28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í C-deild Alþingistíðinda. (3688)

85. mál, skipun prestakalla (Ísafjarðarprestakall)

Björn Kristjánsson:

Jeg get tekið undir með hv. þm. N.-Ísf. (S. St), að svo framarlega sem nokkursstaðar er þörf að bæta við nýju prestakalli, þá er það í Bolungarvík. Jeg hefi orðið svo frægur, að ferðast þessa leið, bæði sjóveg og landveg. Jeg hefi farið þar um fótgangandi að sumri til, en á mótorbát að vetrarlagi. Og jeg verð að segja, að jeg tel ekki viðunandi að byggja á þeirri leið, er á að sækja lækni, og illgerandi þegar um prest er að ræða, hvort heldur er sjóveg eða landveg. Sjóleiðin er að vísu oft fær, enda oftast, nær farin milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, en sjóleiðin liggur fyrir opnu hafi, eins og kunnugt er, og getur því oft orðið ófær.

En erindi mitt að standa upp var nú ekki að tala um þetta, heldur að minna væntanlega nefnd á, að jeg hefi leyft mjer að stinga upp á, að hið gamla Kálfatjarnarprestakall verði endurreist. Jeg vildi að eins geta þessa nú, af því málið liggur ekki fyrir nú, þar sem það er ekki á dagskrá. Jeg vona, að háttv. nefnd leyfi mjer að tala við sig þessu viðkomandi, þegar þar að kemur, og leggja tilheyrandi skjöl fram.