06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í C-deild Alþingistíðinda. (3928)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Gísli Sveinsson:

Jeg skal byrja með því að lýsa yfir, að það var ekki samkvæmt mínum tillögum, að þetta mál var ekki útkljáð í gær. Jeg tel, að það hefði mátt gera það. En úr því svo er nú komið, sem er, verður nú að slá botninn í það. Og jeg ætla nú að gera það fyrir mitt leyti með nokkrum orðum. Jeg hafði í ræðu minni í gær lýst rjettmæti þessa máls, frá almennu sjónarmiði, og eins rjettmæti þess frá sjónarmiði þeirra, er hlut eiga að máli.

Hæstv. stjórn tók til máls öllsaman, eða hæstv. ráðherrar þrír, þar sem, þó merkilegt sje, þetta mál tók til allra. Það er annars svo um þessa hæstv. stjórn, að menn vita varla, hver þeirra á hlut að máli í hverju tilfelli fyrir sig. Ef þeir hafa ekki rótað sjer inn í eitthvert mál allir þegar í stað, þá gera þeir það áður en lýkur. Þetta mál heyrir undir hæstv. forsætisráðh. (J. M.), enda varð hann fyrstur fyrir svörum. En því miður voru svör hans óákveðin og skáru á engan hátt úr því, sem ætlunin var með fyrirspurninni. Tilætlunin með fyrirspurninni var vitanlega ekki sú, að gera ályktun í málinu, því að það er ekki hægt hjer, eftir því, sem skilin hafa verið ákvæði þingskapanna um fyrirspurnir, heldur hitt, að fá heit um það hjá hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að rekstri sýslumannsembættisins í Árnessýslu yrði ekki haldið áfram eins og hefir verið hingað til. Að það kæmi ljóst fram, að setja ætti fast skipulag á meðferð embættisins. Það kom þó ekkert heit fram um það hjá hæstv. stjórn í gær. Að eins var þess getið, af hæstv. forsætisráðh. (J. M.), að sá, sem nú gegnir embættinu, Þorsteinn Þorsteinsson, cand. jur., mundi ef til vill fáanlegur til þess að sitja þar eitthvað áfram. En um það er hjer ekki að ræða. Árnesingar krefjast þess, að embættið komist úr þeirri niðurlæging og ringulreið, sem stjórnin hefir sett það í, með þeirri ráðstöfun að setja Guðmund Eggerz í fossanefndina. Þeir krefjast þess, að sá, sem á að gegna embættinu, hinn fasti embættismaður, sitji þar fastur, en ekki að hinir og aðrir sjeu þar settir um stund og stund, og látnir fara með mál sýslunnar á tætingi og hlaupa síðan frá hálfunnu verki. Þessu verður að kippa í lag hið allra fyrsta. Það er heimtað af hjeraðsbúum. Annaðhvort verður sá embættismaður, sem nú hefir embættið, að hverfa til þess fyrir fult og alt, og sýna, hvort hann getur gegnt því, eða það ber að leysa hann frá embættinu og skipa annan hæfan mann í hans stað, sem bæði getur og má vera að því að sinna því.

Jeg leyfði mjer í gær að beina þeirri spurningu að hæstv. forsætisráðherra (J. M.), hvort það væri satt, að þessi embættismaður, Guðmundur Eggerz, og Páll Jónsson, hefðu ekki fengið nein svör hjá hæstv. stjórn við því, hvers vegna síðarnefndi hefði ekki mátt gegna fulltrúastarfi fyrir sýslumann Guðmund Eggerz. Það var nú tekið fram í umræðunum, að stjórnin væri ekki skyld að lögum að gefa skýringu á þessu, eða öðru því líku. Og er það rjett. En hins vegar tel jeg það siðferðislega skyldu stjórnarinnar gagnvart þeim, sem hlut eiga að máli, að hún greini satt og rjett frá orsökum til þessa. Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði í ræðu sinni í gær, að nefndur Páll Jónsson hefði verið svo mikið riðinn við óeirðamál í sýslunni, og það staðið í veginum. En um þetta var ekki spurt, heldur, af hverju Páll sjálfur hefði ekki fengið glögg svör þessu viðvíkjandi, — þessi sömu svör, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hjer gefur, eða önnur. Af því að jeg tel, að þetta hafi talsverða þýðingu, sem regla hjá hæstv. stjórn, að vera altaf einlæg í svörum og skorinorð, þá skal jeg geta þess, að maður þessi sagði sjálfur við mig í gær, eftir umræðurnar, að þetta væri ekki satt. Að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) hefði aldrei viljað segja sjer ástæður fyrir þessu framferði gagnvart sjer. Jeg skal nú ekki leggja úrskurð á, hvort rjettara er, en víst er, að Páll sagði þetta fullum fetum og óhikað. Og því áleit jeg rjett að geta þess. En auk þessa er annað atriði í þessu máli, sem krefst skýringar. Látum svo vera, að stjórnin hafi haft þessa ástæðu móti því, að Páll gæti gegnt fulltrúastarfi fyrir Guðmund Eggerz. En hvernig stendur þá á því, að hann þó fær löggildingu hjá stjórnarráðinu sem fulltrúi í sýslunni? Í þessu er hreinasta mótsögn, sem hæstv. stjórn verður að láta svo lítið að gefa skýringu á. Nú er það kunnugt, að það var óvefengdur vilji Guðmundar Eggerz, að þessi maður væri fulltrúi í hans stað, enda fjekk hann löggildingu til þess hjá stjórnarráðinu. En hvað veldur svo aftur þeirri ráðstöfun, að löggildingin er tekin af honum? Þetta er jafnóskiljanlegt af því, sem hæstv. stjórn sagði í gær. Svo að nú er mál til komið, að menn fái að vita hið rjetta.

