við athugasemd frá hæstv. forsætisráðh. (J. M.) við þessa till., ekki síður en hina, sem síðast var hjer á dagskrá, og mun hann vilja fá hana fram í lagaformi. En nefndin taldi nú þetta nægilegt og í alla staði rjett að farið, að koma hjer fram með þingsál.till., þar sem líka tími þingsins er svo naumur orðinn, að ólíklegt er, að lagafrv. næðu fram að ganga hjer eftir, þar sem, eins og kunnugt er samkvæmt þingsköpum, miklu lengri tíma þarf til að koma lagafrv. gegnum þingið en þingsál.till. En nefndin áleit undir öllum kringumstæðum rjett og sjálfsagt að flýta þessu máli. Því hún hyggur, að hvorki almenningur eða stjórn vilji halda áfram í þeirri rjettaróvissu, sem er um þetta mál, þó að minni hl. nefndarinnar segi, að hjer sje ekki um neina óvissu að ræða, sem vitanlega er alveg sagt út í loftið. Nefndin vill gera sitt til, að sem fyrst verði komist út úr óvissunni, og telur þetta sjálfsögðustu leiðina í þessu máli, sem bæði er hagsmunamál og orðið pólitískt mál, en þegar svo er komið, er það um leið orðið viðkvæmt mál.

Till. á þgskj. 795 er skift í 3 liði, og er 1. liður um, að til þess, að dómstólaúrskurður fáist um, hver eigi vatnsorku landsins, slái landsstjórnin eign sinni á vatnsorku í Soginu án þess bætur komi fyrir. Það kemur fram, að þetta skuli gert til reynslu. En auk þessarar leiðar hafði nefndin hugsað sjer tvær aðrar leiðir, sem ekki eru teknar fram í till., en mætti fara.

Fyrri leiðin er sú, að samkomulag náist milli þeirra, sem hlut eiga að máli, landsstjórnarinnar annars vegar og eigenda Sogsins hins vegar, svo maður haldi sjer við það vatnsfallið; m. ö. o. að báðir aðiljar komi sjer saman um það í bróðerni að láta dómstólana skera úr.

Síðari leiðin er sú, að landsstjórnin fari sjálf í mál til þess að fá viðurkendan sinn rjett, sem talinn er að sje.

Þriðja og víðtækasta leiðin er þessi, sem hjer er falin, að landið lýsi vatnsorkuna í Soginu sína eign, án þess nokkru þurfi að bæta. Og nefndin gengur út frá því, að úr þessu hljóti að verða málssókn.

Nokkur vafi virðist leika á því hjá sumum í nefndinni, hvort tala ætti um vatn eða vatnsorku í till. Og í sambandi við það má benda á byrjun á grein í „Morgunblaðinu“, eftir Jón Þorláksson verkfræðing. Þar telur hann, að ekki sje rjett að tala um vatnsorku, heldur vatn. En þetta er ekki rjett, og getur valdið ruglingi, þegar útkljáð verður um eignarrjettinn. Því, eins og jeg gat um þegar sjerleyfislagafrv. var til umræðu, þá kom fram, að niðurstaðan þyrfti ekki að sjálfsögðu að verða sú, að annaðhvort ríkið eða einstaklingarnir ættu alt vatn. Sú lausn er til á málinu, að báðir aðiljar gætu átt það. Dómstólarnir gætu komist að þeirri niðurstöðu, að ekki fengist ótvíræður rjettur annarshvors, heldur beggja, og spurningin yrði þá aðallega um það, hvor ætti meiri rjett á vatninu. En vatnsorka er alls ekki alstaðar þar, sem vatn rennur. Vatnsorka myndast að eins þar, sem um er að ræða fall og vatn. Og að sjálfsögðu verður aðallega um þessa „tegund“ vatns að ræða. Dómstólarnir geta bæði komist að þeirri niðurstöðu, að öll vatnsorka sje eign ríkisins, eða svo getur líka farið, að úrskurður falli þannig, að eignarrjetturinn komi báðum aðiljum til góða, eða „partielt“. En komist dómstólarnir að því, að aðrir eigi einhvern hluta en ríkið, þá getur ríkið ekki tekið þann hluta bótalaust. Jeg tel, að órannsökuðu máli, vafasamt, hvernig úrskurður fellur. En einstaklingarnir hafa alls ekki selt vatnið, eða landið undir vatninu, heldur fossana, af því að þeir hafa talið sjer þá sem eign, og fossarnir einir eru taldir hæfir til virkjunar, eða m. ö. o. vatnsorkan.

Jeg hafði ætlað mjer að spyrja hæstv. landsstjórn, og þá sjerstaklega hæstv. forsætisráðherra (J. M.), sem hefir reynst svo lítillátur, að vera viðstaddur umr., hvort hann teldi þessa leið, sem lögð er til í till., rjettustu leiðina, eða aðrahvora hinna tveggja, sem jeg áður benti á. Nefndinni væri nefnilega ekkert ljúfara en að gera till. þessa svo úr garði, að bæði sú stjórn, sem nú situr, og sú næsta geti verið ánægðar með hana, og ekki þurfi að eyða fleiri orðum síðar við að skýra hana.

2. liður till. gerir ráð fyrir, að þótt dómur falli þannig, að einstaklingar eigi vatnsorku þá, sem þeir hafa talið sjer, þá megi eigi að síður landsstjórnin lögnema Sogið gegn bótum. Við þennan lið hefir líka komið fram athugasemd í áminstri grein í „Morgunblaðinu“, sem mjer er alveg óskiljanleg. Þar er þetta talið vafasamt atriði, og þó eru þegar til í landinu lög, sem heimila það ótvírætt, að lögnema megi það, sem horfir til almenningsheilla, að ríkið fái eignarráð yfir, auk þess sem fossalögin frá 1907 heimila það tvímælalaust, að taka megi fossana eignarnámi. Þetta er þess vegna alveg óskiljanlegt í blaðinu, því þessi liður er alveg í samræmi við það, sem áður er fram komið.

Í þriðja lagi segir till., að landsstjórnin skuli láta halda áfram mælingum þeim og rannsóknum um vatnsorku o. fl. í Soginu, sem byrjað hefir verið á. Jeg skal líka geta þess, að frá meiri hl. milliþinganefndar í fossamálinu kom till. um, að þessari rannsókn væri haldið áfram.

Hitt þarf jeg ekki að taka fram, að till. endar á því sjálfsagða ákvæði, að stjórnin hafi heimild til að verja fje til þessara rannsókna. Og jeg býst ekki við, að hæstv. forsætisráðherra hafi neitt við það að athuga. En aðalatriði þessa máls er það, að komast að sem gleggstri niðurstöðu um það, hvaða leið skuli farin, og því hefir till. verið orðuð þannig, að við megi hlíta.

Jeg þykist vita, að einhverjir vilji taka til máls, og skal því láta hjer staðar numið. En eins og jeg tók áður fram, væri mjer sjerstaklega kært að fá svar frá hæstv. forsætisráðherra.