20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í C-deild Alþingistíðinda. (3942)

162. mál, aðflutningsbann á áfengi

Einar Arnórsson:

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) þótti jeg koma fullnærri efni þessa dóms. En það get jeg ekki kannast við, og verð jeg að endurtaka það, að vjer höfum leyfi til, hvar sem er og hvenær sem er, að láta uppi rökstudda skoðun í kurteisu formi um hvert það efni, er fyrir liggur.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) vildi gera úr mjer þrjár persónur. Er það ekki nema gott að geta brugðið sjer í mörg líkin. Hann spurði, hvort jeg hefði talað í þessu máli sem prófessor í lögum, aukadómari yfirrjettar eða sem þingmaður. Jeg get nú strax tekið það fram, að jeg talaði ekki sem aukadómari. En aftur skal jeg játa, að jeg talaði bæði sem maður, sem eitthvað hefir hnusað í lög, og sem þingmaður.

Við erum báðir sammála um, að dómstólarnir eigi að vera óháðir. Jeg hefi ekki sagt neitt í aðra átt. Þóttist jeg hafa sýnt það í gær, að jeg vildi, að æðsti dómstóll landsins væri óháður, þar sem jeg bar fram brtt. um sjerstaka undantekningu um hámarkið á launum hæstarjettardómendanna. Í hvaða skyni gerði jeg það? Ætli það hafi ekki verið til þess, að þeir yrðu sem óháðastir? Og jeg man ekki betur en að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) greiddi atkv. með þeirri till. Býst jeg við, að við höfum báðir gert það í sama skyni.

En þá eiga dómendur líka að gæta þess sjálfir, að vera sem óháðastir, og gera sitt til þess, að halda þeirri virðingu og trausti, sem nauðsynlegt er að almenningur beri til þeirra.

Það kom nýlega fyrir í Kaupmannahöfn, að ágætur lögfræðingur þar, dómstjóri hæstarjettar, talaði eitthvað ógætilega um dóm, sem hæstirjettur hafði kveðið upp. Stúlka hafði fyrst verið sakfeld og dæmd fyrir barnsútburð eða barnsmorð. En svo kom til mála, að hún myndi hafa verið saklaus. Var þá málið tekið fyrir á ný, og stúlkan sýknað með hæstarjettardómi. En svo segir dómstjóri hæstarjettar eitthvað á þá leið í samtali, að þessari síðari dómur hæstarjettar muni rangur verið hafa. Einnig er sagt, að hann hafi látið í ljós, að honum væri illa við jafnaðarmenn. Þetta varð til þess, að þessi ágætismaður varð ekki mjög mosagróinn sem dómstjóri hæstarjettar. Þar er nú litið svo á þessa hluti.

Hjer á landi hafa verið mjög skiftar skoðanir um vist mál. Hefir það verið eitt ákveðnasta deilumál hjer á landi um hríð. Það er mál, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) messaði um, er hann steig hjer í stól í gær, og hjelt aðalprjedikunina. Jeg held nú, að dómendur ættu sem minst að blanda sjer inn í deilur um þetta mál og önnur slík. En jeg verð þó að telja, að dómendur yfirrjettar hafi blandað sjer í deilur um þessi lög. Verð jeg að telja það mjög leiðinlegt. En kunnugt er, að sjest hafa nöfn þeirra allra — að sjálfsögðu vel fengin — undir ávarpi, þar sem undirskrifendur lýsa því yfir með átakanlegum orðum, að þeir sjeu á móti þessum lögum. Jeg segi nú ekki, að þeir halli dómum út af þessum lögum viljandi, vegna þess. En jeg held, að óviljandi geti þeir gert það. Því að ef dómar geta litast af afstöðu dómenda til einstakra manna, sem kunnugt er, þá munu þeir ekki síður geta litast af samhygð eða andhygð við stefnuna, sem kemur fram í þeim lögum, sem þeir eiga að dæma eftir. Þetta er ekki nema mannlegt, og dómarar eru breyskir menn, eins og aðrir. Það er því ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem unna stefnunni, hafi minna traust á þeim dómara, sem lýst hefir opinberlega yfir andhygð sinni gegn lögunum. Auðvitað er það ekki alveg sama, að einhver dómari segist hafa andhygð móti einhverri stjett eða flokki, eins og hann segðist vera móti einhverri stefnu. En þó er það töluvert skylt. Og það, að einum dómara er illa við jafnaðarmenn, þýðir ekki það, að honum sje illa við persónurnar, heldur þá stefnu, sem mennirnir fylgja. Líkt þessu er hitt, ef einhver dómari segir, að honum sje illa við bannlögin og hann telji þau óhæf. Það þýðir, að honum sje illa við stefnuna, sem bannlögin eru sprottin af.

Þetta mál varðar engu það atriði, hvort betra sje að hafa innlendan æðsta dómstól eða ekki, því að mjer virðist það mjög undarlegt, ef landsmenn gætu ekki eins haft traust á innlendum dómstól sem útlendum, í öllum aðalatriðum. Það er vitaskuld hættara við, að dómur innlends dómstóls geti frekar verið litaður af frændsemi, tengdum eða kunningsskap. En aftur hafa innlendir dómarar þann kost, að þeir eru persónulega kunnugir öllu ástandi, landslögum og landsháttum, og vegur það á móti hinu.

Viðvíkjandi umboðsvaldinu og dómstólunum, þá er auðvitað, að umboðsvaldið á ekki, fremur en löggjafarvaldið, að segja dómendum, hvernig þeir eigi að skýra og skilja lög. Um það munu allir sammála. En umboðsvaldið má þó og á að vissu leyti að hafa eftirlit með dómurum, eins og öðrum embættismönnum. Og er umboðsvaldið ályktar að skjóta dómi undir dóm æðra dómstóls, þá liggur í því einskonar „kritik“ á þeim dómi, er áfrýja skal, að fráskildum sakamálum þeim, sem skylt er að áfrýja. Þar þarf ekki að vera um neina „kritik“ að ræða. Svo er t. d. um dauðadóma og aðra hegningardóma, þar sem áfrýjunar er óskað. —

Það er satt, að að vissu leyti er dómsvaldið sjálfstæðasta valdið, því að það á að skera úr milli umboðsvaldsins og annara. Hefir það þannig úrslitavaldið.

En alt þetta gerir það að verkum, að þess er bráð nauðsyn, að dómstólarnir hafi fult traust almennings, og geri ekkert að nauðsynjalausu til að rýra það traust og þá virðingu.