Það varð skilið af orðum hæstv. forsætisráðherra (J. M.) í gær, að honum leiddist, að jeg skyldi tala í þessu máli. Hann gat þess, að heyrst hefði, að jeg ætlaði að vera óvæginn og skamma stjórnina. Ef þetta væri ekki jafngóð stjórn og allir vita að hún er, sem hjer á hlut að máli, mundi jeg segja, að „illur á sjer ills von“„ Það verður nú svo að vera, þótt hæstv. stjórn þyki það ekki ávalt gleðiefni fyrir sig, að jeg taki til máls.

Þá skal jeg víkja nokkrum orðum að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.). Sú varð raunin á, að hann varð að taka til máls, enda þótt maður skyldi ætla, að hann hliðraði sjer hjá að fara jafngeyst og tala jafndigurbarkalega um persónuleg atriði í málinu, þar sem honum er það jafnnáskylt og menn þekkja. Jeg tók það fram í ræðu minni í gær, að jeg ætlaði mjer ekkert að dæma hæfileika sýslumanns Guðmundar Eggerz sem embættismanns. Hitt dæmdi jeg aftur, hvort það teldist tilbærilegt að skipa hann sýslumann í jafnerfiðu og umfangsmiklu hjeraði og Árnessýsla er, þar sem hann skömmu áður hafði sagt lausu öðru embætti, sem hann ekki treystist til að gegna sökum varanlegs heilsubrests. Þetta er ekki að dæma persónulega, heldur varðar það, hvort einn einstakur maður geti gegnt áfram embætti af óviðráðanlegum orsökum. En þetta var hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) ekki nóg. — Hann varð, eins og honum er títt, að ganga lengra en skyldi, til þess að knýja menn til að fara nánar inn á einstök atriði málsins en menn hefðu þó viljað. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fór mörgum orðum um það, og ræða hans snerist að mestu um að reyna að sannfæra menn um það, hversu mikill fyrirmyndarembættismaður Guðm. Eggerz væri. Hann taldi hann vafalaust einn af allra bestu sýslum. þessa lands, hvað snerti alla embættisfærslu. Þetta var alveg óþarft hjá hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), því að enginn hafði komið nærri þessum sýslumanni á þann hátt, að til þess þyrfti að grípa. Þetta hefir fyr hent hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), og það er venja hans um mál, sem koma honum óþægilega, að gera þau að persónumálum, meira en þörf er á og rjett er. Slík aðferð í umræðum þjóðmála er alveg ótæk. Og ætti hennar síst að kenna hjer, þar sem er skylt að minnast á svo margt, enda þótt einhverjar persónur sjeu að einhverju leyti við það riðnar.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) sagði, að embættisfærsla nefnds sýslumanns hefði verið rannsökuð, og þar hefði ekkert fundist athugavert; það væri þvert á móti einstök fyrirmynd, og að fyrir þessu væru skjöl í stjórnarráðinu. Þetta kemur mjer á óvart, þar sem jeg hefi aldrei heyrt þess getið, að neinskonar rannsókn hafi verið skipuð á embættisfærslu Guðmundar Eggerz. Ef hæstv. ráðherra (S. E.) á við eftirlit það, sem stjórnarráðið lætur viðhafa, þá skal jeg játa, að hjer getur verið öðru máli að gegna. En hins vegar veit jeg ekki til þess, að nokkur skoðunargerð hafi farið fram á embættisfærslu í Suður-Múlasýslu, en það mun hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) sennilega eiga við. Hitt er kunnugra en frá þurfi að segja, að ýmsir embættismenn, sem vitanlegt var um að gátu ekki rækt sitt embætti á sómasamlegan hátt, stóðust þó þetta eftirlit stjórnarráðsins. Svo að það má vera ljelegur embættismaður, sem fellur fyrir slíku eftirliti. — Úr því jeg er neyddur til þess, af hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), skal jeg geta þess, sem er kunnugt, að einn æðsti embættismaður landsins, sem var, landritarinn, er var einskonar yfireftirlitsmaður embættismanna, hafði talsvert að athuga við embættisfærslu Guðmundar Eggerz. Jeg býst við, að ef vel er leitað, þá finnist í skjalasafni stjórnaráðsins „concept“ af brjefi til hans, þar sem landritari er æði harðorður, og þess er stranglega krafist, að nefndur sýslumaður bæti sig. Sje slíkum skjölum til skila haldið, geri jeg ráð fyrir, að jafnvel hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) geti fundið uppkastið að þessu brjefi í stjórnarráðinu. — Það er orðið einkenni á þessum hæstv. ráðherra (S. E.), að hann talar alt í eintómum fullyrðingum. Hann sagði í ræðu hjer á þingi í fyrra, að hann hefði aldrei á æfinni sagt eitt orð ósatt, eftir því hvorki vísvitandi nje óafvitandi, og að hann hefði aldrei hlynt að sjer eða sínum. Og seinast í gær fullyrti hann, að hann hefði aldrei lofað neinu því, sem hann hefði ekki efnt. Við hinir, sem vitum og játum, að við erum menn, þorum ekki að taka munninn svona fullan. Svo breyskir erum við. En hæstv. ráðherra (S. E.) telur sig hiklaust alveg óskeikulan, og má mikið vera, ef svo er.

