16.08.1919
Neðri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í C-deild Alþingistíðinda. (3596)

15. mál, einkaleyfi

Björn Kristjánsson:

Það þarf tæpast að lýsa því, að hjer á landi eru til hæfileikar til að gera uppgötvanir, og þeir mundu koma í ljós, ef eitthvað væri að þeim hlynt. En það hefir aldrei verið gert. Meiningin með einkaleyfislöggjöf er að verðlauna nýjar uppgötvanir og hvetja menn til starfa.

Í stærri löndunum eiga menn hægra með að gera uppgötvanir en í þeim minni, þó að hæfileikarnir sjeu jafnir. Menn eiga þar kost á meiri fræðslu, geta betur fylgst með síðustu uppgötvunum og fært sjer þær í nyt, og menn geta fyr komið uppgötvunum sínum á markaðinn, geta fyr notið þeirra og fengið vinnu sina og hæfileika borgaða. í þessum löndum geta menn frekar haft gagn af stuttum einkaleyfistíma en í hinum. Aðstaðan er í alla staði gerólík. Hjer verður að veita meira svigrúm til þess að menn geti haft not af þessum uppgötvunum sínum. Það má segja, að nú sjeu allar bjargir bannaðar þessum mönnum, nema að rýmkað sje um. Það er meira að segja svo, að menn verða að fara til útlanda til að smíða sýnishornið af uppfundningu sinni, og eru það ekki lítil óþægindi, því ferðin er dýr, mennirnir oftast ókunnugir, og kostar fje og fyrirhöfn að koma sjer á framfæri. Þó einhver sje hjer hagur, þá er hann útilokaður frá því, sem hverjum uppgötvara er nauðsynlegt, og það er að læra að teikna. Hann verður að láta smíða sýnishornið fyrir sig af þessum ástæðum.

Þegar á alt þetta er litið, virðist það augljóst, að 5 ára einkaleyfi er of stuttur tími. Að vísu er það tekið fram í frv., að leyfið megi framlengja um tvisvar 5 ár, og verður það þá alls 15 ár. En það er alveg á valdi stjórnarráðsins, hvort það verður gert.

Í öðrum löndum er leyfið látið ná til óslitinna 15 ára og veitt skilyrðislaust.

Þegar menn sjá þá örðugleika, sem íslenskir uppgötvunarmenn eiga við að búa, verður augljóst, að einkaleyfisgjöld þau, sem ákveðin eru í frv., eru alt of há. Í Danmörku er borgað fyrir einkaleyfi í 15 ár 675 kr. En eftir þessu frv. ætti sá, sem kaupir einkaleyfi hjer, að borga með stimpilgjaldi 1100 kr. fyrir jafnlangt tímabil. Nú er þess að gæta, að þessi einkaleyfisgjöld ber að sjálfsögðu að miða við, hversu mikinn arð uppgötvunin getur gefið í aðra hönd af viðskiftunum innanlands. Og hjer á landi er markaðurinn mjög lítill, þar sem íbúar landsins eru að eins 90 þúsundir. En í Danmörku eru þeir 3 miljónir. Það má því búast við, að uppgötvunin, ef hún snertir Ísland sjerstaklega, gefi af sjer jafnmikið minni arð hlutfallslega, eins og fólkið er færra hjer en í Danmörku. Annað mál er, ef uppgötvunin er þess kyns, að hún nær til fleiri landa; þá eykst auðvitað markaðurinn. En þá verður sá, sem í hlut á, einnig að greiða einkaleyfisgjöld þar. En nú er þetta ekki verstur galli þessa frv. Heldur er aðalgallinn sá, hvernig uppgötvarinn á að geta fengið einkaleyfið. Af öllu því, sem að frv. má finna, álít jeg að þetta sje það versta Þar er svo ákveðið, að uppgötvarinn getur ekki fengið leyfið, nema því að eins, að hann hafi í höndum sönnun frá útlendri „Patentkommission“, eða einkaleyfisnefnd, fyrir því, að uppgötvunin sje einkaleyfisfær. Þetta gæti máske verið mögulegt, en þar er sá hængur á, að útlendar „Patentkommissionir“ eru ekki skyldar að láta slíkt álit í tje, nema umsækjandi sæki um einkaleyfi þar. Þannig verður þá sá, sem ætlar að fá einkaleyfi á einhverju, sem t. d. að eins hefir gildi fyrir Ísland, fyrst að fá einkaleyfi á því í öðru landi. Af þessu mundi leiða mikill aukakostnaður, og óvissa um það, hvort uppgötvunin væri talin einkaleyfishæf í útlöndum.

Jeg vil leyfa mjer að benda þeirri nefnd á þetta, sem á að fjalla um málið. því þessi lög, þannig úr garði gerð, veita engum innlendum manni meiri rjett til að nota einkaleyfi hjer en áður hefir verið. Og ef sett eru lög um þetta á annað borð, er ilt, að þau skuli ekki koma að neinum notum. Jeg vil því stinga upp á, að leyfistíminn sje 15 ár óslitin. Og leyfisgjaldið sje fært niður. Og enn fremur að hjer sje sett á stofn einkaleyfisnefnd (Patentkommission). Það mun að vísu rjett athugað hjá hæstv. stjórn, að nokkuð muni erfitt að setja slíka einkaleyfisnefnd, sökum þess að hún geti ekki fylgst nægilega vel með og vitað um, hvort ekki hafi verið veitt einkaleyfi á samskonar uppfundningu áður. En slíkar nefndir í öðrum löndum verða að halda ýms rit sjer til stuðnings, þar sem tilkynt er um allar nýjar uppgötvanir. Og jeg er sannfærður um, að t. d. Iðnaðarmannafjelagið hjer og verkfræðingafjelagið mundi geta bent á menn, sem hæfir væru í slíka nefnd. T. d. 3 menn. Svo framarlega sem ekki verður sett hjer slík „Patentkommission“, sem menn hjer gætu snúið sjer til, þá er þetta frv. algerlega gagnslaust fyrir okkur Íslendinga. Aftur á móti opnar það á gátt allar leiðir fyrir útlendingum. Því þeir geta altaf lagt fram sin útlendu einkaleyfisbrjef á einhverju, sem þeir vildu fá einkaleyfi á hjer. Jeg vil skjóta þessu til væntanlegrar nefndar, og benda henni á, að jeg álít frv. ótækt án þess arna.

Þessar krókaleiðir, sem ætlast er til að umsækjandi verði að fara, eru með öllu ófærar.

Jeg sje að svo komnu ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar. Þó vil jeg að eins drepa á eitt enn. Hæstv. stjórn virðist bera kvíðboga fyrir því, að hjerlendir dómstólar geti ekki dæmt slík mál, sem þessi. Þessi ótti held jeg að sje alveg ástæðulaus. Þess er að gæta, að dómstólarnir munu ekki dæma eftir öðru en skjölum þeim, sem fyrir liggja um málið. Það verður því sök aðilja sjálfs, ef hann ekki leggur fram þau gögn í málinu, sem nægja. Að lokum vænti jeg þess, að samkvæmt þessum bendinguin sjái nefndin sjer fært að bæta einkaleyfisnefndinni inn í frv. og ákvæði um, hvaða störf hún eigi að rækja.