16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í C-deild Alþingistíðinda. (3281)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Frsm. (Gísli Sveinsson1):

Svo virðist, sem hv. þm. hafi nú sagt það, sem þeir vilja sagt hafa í þessu máli, og ætla jeg því að slá botninn í þessar umr.

Vil jeg byrja á þeim hv. þm., sem síðast talaði (J. B.). Þessi hv. þm. (J. B.) komst svo að orði, að ef þessi till. væri samþ., væri hæpið, hvort yfirráð yfir Soginu kæmust nokkurn tíma í hendur ríkinu í nálægri framtíð, þar sem hún mundi tefja fyrir framkvæmd í þá átt, að Sogið yrði virkjað. Hann hefir líklega ekki tekið eftir því, hv. þm. (J. B.), að auk þess sem 1. liður till. segir svo, að það eigi að taka Sogsfossana, þá gerir 2. liður hennar ráð fyrir, að Sogsfossarnir verði teknir til virkjunar á sama hátt og till. hv. þm. (J. B.) gerir ráð fyrir. Spurningin verður því að eins þessi, hvort væntanleg málssókn geti tafið svo mikið fyrir þessari framkvæmd, að henni seinkaði til muna. Jeg fyrir mitt leyti held það ekki, því þótt hægt væri að taka Sogsfossana lögnámi gegn bótum, þá þarf svo mikinn undirbúning og rannsókn áður en virkjunin hefst, að ekki mundi því meira en lokið er málið væri útkljáð. Tímaspursmálið verður því hverfandi. Það má sem sje, þegar till. hefir verið samþ., fara að undirbúa öll þau virki, er þörf er á, þótt málið verði þá ekki útkljáð, því þótt dómstólunum sýndist svo, að einstaklingarnir ættu fossana, þá má þó altaf taka þá lögnámi, og gerir 2. liður till. ráð fyrir því, að það verði gert.

Hv. 1. þm. Arn. (S. S.) vildi halda því fram, að þeir einir fylgdu þessari till., sem álitu, að ríkið ætti vatnið. — Þetta er helber misskilningur. Hann ætti að vita, að það kemur bæði fram í nefndarálitinu, og svo kom það líka fram í framsöguræðu minni, að þetta er einmitt gert til þess að losna við að úrskurða nokkuð um þetta atriði, sem við hjer á þingi erum ekki færir til að úrskurða til fullnustu á þessu stigi málsins. Við teljum, að til sje að eins eitt vald í landinu, sem getur úrskurðað um svo algerlega „theoretiskt“ og formlegt atriði, og það vald eru dómstólarnir. Því er svarað, að þingið geti alls ekki skipað stjórninni að framkvæma þessa till., en ef löggjafarvaldið getur ekki skipað stjórninni þetta, getur það ekki heldur tekið í sínar hendur að úrskurða neitt í þessu máli.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) tók til máls og lýsti því yfir, að hann væri kominn að þeirri niðurstöðu, að landeigendur ættu rjettinn til vatnsins. Það er gott fyrir hann sjálfan, að hann er kominn að ákveðinni niðurstöðu, en hitt er og víst, að niðurstaða hans gildir ekki meira en annara hv. þm., því að jeg býst ekki við, að hann vilji halda því fram, að hann hafi sjerstaklega rannsakað þetta mál.

Þá hefir það komið fram, að hæstv. landsstjórn hafi ekki fengið tækifæri til að láta í ljós skoðun sína í þessu máli; nú hefir hann gefið tækifærið, og hefir þá meiri hl. hennar lýst því yfir, að hann væri á móti þessari till. Hins vegar vænti jeg, að hún muni fá uppreisn fyrir þá hrakför, er hún fór í máli, sem nýlega lá fyrir þinginu, og ber að titla sem ótvírætt hneykslismál, enda fylgdu þá þessum hæstv. ráðherrum 3 menn, en hinir aðrir vildu ekki líta við því.