18.07.1919
Efri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 904 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

16. mál, brunabótafélag Íslands

Magnús Torfason:

Jeg vil að eins taka fram, að mjer finst fjelagið ekki geta heitið Brunabótafjelag Íslands meðan Reykjavík er útilokuð. Jeg verð að játa að ýmsir örðugleikar eru á að taka Reykjavík inn. Fyrir mjer vakir samt ekki svo mjög hin lágu iðgjöld í Reykjavík, heldur öll sú breyting, sem yrði á lögunum við slíkt ákvæði, breyting, sem mundi hafa afarmikil áhrif einnig utan Reykjavíkur. Mjer finst óhjákvæmilegt, að landsstjórnin rannsaki alt sem að þessu máli lýtur, og vil jeg þar á meðal sjerstaklega benda á endurtryggingu. Jeg skal fúslega játa, að það getur tæplega komið í mál að koma Reykjavík inn í fjelagið, nema gerbreyting verði á endurtryggingarkjörunum, en þau koma aðallega undir brunaliði og brunaáhöldum, sem vitanlega eru langtum betri í Reykjavík en nokkursstaðar annarsstaðar á landinu.