23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í C-deild Alþingistíðinda. (3366)

110. mál, sala á spildu kirkjujarðarinnar Fjósa í Laxárdalshreppi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekki lesið greinargerð þessa frv. nákvæmlega, en mjer finst það ekki sjást, að Páll kaupmaður Ólafsson hafi mist sinn rjett til spildunnar. (B. J.: Hann hefir selt sinn rjett). Hverjum? (B. J.: Guðmundi Kr. Guðmundssyni, en hann hefir selt lækni). Það er þá hjer um að ræða að fá eignarrjett í stað leigurjettar, og sje jeg þá ekki ástæðu til að sinna því máli. Ef til vill mætti hafa þann leigurjett með breyttum skilyrðum, ef svo byði við að horfa, en jeg sje enga ástæðu til að afsala eignarrjettinum frá landsins hálfu, þegar leigjandinn getur fengið eins góð skilyrði og þörf er á. Það vinst ekkert fyrir kauptúnið, hvort bletturinn er seldur eða leigður, og fyndist mjer því rjettast að vísa málinu til stjórnarinnar, og gæti hún þá breytt skilyrðunum, ef þess gerðist þörf.