23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í C-deild Alþingistíðinda. (3367)

110. mál, sala á spildu kirkjujarðarinnar Fjósa í Laxárdalshreppi

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg vildi geta þess, sem mjer láðist að taka fram áðan, að leigurjetturinn hefir farið þessa leið, sem jeg skýrði frá í framskoti mínu við ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.). Það, sem lækni gengur til með að vilja fá kaup á þessu landi, er, að hann telur sig tryggari. Honum þykir leigurjetturinn ekki fulltryggur, sem er til 50 ára, en nú munu ekki vera eftir nema 40 ár. Bletturinn getur á engan hátt orðið til nota fyrir kauptúnið eða jörðina, nema með þessu móti. Jeg er ókunnugur lögum, sem hjer að lúta; jeg veit ekki, hvort stjórnin þarf lagaheimild til að selja. Ef svo er ekki, þá þarf frv. þetta ekki fram að ganga; það mætti þá eins vel vísa því til stjórnarinnar, en gott þætti mjer að fá þessar upplýsingar. Ef heimild þarf, þá sje jeg ekki, hvað geti mælt á móti því, að hún verði veitt.