01.09.1919
Neðri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í C-deild Alþingistíðinda. (3495)

116. mál, póstferðir á Vesturlandi

Frsm. (Einar Árnason):

Það voru aðallega tvö atriði hjá hv. þm. Dala. (B. J.), sem jeg vildi minnast á. Hann var að finna að því, að nefndin hefði snúið sjer til póstmeistara með upplýsingar í þessu máli, en ekki til sín. Fyrir nefndinni lágu mörg skjöl um þetta mál, sem hún þurfti að athuga, og auk þess, sem nefndin varð að vinna úr þeim, fjekk hún kunnuga menn á þessu sviði sjer til aðstoðar, til að athuga þetta mál, eins og hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) tók fram. Sú niðurstaða, sem nefndin hefir komist að, er því bygð á umsögn og áliti fróðra manna í þessu efni. Jeg verð þess vegna að halda því fram, að nefndin hafi snúið sjer til rjettra aðilja um upplýsingar í þessu máli. Þá sagði hv. þm. Dala. (B. J.), að þessi breyting, sem gerð hefir verið, væri að eins til að skemma samgöngurnar í Dalasýslu, en enginn sparnaður við hana. Jeg er honum samdóma í því, að þessi 3 þús. kr. sparnaður á ekki rjett á sjer, ef hann gæti komið með sannanir fyrir því, að póstsamgöngurnar yrðu við það óviðunandi. En hv. þm. (B. J.) hefir enn engin rök leitt að því, að svo sje. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin hefir fengið um málið, breytast póstsamböndin í Dala- og Barðastrandarsýslum mjög lítið við þetta nýja fyrirkomulag. Það eina er, að ef til vill einstöku bæir geta ekki svarað brjefum með sama pósti. En það, fyrir sig, er engin ástæða gegn breytingunni.

Þá var hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), sem gerði fyrirspurn um, hve kostnaðaraukinn mundi nema miklu við það, að Hesteyrarpósturinn væri látinn bíða eftir Aðalvíkurpóstinum. Í raun og veru er ómögulegt fyrir nefndina að svara því, vegna þess, að enginn hefir fengist til að taka að sjer ferðirnar, með því að bíða á Hesteyri, og enginn veit, hvað mikið þarf að bjóða manni til að gera það.

Vitanlega væri það hentugt og þægilegt, að fá póstinn heim á hvern bæ og láta hann bíða á meðan brjefunum er svarað, og það væri svo sem hægt að gera, ef nægir væru peningarnir til þess. En slíkar firrur býst jeg ekki við að komi nokkurn tíma til mála. Jeg held ekki, að í þessu máli hafi komið neitt það fram, sem geri það að verkum, að hægt sje að samþ. þingsál. — Og mun atkvgr. sýna hugi þm. í málinu.