Eins og kunnugt er, urðu miklar óeirðir í Suður-Múlasýslu, meðan Guðmundur Eggerz var þar sýslumaður, og lá við hörðu, svo að hann ætlaði sjer jafnvel að hlaupa frá sýslunni. Að minsta kosti símaði hann til hæstv. stjórnar, til þess að tjá henni það, að hann segði embættinu lausu m. m. En hvort sem það var af því, að stjórnin legði að honum, eða af einhverjum öðrum orsökum, þá komst hann einhvern veginn inn í embættið aftur.

Það má því margan furða, þar sem þetta er alkunnugt, að hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) skyldi vera að leiða þennan asna inn í herbúðirnar, — að alt hefði altaf verið með feldu, og meira en það, í embættisfærslu þessa manns.

Það er nú ekki óhugsandi, að Árnesingar hafi ekki hugsað eins vel til þess, að fá þennan embættismann í sýsluna, eins og hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) virðist ætla.

En eitt atriði er það, sem sjeð varð um Guðmund Eggerz sem sýslumann í Árnessýslu, þótt naumast geti heitið, að hann hafi stigið þar fæti sínum, en það er, að hann blandaði sjer þar óðara í viðskifti, sem að ýmsu orka tvímælis. Það hefir hneykslað mjög suma menn í Árnessýslu, og víðar, að hann hefir leyft sjer að mynda einskonar „firma“ með þeim mönnum, sem þar stóðu fyrir óeirðamálum þeim, sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mintist á. Það getur meira en verið, að það hafi reynst arðvænlegt, en hinu verður ekki móti mælt, að fyrir þann mann var það mjög óheppilegt að blanda sjer inn í slíkt, þar sem hann var orðinn þar yfirvald. Alt þetta, sem jeg nú hefi sagt, hefi jeg talað af því, að jeg var til neyddur af hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), sem sagði, að jeg hefði farið persónulega að mönnum, og þá sjerstaklega að þessum manni, sem hann taldi því sem næst óaðfinnanlegan.

En, því miður, er nú málið þannig vaxið, að hann verður ekki, frekar en aðrir, talinn óaðfinnanlegur.

En það, sem hjer hefir sjerstaklega verið að fundið, er það, hversu hæstv. stjórn hefir látið embætti þetta rekast, því að um það má með sanni segja, að hún hafi látið það reka á reiðanum. Og tilgangur fyrirspurnarinnar var aðallega sá, að nú yrði rekinn slagbrandur fyrir þetta og því kipt í lag.

Þá er aðeins eitt atriði, sem jeg vildi, að gefnu tilefni, minnast á.

Jeg sagði, að Guðmundur Eggerz hefði verið rifinn burt og settur af stjórninni í fossanefndina. En hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) kvað það hafa verið gert eftir óskum Árnesinga. En að lokum kemur það upp úr kafinu, að slíkar óskir höfðu ekki fram komið frá fleiri en einum eða tveimur mönnum.

Það, sem Árnesingar óskuðu, var í fyrsta lagi það, að þeir fengju nokkru að ráða um nefndarskipunina, og í öðru lagi, að þeir fengju að tilnefna einn mann í hana. En það fengu þeir ekki. Það var því að Árnesingum fornspurðum og upp á eigin býti, að stjórnin skipaði í hana Guðmund Eggerz sýslumann, og veit jeg ekki til, að neinn hafi kunnað henni þakkir fyrir. Hitt er annað atriði, hversu heppilegt það hafi verið, að hann var skipaður í nefndina.

Því var nú haldið fram af hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), að hann hafi í nefndinni flutt þá skoðun, sem flestir hafi hallast að. Skil jeg vel, hvert hann fer með því, og er gott að fá að vita, að hann er svo hrifinn af þeirri niðurstöðu. En hitt má telja víst, að menn hefðu komist eins að þessari „niðurstöðu“, að Guðm. Eggerz hefði ekki verið í nefndinni. Og „pródúkt“ hans, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hrósar svo mjög, sýnir það ekki, að hann hafi verið þar svo sjerlega nauðsynlegur, því að eftir mínu viti gera þau skrif hans, eða þau, sem við hann eru kend, hvorki til nje frá.