04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

33. mál, tollalög

Frsm. (Einar Árnason):

Þetta frv. er nú komið aftur hingað frá Ed, og hafa þar verið gerðar á því ýmsar breytingar. Helstu breytingarnar eru þær, að bætt er inn í frv. þremur víntegundum, sem eru tollaðar yfir 2 kr. lítrinn. Einnig er lagður 2 kr. tollur á vínanda, sem ætlaður er til eldsneytis (brensluspritt), og enn fremur að hármeðul með vínanda sjeu tolluð með 4 kr. lítrinn.

Fjárhagsnefnd hefir athugað þessar breytingar og getur eftir atvikum fallist á þær, þó ekki sje hún vel ánægð með þær. Sjerstaklega telur hún óheppilegt að setja þannig lagaðan toll á hármeðul, því vafi leikur á því, að hann gefi nokkrar teljandi tekjur, vegna þess, að mjög erfitt verður að innheimta hann. Samt telur fjárhagsnefnd þetta atriði svo smávægilegt, að hún vill ekki gera það að ágreiningi, og með því verða þess valdandi, að frv. hrekist lengi milli deilda, þar sem líka ríkissjóður getur tapað stórfje á því að málið dragist á langinn.

Í þessari hv. deild hafa komið fram brtt við þetta frv., og að sjálfsögðu leggur nefndin á móti þeim. Í brtt. á þgskj. 227 er það lagt til, að í stað 4 kr. tolls af ilmvötnum og hárlyfjum komi 2 kr. tollur. í sjálfu sjer skiftir þetta ekki miklu máli, en þó finst nefndinni ekki taka því að reka málið aftur og fram á milli deildanna af þessum ástæðum.

Aftur á móti er farið fram á það í brtt. á þgskj. 236 að lækka tollinn á tóbaki úr 4 kr. niður í 3,50 kr. Þessi breyting fer í mjög svipaða átt og till., sem var hjer til umr. við 2. umr. málsins og þá var feld með miklum atkvæðamun. Finst nefndinni ekki tímarnir svo breyttir síðan þá, að ástæða sje til þess að taka mark á þessari brtt., og leggur því til, að hún verði feld.

Í öðrum lið brtt. á þgskj. 236 er gengið inn á nýja braut, þar sem farið er fram á að tolla matvæli, svo sem rúsínur, sveskjur og ávexti. Nefndin getur alls ekki felt sig við þessa breytingu, enda geta menn trauðla sagt hvar staðar á að nema, ef farið er inn á þá braut, að tolla matvæli. Gæti jeg bent á ýmsar matvörutegundir, sem jafnrjettlátt væri að tolla og þær vörutegundir, sem í brtt. eru tilnefndar. En þó nú þessi breyting yrði gerð á frv. hjer, þá er líklegast, að annaðhvort yrði bætt við þessar nauðsynjavörur í Ed. ýmsum öðrum, eða þá að þetta yrði alt felt úr frv. aftur. Er þá málið komið á alt of mikla hrakninga, og leggur því fjárhagsnefnd eindregið á móti þessum breytingum.