30.08.1919
Neðri deild: 50. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

13. mál, Íslandsbanka leyft að auka seðlaupphæð

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Í byrjun þingsins var frv. þessu vísað til fjárhagsnefndar, en nefndin geymdi það hjá sjer uns útsjeð væri um, hvernig háttv. deild færi með þau tvö frv., sem fyrir lágu, um seðlaútgáfu Landsbankans og breyting á lögum Íslandsbanka 10. nóv. 1905. En þegar bæði þessi frv. voru feld, tók hún frv. þetta upp aftur.

Stjórnin hefir óskað þess, að leyfið til aukinnar seðlaútgáfu yrði framlengt til 1. maí 1921. Og af því það þótti orðið víst í nefndinni, að ekki yrði hægt að koma fram málinu á öðrum grundvelli en þessum, fanst henni rjett að verða við ósk stjórnarinnar og leggja til, að leyfistíminn yrði framlengdur til 1. maí 1921.

Annars duldist nefndinni ekki, að þetta er engin lausn á málinu. Þó þetta frv. verði að lögum, er ekki sjeð fyrir nægum gjaldeyri eftir þann tíma, sem lögin ganga úr gildi, nema ef stjórnin kemst að einhverjum samningum frá 1. maí í vor til 1. maí 1921. En nú er ekki orðið um annað að gera en samþ. frv., úr því að Landsbankinn vill ekki seðlaútgáfuna. Afleiðingin af því getur orðið sú, að annaðhvort verði að flytja inn útlenda seðla eða að gjaldmiðil vanti, ef ekki er hægt að finna ný ráð. Hvorttveggja er ilt og þó það síðara verra, að gjaldmiðil vanti. En verði útlendir seðlar fluttir inn í landið, leiðir af því sá ókostur, að allir forvextir hækka.

Það var rangt hjá hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.), er hann sagði hjer í deildinni um daginn, að honum hafi borið skylda til að legga frv. um seðlaútgáfurjettinn fyrir þingið. Honum bar að eins skylda til að leggja fram samningana við Íslandsbanka, en ekki í frv.-formi. nema hann væri þeim samþykkur, sem hann og var, þótt hann hafi heykst á því nú á þinginu. Jeg geri enn fremur ráð fyrir, að ef stjórninni þykir ástæða til, skýri hún frá, hvers vegna hún vildi fá frestinn framlengdan til 1. maí 1921.