15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

2. mál, fjáraukalög 1916 og 1917

Matthías Ólafsson:

Það er hlutverk hv. fjárhagsnefndar að dæma milli stjórnarinnar og yfirskoðunarmanna landsreikninganna, og hafa þeir síst ástæðu til að vera óánægðir með, hvernig sá dómur hefir fallið: miklu fremur hafa þeir ástæðu til að vera ánægðir með, hvað mikið tillit hefir verið tekið til till. þeirra og verða að telja dóm hæstv. nefndar sanngjarnari en stundum hefir áður verið.

Þó vildi jeg drepa á fá atriði, sem enn er nokkur ágreiningur um.

Það mun rjett vera hjá hv. frsm. (M. G.) að 1916 hafi verið notað fje til Skagfirðingabrautar, sem veitt var til hennar 1917 eða árinu síðar. Þetta gátu yfirskoðunarmenn ekki vitað, og því ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þeir vildu að aukafjárveitingar væri leitað.

Jeg er því ekki að lá þeim, þótt þeir fari fram á aukafjárveitingu. En það er annað mál hvort ekki væri rjettara, ef fyrra árið er notað meira en veitt er til þess að láta bíða með að fara fram á aukafjárveitingu, þangað til sýnt er hvort alt fjeð verður notað.

Þá er tölul. 82. Hann gefur tilefni til að minnast á margt. Yfirskoðunarmenn landsreikninganna hafa lagt til, að hætt sje við að veita fje til verklegs náms við búnaðarskólann á Hvanneyri. (M. G.: Þetta kemur til umr. undir 6. máli á dagskrá). Jæja. þá bíð jeg eftir því.