12.08.1919
Neðri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Pjetur Jónsson:

Jeg get svarað spurningu háttv. frsm. (M. G.) þannig, að mjer finst sanngjarnt, að útflutningsgjaldinu á hesta sje jafnað niður á þá alla jafnt, bæði þá sem þegar eru farnir, þegar lögin koma í gildi, og hina, sem ófarnir eru þá. Því hefir þannig verið til hagað, að hrossin hafa verið borguð ofurlítið lægra en við má búast, að fyrir þau fáist, að kostnaði frádregnum; er svo tilætlunin, að bæta seljendunum upp þennan mismun þegar fullsjeð er, hver hann verður. Að vísu má ekki vænta, að hjer sje um mikla upphæð að ræða, en þó að líkindum fult eins háa og útflutningsgjaldinu nemur. Jeg geri ráð fyrir, að samnefndarmenn mínir í útflutningsnefndinni muni verða mjer sammála um þetta. En að sjálfsögðu heyrir fullnaðarúrskurður um þetta undir landsstjórnina. En jeg geri ráð fyrir, að hún muni fara nokkuð eftir tillögum útflutningsnefndar og fjárhagsnefndar þingsins um þetta.