13.08.1919
Neðri deild: 34. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í C-deild Alþingistíðinda. (3397)

59. mál, bann gegn refaeldi

Frsm. (Jón Jónsson):

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að refarækt gæfi góða arðsvon í aðra hönd og mundi verða til þess að eyða refunum, því að það væru jafnvel einu ágætisskytturnar, sem við eldið fengjust. En það er ekki sagt, að refaeldismenn sjeu góðar refaskyttur. Hugsunin, sem liggur til grundvallar fyrir grenjavinslu þeirra, er ekki að útrýma refunum, heldur að veiða þá til eldis. Þar af leiðir, að þeir mundu einkum gera sjer far um að veiða yrðlinga, sem eru auðveldari viðfangs en fullorðnir refir. Eðlilegt væri, að þeir vildu viðhalda stofninum, til þess að tryggja sjer atvinnuna sem lengst, og legðu sig því ekki eftir að ná fullorðnu dýrunum, frekar en verkast vildi. Menn geta verið snjallir að ná yrðlingum, þótt þeir sjeu ekki góðar skyttur nje lagnir á að leggja að velli fullorðna refi. — Ályktun hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) er því röng.

Jeg vil benda háttv. þm. á, að fleiri en refaeldismenn hafa verið svo duglegir, að veiða 40 refi. Á Fljótsdalshjeraði var einu sinni maður, sem lagði fyrir sig refaveiðar, og komst svo langt, að hann veiddi 40 refi á einum vetri. Það er ekki sagt, að alstaðar sjeu menn, sem eru eins duglegar refaskyttur og þessi maður. En ef ýtt væri undir menn með verðlaunum, mætti gera ráð fyrir, að ýmsir legðu sig eftir refaveiðum. Það getur orðið töluverður arður í að vinna gren, þótt ekki sje til eldis. — Grenjavinslumennirnir fengju í fyrsta lagi verðlaun fyrir hvern ref, sem þeir veiddu. Þar að auki fengju þeir borgun fyrir refaskinnin. Það gæti því orðið dálítill gróðavegur að grenjavinslu, þótt hann yrði eitthvað minni en ef grenjamönnunum væri leyft refaeldi. Enn fremur yrðu skinn af yrðlingum einhvers virði.

Höfundur brjefsins, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) las upp, — sem er refaeldismaður, — kvaðst ekki last framar við refaveiðar, ef frv. yrði samþ. Þessi yfirlýsing sýnir að eins óskiljanlegan stórbokkaskap. Maðurinn getur varla sagt þetta í alvöru, heldur til að ögra mönnum með því. Refaeldi verður aldrei örugt ráð til þess að verja hjeruðin fyrir ágangi refa. Öruggasta ráðið er, að einstakir menn leggi stund á refaveiðar, til algerðrar útrýmingar refa. Annars verður grenjavinslan aldrei trygg.

Engin hálfvelgja nje kák dugir í þessu máli. Allar misfellur á framkvæmdum verður að fyrirbyggja, eftir því sem kostur er, og hvetja verður til framkvæmda. Það er það eina rjetta, sem þingið getur gert. Þá menn verður að verðlauna, sem mestan dugnað sýna. Öll miðlun er hjer ótæk. Er því ekki rjett að samþ. brtt. hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og fjelaga hans.