28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

18. mál, fasteignamat

Pjetur Jónsson:

Það þýðir ekki að þrátta um það hjer, hvaða matsaðferð nefndin eigi að hafa. Matið fer vitanlega nokkuð eftir gæðum jarða, en þó aðallega eftir legu jarða og lóða. Annars meta matsmennirnir eftir því, sem þeir álíta rjettast. Mjer hefir skilist það á nokkrum háttv. þm., að þeir væru að amast við háu mati. Það er sprottið af misskilningi. Það verður að gá að því, og ekki hægt að ganga fram hjá því, þegar lóðir eru metnar að verðmæti þeirra fer mest eftir legunni. Jeg get bent á það sem dæmi að hjer í Reykjavík á hafnaruppfyllingunni er ferhyrningsalin seld á 40 kr., en sumstaðar annarsstaðar eru lóðir seldar hjer á 1 kr. ferhyrningsalin. Þarna fer það ekki eftir gæðum, ekki eftir því, hvað mikið er hægt að framleiða á jörðinni. Það verður líka að taka tillit til, hvað kostnaðarsamt er að koma því á markað, sem framleitt er.

Sú skoðun hefir ríkt víða áður, að mat á jörðum ætti að byggja á því, sem í þeim byggi og hverju þær framfleyttu. Þessi skoðun mun hafa ríkt mjög við jarðamatið frá 1861. En þessi skoðun er nú úrelt, og í þessu fasteignamati á að leggja nýjan grundvöll fyrir mati á löndum og lóðum, sem hvorki fer eftir stærð nje gæðum aðallega, heldur eftir aðstöðu og legu, sem kemur fram í verði landa og lóða í kaupum og sölum. Jeg vildi taka þetta fram, til þess að menn væru ekki að þvæla hjer með misskilning á grundvallaratriði laganna.