07.07.1919
Efri deild: 3. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í C-deild Alþingistíðinda. (3574)

6. mál, stofnun og slit hjúskapar

Forsætisráðherra (J. M.):

Þetta frv., og tvö önnur, eru fram borin samkvæmt ósk frá Alþingi. Alþingi 1917 skoraði á stjórnina „að undirbúa og leggja fyrir Alþingi, svo fljótt sem unt er, frv. til laga um endurbætur á gildandi löggjöf um stofnun og slit hjúskapar og afstöðu foreldra til barna.“ Mörg undanfarandi ár hefir verið unnið að þessari löggjöf á Norðurlöndum, og verið sett svipuð lög og lagafrv. fram borin um þessi efni í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Frv. þau, sem stjórnin nú ber fram, eru samin í lögfræðisdeild háskólans, þannig, að prófessor Lárus H. Bjarnason hefir haft aðalstarfið, en hinir lagakennararnir verið með í verki; eru þau sniðin í öllum aðalatriðum eftir samskonar löggjöf á Norðurlöndum. Annars læt jeg nægja að vísa til athugasemda próf. Lárusar H. Bjarnasonar við frv., sem eru mjög ítarlegar. Jeg geri ekki ráð fyrir, að neitt sjerstakt atriði frv. verði deiluefni. Eitt atriði hefir að vísu valdið miklum deilum erlendis, sem sje það, hvort borgaralegt hjónaband eigi að vera lögskipað, hvort heldur kirkjuleg vígsla færi á eftir eða ekki. í frv. er ætlast til, að menn geti valið á milli kirkjulegs og borgaralegs hjónabands. Jeg býst ekki við, að þetta ákvæði mæti hjer neinum mótmælum. Þetta hefir nú um nokkurn tíma verið regla hjer á landi, þótt þeir, sem teljast til þjóðkirkjunnar, hafi að vísu orðið að fara nokkrar krókaleiðir til að fá borgaralegt hjónaband.

Stjórnin hefir lagt frv. fyrir Alþingi eins og það barst frá háskólanum, enda hefir stjórnin fallist á það að mestöllu leyti. Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar. Jeg geri ráð fyrir, að frv. verði, að umr. lokinni, vísað til hv. allsherjarnefndar, og mun jeg láta nefndinni í tje allar þær upplýsingar, er hún kynni að æskja eftir.