03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Það lítur út fyrir að öldur ætli að rísa hátt út af máli þessu, enda sje jeg það ekki athugavert, þótt umræður verði allmiklar um það, og eðlilegt, að hv. þdm. láti sig það miklu skifta og fylgi því með fullri athygli, því að samkvæmt sambandslögunum er þetta eina embættið, sem við, að svo stöddu, erum einráðir um skipun þess, þeirra, er utanríkismál okkar heyra undir. Að vísu getum við, samkv. 7. gr. nefndra laga, sent sendimenn á okkar kostnað til þess að semja um sjerstök, íslensk málefni; en það verður þó að gerast í samráði við utanríkisráðherra Dana.

En eftir 15. gr. sambandslaganna höfum við vald til að skipa í Danmörku mann til að gæta hagsmuna okkar, svo háan eða lágan, sem okkur þykir best gegna. Það má segja, að það væri ekki nema rjett að slá því þegar föstu gagnvart Dönum, að við höfum þennan rjett; en þar fyrir er ekki útilokað, að rjettara væri að fara aðrar leiðir í upphafi um skipunina en hjer er gert ráð fyrir. Það hefir verið bent á, að þingið alt hafi bundið sig með því, að í fullveldisnefndinni hafi verið gert ráð fyrir, að Íslendingar sendu sendiherra til Danmerkur; svo er þó ekki. En hitt er víst, að þingið vildi, að það kæmi glögt fram, að við hefðum fullan rjett til að hafa þar sendiherra, ef okkur sýndist; en hins varð jeg ekki var, að við skuldbyndum okkur á nokkurn hátt til þess að gera hann þegar úr garði. Jeg bjóst þó satt að segja við, að við mundum ríða á vaðið með því að senda til Danmerkur aðalræðismann (Generalkonsul), og að Danir mundu að sínu leyti gera slíkt hið sama. Jeg fyrir mitt leyti gerði ráð fyrir því, að Danir mundu senda hingað aðalræðismann, og var þá ekki nema sjálfsagt, að við hefðum svarað í sama tón og sent slíkan mann til Danmerkur.

En síðan málið kom fram eru horfurnar orðnar alt aðrar. Stjórnin hefir riðið á vaðið með till. sinni í fjárlögunum, 10. gr. C., um kostnað við sendiherra í Danmörku.

Og jeg verð að segja það, að eins og sakir standa nú, á þessum byrjunartímum fullveldisins, þá þykir mjer, og jeg býst við mörgum öðrum líka, það mjög óviðurkvæmilegt að leggjast á móti þessari till. hæstv. stjórnar, úr því hún á annað borð er komin fram.

Jeg býst við því, að bæði jeg og aðrir fleiri telji sig bundna við það, sem orðið er. Hæstv. landsstjórn hefir í rauninni bundið háttv. þm., til að greiða atkv. með þessu, og mun mega færa fyrir því full rök, að ekki líti vel út að fella þetta ákvæði nú, þar sem svona langt er komið.

Hitt hefði verið alt annað, ef þingið hefði í fyrstu fjallað um þetta atriði.

Jeg get þó alls ekki haldið því fram, að hæstv. stjórn hafi hjer hitt á það rjetta.

Jeg hefði talið það miklu æskilegra, að maður þessi hefði borið aðalræðismannsnafn.

Með því hefði engu verið glatað, og rjettur okkar viðurkendur engu að síður, þótt slík tilhögun hefði verið höfð.

En nú er svo enn fremur komið, að Danir hafa sent hingað mann, sem ber sendiherratign; auðvitað er hann ekki af 1. flokki, ekki það, sem Danir myndu kalla reglulegan sendiherra. Hann heitir ,,Overordentlig Gesandt“, og þýðir það, alment tekið, ekki reglulegur sendiherra, heldur sendimaður með sendiherratign.

Það má segja, að þetta sje alt afleiðingar af viðurkenningu fullveldisins. En eins og sýnt hefir verið fram á, er það ekki bein afleiðing heldur eftir því sem jeg og fleiri háttv. þm. líta á, að eins bundið við það, sem á undan er gengið.

En í sambandi við þetta skal jeg benda á það, að það er ekki rjett, sem haldið hefir verið fram, að þjóðirnar nú leggi kapp á að halda uppi sendiherratildri eða prjáli í sambandi við þau embætti.

Í þeim sökum virðist einmitt nú vera nokkurskonar straumhvörf, og alt bendir í þá átt, að þjóðirnar hætti nú að halda uppi sendiherrasveitum á sama hátt og verið hefir, enda er það nú sýnt, að ,,pappírsdiplomatíið“ hefir reynst ónógt og jafnvel skaðlegt. Krafan gengur því nú í þá átt, að gera þá breytingu, að svið þessara manna verði svo sem eingöngu praktiskt; þar í verður fólgið viðskifta-„diplomati“, en hið „formella“ diplomati fellur niður, þessar flækjumálaleitanir milli ríkjanna hverfa. Innihald sendiherrastarfsins breytist þá þannig, að það líkist mest því starfi, sem aðalræðismenn hafa haft með höndum. Það verða aðallega viðskiftamál.

En til þeirra starfa þarf auðvitað engu síður vel mentaða, starfhæfa og viðskiftafróða menn.

Það er því engin mótsögn í því, þótt við leggjum áherslu á það, að þessi fyrsti maður, sem við sendum sem sendiherra til Danmerkur, hann skuli vera vel mentaður og viðskiftafróður maður og ábyggilegur starfsmaður.

Til þess þarf hann ekki að hafa gengið í neinn diplomatiskóla, eins og áður hefir verið gert að skilyrði annarsstaðar.

Það væri því ekki neitt brot á því sem nú er vilji þjóðanna í þessum málum, að hann nefndist aðalræðismaður, því að þótt þjóðirnar leggi ekki niður sendiherrasveitirnar og tignina, þá er þó í rauninni alt annað, sem í þeirri tign felst nú en áður.

En eins og jeg hefi áður sagt, tel jeg mig í þessu máli bundinn af því, sem á undan er gengið.

Jeg get þó ekki, og það leiðir af orðum mínum, áfelst þá menn, sem komið hafa af stað umræðum um þetta mál, jafnvel þótt þeir hafi valið það form, að flytja brtt. um að minka lið þennan að fjárupphæð og leggja að eins fje til skrifstofuhalds.

En jeg skal taka það fram, að um leið og jeg greiði till. hæstv. stjórnar atkv. mitt, þá áskil jeg það, að hún velji til þessa starfs mann, sem sje að fullu þeim vanda vaxinn, að gæta sem best á allan hátt hagsmuna Íslands í Danmörku.

Jeg legg því áherslu á það, að valið á manninum sje sem best vandað því að þetta embætti á alls ekki að vera stofnað til tildurs. Hitt verður hlutverk þessa manns, að sjá sem best borgið viðskiftalegum hag landsins og heill þess og sóma í hvívetna. En hitt vil jeg vona, að hann komist aldrei þangað með tærnar í tildri og prjáli, sem aðrir diplomatar heimsins hafa haft hælana.

Jeg verð líka að líta svo á, að þetta sje meining hæstv. stjórnar, og vona jeg því fastlega, að þessa verði gætt.

Og jeg get tekið undir það með öðrum fleirum, að mjer þykir maður sá, er við nú höfum í Kaupmannahöfn sem fulltrúa vorn, vænlegur til þessa starfs, og þætti mjer best, að hann fengist, eða þá annar jafngóður í hans stað.