19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Matthías Ólafsson:

Hv. frsm. (M. G.) var að enda við að tala um brtt. þær, sem jeg, ásamt hv. sessunaut mínum (S. St.), hefi flutt við frv. þetta. Áður en jeg minnist á hana ætla jeg að minnast nokkuð á frv. sjálft.

Af því að nú vantar svo tilfinnanlega tekjur í landssjóð, þá get jeg fallist á þessa hækkun á útflutningsgjaldi af fiski og fóðurmjöli. Og hvað fóðurmjölið snertir, er það ekki af því, að líkur sjeu til, að það gjald lendi mestmegnis á útlendingum. Það lendir engu síður á Íslendingum. En jeg fellst á það vegna þess, að það gæti þá frekar lent í landinu sjálfu til fóðurs, ef minna yrði flutt út af því vegna þessa útflutningsgjalds.

Þá kemur viðbótin, sem nefndin flytur við 1. gr. Það er rjett, að ekkert gjald hefir verið goldið af ferskum fiski, sem botnvörpungarnir flytja út sjálfir. En jeg vil spyrja: Ætlast nefndin til þess, að hver útlendur botnvörpungur, sem kemur hjer inn á höfn fullur af fiski, borgi útflutningsgjald af fiskinum, sem hann flytur út? Eða ætlast hún til, að sá einn borgi, sem er gerður út af útgerðarmanni hjer, en hinn ekki, sem flytur fiskinn til útgerðarmanns síns í Englandi? Ef Íslendingar einir eiga að borga þetta gjald, þá er það ójöfnuður, og jeg get ekki fylgt þessu, nema útlendingar borgi líka. En jeg held, að ilt yrði að eiga við það. Að minsta kosti hygg jeg, að það hafi áður verið samningum bundið, að útlendingar máttu koma hjer inn með afla sinn án þess að borga skatt. En jeg veit ekki, hvort nú er hægt að breyta þessu, þegar landið er viðurkent ríki. En hæstv. stjórn ætti að geta gefið upplýsingar um það.

Þá sný jeg mjer að brtt. okkar. Við hjeldum, að nefndin hefði gleymt þessu og komum með brtt. til að bæta úr gleymsku hennar. Við hjeldum, að hún myndi ekki vilja leggja á sjávarútveginn án þess að hún myndi, að eitthvað er til, sem heitir landbúnaður, og hann ætti að greiða eitthvað.

Jeg hefi heyrt færðar ástæður fyrir því, að rjett væri að leggja hækkað gjald á allar fiskiafurðir, til þess að vega upp móti hækkuðum lausafjárskatti. En nefndin tekur bara saltfiskinn einan og leggur á hann til móts við lausafjárskattinn, enda þótt kunnugt sje, að sjávarútvegurinn borgar nú þegar í tollum svo skiftir hundruðum þúsunda. Hún hefði þá eins vel getað tekið eina grein, eins og t. d. ýsuna, og lagt alt þetta á hana. Það hefði verið álíka sanngjarnt.

Það er rjett, að lausafjárskattur hefir hækkað, en gjöldin á sjávarútveginum hafa líka hækkað, fullkomlega til móts við lausafjárskattinn.

Jeg ætla nú að færa rök fyrir því, að þessar brtt. okkar sjeu svo sanngjarnar, sem nokkuð getur verið, og það þótt nefndin mótmæli því til eilífðar.

Jeg vil taka til dæmis eina tunnu af kjöti og eitt skippund af fiski. Eftir till. nefndarinnar verður líkt útflutningsgjald af einu skippundi af fiski og við ætlumst til að greitt sje af kjöttunnunni. En nú vita allir, sem nokkurn snefil hafa af þekkingu í þessum efnum, að það er ekki ódýrara að framleiða eitt skippund af fiski en eina tunnu af kjöti. Er því ekki ósanngjarnt, þótt borgaðir sjeu þessir 60 aurar af einni tunnu af kjöti, því að söluverð hennar er álíka og eins skippunds af fiski, og ekki lægra. Enda væri sama, hvort dýrara er. Munurinn er aldrei svo mikill, að þetta sje ekki rjettmætt, þegar bæði er tekið tillit til framleiðslukostnaðar og söluverðs hvorratveggja þessara afurða.

Á hvíta ull vildum við ekki setja hærra gjald en 2 aura á kg. sem er þó lágt gjald. Og á annari ull getur gjaldið kallast afarlágt, 1 eyrir af kg.

Þá er ekki hátt gjald á söltuðum sauðargærum, 1 eyrir af hverju kg. Líkindin fyrir því, að íslenskar sauðargærur haldist í háu verði, eru mjög miklar.

Það getur nú vel komist það horf á, að íslenskt sauðfje yrði flutt út. Ef svo færi, gæti 15 aur. af hverri sauðkind ekki talist mikill skattur.

Þá kem jeg að hrossunum. Er sennilegt, að það muni vaxa mönnum mest í augum. Er þar farið fram á að greiða 5 króna gjald af hverju hrossi, sem nær ákveðinni hæð. Þegar tekið er tillit til þess, hve framleiðslukostnaður er hjer afarlítill, þá er þetta mjög lítið gjald. Aftur er gert ráð fyrir minna gjaldi á minni hrossum, sem seljast fyrir lægra verð.

Þá er æðardúnninn. Við höfðum mikla tilhneigingu til að setja þetta gjald hærra. En vegna þess, að vinnulaun við framleiðslu hans eru há, í hana fer mikil vinna, og verðið hins vegar óstöðugt frá ári til árs, þá höfðum við gjaldið ekki hærra. En jeg skal taka það fram, að það var ekki hv. meðflutnm. minn (S. St.), sem vildi hafa gjaldið lægra. Það er mjer að kenna. Jeg vildi taka tillit til erfiðleikanna við þessa framleiðslu. Hann vildi gjarnan hafa gjaldið hærra. Jeg vildi taka þetta fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, þar sem hann er sjálfur dúneigandi.

Þá er það eitt, sem undrar mig, og það var, að nefndin skyldi ekki finna sjávarlykt af selskinnum og láta þau fljóta með í afurðum sjávarútvegsins. En ef til vill hefir henni fundist þau eins vel mega teljast til landbúnaðarafurða, og þess vegna gleymt þeim. Við höfum nú viljað bæta úr þessari gleymsku og lagt til 10 aura gjald af hverju skinni.

Þá eru tófuskinnin. Við leggjum til, að af þeim sje greitt 50 aura gjald. Það er mjög lágt, en þó nógu hátt, borið saman við verð nú, sem er fremur lágt. En gjaldið mætti hækka, ef skinnin stíga í verði. En það er heppilegt að taka þetta gjald nú, þótt ekki sje hátt.

Jeg hefi þá ekki mikið meira að segja, en verð að láta í ljós þá skoðun, að ef það getur komið til mála að leggja gjald á afurðir landbúnaðarins — og það er alveg sjálfsagt — þá sje ekki hægt að hafa það lægra. Jeg verð því að segja, að ef fulltrúar landbúnaðarins geta ekki fallist á tillögur þessar, misbjóði þeir mjög metnaði þeirra. Jeg veit það, eftir þekkingu minni á hinum góðu og gömlu höldum í bændastjett, að þeir hafa svo mikinn metnað, að þeir vilja fá að gjalda eitthvað meira en þeir hafa gert til ríkisþarfa.

Jeg vildi láta þessum till. fylgja þá ósk, að hv. deildarmenn greiði atkv. með þeim, hvað svo sem fjárhagsnefndin fimmblaðaða hefir sagt og mun segja um þetta mál.